fbpx

Rekstur útflutningsfyrirtækja – Keppni í ólympískri heppni?

Rekstur í okkar helstu útflutningsgreinum á Íslandi, stórum og smáum á það sameiginlegt að ytri sveiflur og tilviljanakenndar ákvarðanir gera stjórnendum erfitt fyrir að reka sín fyrirtæki með langtíma sjónarmið að leiðarljósi.  Fyrirtæki sem eru í örum vexti og fjárfestingum þurfa að geta gengið að ákveðnu rekstaröryggi til þess að halda velli og eflast. Það er í raun alveg sama hvaða útflutningsgrein er skoðuð, alltaf eru þetta sömu atriðin sem ógna stöðuleika í rekstri s.s hár flutningskostnaður, hár launakostnaður, hátt gengi og óstöðugleiki krónunnar, skortur á hæfu vinnuafli og síðast en ekki síst opinberar álögur sem oft á tíðum eru settar á án aðlögunar og oftast metnar út frá löngu liðnum rekstrar og uppgjörsforsendum.

Fréttir einsog „Við þurfum að flytja framleiðsluna úr landi vegna ósamkeppnishæfra aðstæðna hér á landi“ „við þurfum að skrá kaupskipin undir öðrum fána“, „við þurfum að ráða ódýrara vinnuafl erlendis frá“,  „við þurfum að  loka skrifstofum okkar á Íslandi og skrá fyrirtækið á markað erlendis“  eru alls ekki ásættanlegar og þetta ástand er og getur verið verulega hættulegt.

Útflutningsgrein eins og ferðaþjónusta er t.d á samkeppnismarkaði við aðra áfangastaði um allan heim og keppast þannig um einn og sama ferðamanninn. Það sem ræður því hvert ferðamaðurinn ákveður að fara eru auðvitað margir þættir en verð vöru, gæði þjónustu og möguleikar á góðri upplifun eru sennilega þeir þættir sem mestu ráða. Möguleiki á því að láta verð vöru/þjónustu kosta það sem hún þyrfti mögulega að kosta til þess að þjónusutaðili fengi nauðsynlega framlegð (m.a til að greiða af fjárfestingum, laun og skatta) getur ekki hækkað meira en uppað ákveðnum sársauka mörkum kaupanda og er Ísland núþegar meðal dýrustu áfangastaða í heimi.

Íslensk ferðaþjónustu fyrirtæki eiga ekki þann kost að flytja starfsemi sína úr landi og framkvæma þjónustuna annarsstaðar, eða hvað? Gætu fleiri og fleiri íslenskar ferðaskrifstofur t.d ákveðið að flytja hluta starfseminnar erlendis og þannig náð að halda samkeppnishæfni í launum? Opinberum álögum og jafnvel öðrum rekstarþáttum?. Þetta er raunveruleg hætta og að vissu leyti óskup skiljanleg, tölfræðin segir okkur að það geta ekki allir unnið keppnina í heppni og alls ekki óeðlilegt að fyrirtæki reyni að verja fjarfestingar sínar og rekstur með öllum tiltækum ráðum.

Samkeppnishæfni Íslands fer dvínandi og í úttekt IMD viðskiptaháskólans sem Viðskiptaráð kynnti á dögunum fellur Ísland um fjögur sæti niður í 24. sæti. Þar að auki eykst bilið milli Íslands og hinna Norðurlandanna, sem öll eru ofar á listanum. Það sem kveikir á viðvörunarbjöllum er að stjórnendur stórra fyrirtækja eru svartsýnni en áður og meta hættuna af flutningi fyrirtækja á erlenda grundu meiri en áður.

Það er fáheyrt eins og kemur fram í úttekt Viðskiptaráðs að á sama tíma og við stöndum hvað fremst þjóða í félagslegum framförum og lífskjörum að  þá sé samkeppnishæfni okkar í atvinnulífi ógn við samfélagið. Ef fyrirtækjum gengur vel þá blómstrar samfélagið og hagkerfið sem að sjálfsögðu eykur lífsgæði okkar og þá opinberu þjónustu sem okkur er veitt úr sameiginlegum sjóðum.

Stöndum vörð um íslensk fyrirtæki og verum stolt af því þegar vel gengur, það er ekki glæpsamlegt og ætti alls ekki að tengjast ólympískri keppni í heppni.

Hægt er að lesa styttri útgáfu af þessari grein sem birtist í Fréttablaðinu hér.