fbpx

Ábyrg ferðahegðun

 

Í dag virkjaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, hnapp sem settur var upp á Keflavíkurflugvelli þar sem ferðamenn sem koma til Íslands geta ýtt á hnappinn og heitið því að vera ábyrgir ferðamenn. Verkefnið er unnið undir merkjum Inspired by Iceland og í samstarfi við Isavia og aðila að ábyrgri ferðaþjónustu. Á myndinni hér að ofan má sjá ásamt ráðherra fulltrúa frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Isavia, Íslandsstofu, Landsbjörgu, Markaðsstofu Reykjaness, Festu, Íslenska ferðaklasanum og Icelandair Group.

The Icelandic Pledge nær til átta atriða sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun. Þau atriði eru að bera virðingu fyrir náttúrunni, að skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, að koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland. Hægt er að ýta á hnappinn í flugstöðinni ásamt því að strengja heitið á www.inspiredbyiceland.com/icelandicpledge

Um 32.000 manns frá 100 löndum hafa nú þegar strengt heitið en Ísland er fyrsta landið til þess að bjóða gestum sínum upp á að strengja svona heit. Framtakið hefur vakið athygli fyrir utan landsteinanna bæði hjá fjölmiðlum og öðrum áfangastöðum með tilliti til sjálfbærni. Ferðamenn geta svo merkt myndir sínar eða uppfærslur á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #icelandicpledge.

Auk þess geta þátttakendur í ábyrgri ferðaþjónustu nálgast The Icelandic Pledge borðspjöld í Húsi ferðaklasans sem hægt er að hafa sýnileg fyrir gesti og viðskipavini. Einnig mun Landsbjörg dreifa yfir 3000 spjöldum með heitum beint til ferðamanna víða um land á SafeTravel deginum seinna í sumar.

Hægt er að lesa nánar um verkefnið á vefsíðu Íslandsstofu hér.

Við í Íslenska ferðaklasanum viljum biðja klasaaðila um að vera dugleg að vekja athygli á verkefninu með því að deila því á samfélags- og vefmiðlum.