fbpx
Sögur af ábyrgum ferðaþjónustaðilum

Aðilar eru þátttakendur í hvatningaverkefni um Ábyrga ferðaþjónustu

Íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu leggja æ meiri áherslu á að starfa í sátt við samfélagið, leggja áherslu á sjáfbæra þróun og metnað í að byggja upp góða ferðaþjónustu.  Rætt var við nokkra stjórnendur og frumkvöðla í ferðaþjónustu og þeir beðnir um að tala um áherslur sínar í samfélagsábyrgð og hvað skipti mestu máli fyrir greinina til framtíðar. Í viðtölunum var rauði þráðurinn sameiginleg áhersla á að ferðaþjónustan styrki byggð í öllu landinu. Þau kappkosta að ráða fólk af svæðunum til vinnu, er afar umhugað um náttúruna og vilja að Ísland verði til fyrirmyndar í ferðaþjónustu. Flest nefna þau einnig mikilvægi þess að standa skil á opinberum gjöldum, því án þess verði engir innviðir byggðir en mikilvægt er að upplifun ferðamanna sé góð og byggð á gæðaþjónustu, annars komi þeir ekki aftur.

Við fengum Evu Magnúsdóttur frá Podium til liðs við okkur en hún tók saman sögur og viðtöl við nokkra forsvarsmenn fyrirmyndar ferðaþjónustufyrirtækja.

Ísland verði til fyrirmyndar í sjálfbærri ferðaþjónustu
Elín Sigurveig Sigurðardóttir

Elín Sigurveig Sigurðardóttir

Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa staðið í farabroddi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í þróun ferða, umhverfismálum, menntun starfsmanna og öryggismálum í langan tíma. Að sögn Elínar Sigurveigar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins hefur fyrirtækið frá upphafi lagt mikla áherslu á umhverfismál i ferðum og rekstri.

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn eru einn af stofnaðilum Íslenska ferðaklasanum. Þeir taka þátt í hvatningaverkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu auk þess sem dótturfyrirtæki þeirra, Iceland Rovers eru þátttakendur í Ratsjánni.

,,Við skoðum alla þætti við framkvæmd ferðarinnar þegar hún er búin til.  Hvaða þjónustu er möguleg að kaupa á staðnum? Hvernig losum við okkur við sorp og úrgang í ferðinni? Við leiðarval er tekið tillit til viðkvæmrar náttúru o.s.frv. “ segir Elín.

,,Við erum sveigjanleg þegar kemur að framkvæmd ferðanna, t.d. breytum við fjölda farþega á hvern leiðsögumann í jöklagöngunum með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Þannig eru færri farþegar á hvern leiðsögumann yfir veturinn þegar jökullinn er harður sem gler. Þannig tryggjum við öryggi gestanna.  Við breytum skipulagi ferða á vorin þegar frost er að fara úr jörðu og færum ferðir frá þeim svæðum þar sem náttúran er sérstaklega viðkvæm.” segir hún.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn leitast við að ráða fólk sem býr á þeim svæðum sem starfsemin er. Þau leggja mikið upp úr því að fara að lögum og reglum í sinni starfsemi og virða kjarasamninga starfsfólks.

,,Við stofnuðum umhverfissjóð 2014 sem greiðir annars vegar út styrki til verkefna um allt land en hins vegar styrkir verkefni á Laugaveginum þar sem okkur fannst full þörf á að byggja upp og verja landið fyrir skemmdum. Við erum með víðtæka fræðsludagskrá sem nær til allra starfsmanna í fyrirtækinu, jafnt þeirra sem starfa við leiðsögn, akstur eða inn á skrifstofu. “ segir Elín.   

,,Mér finnst skipta mestu máli að bæta rekstraröryggi og afkomu í greininni, bæta fagmennsku og gæði og stefna að því að Ísland verði til fyrirmyndar þegar kemur að sjálfbærri ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er afl sem getur eflt byggðir um allt land, það er því ákaflega mikilvægt að miða allar aðgerðir við að fá ferðamenn til að stoppa lengur og ferðast víða.“ segir Elín.

Með gullmerki í umhverfismálum
Berglind Viktorsdóttir

Berglind Viktorsdóttir

Hey Iceland, áður Ferðaþjónusta bænda, hefur yfir 30 ára reynslu af ferðaþjónustu. Fyrirtækið er mjög umhverfismiðað og þurfa ferðaþjónustubændur að standast ákveðna staðla til þess að geta starfað undir merkjum HEY. Fyrirtækið setur gæðamál og fagmennsku á toppinn.

Hey Iceland er einn af stofnaðilum Íslenska ferðaklasans og hefur framkvæmdastjóri félagsins verið formaður stjórnar frá stofnun hans 2015. Hey er einnig þátttakandi í hvatningaverkefni um Ábyrga ferðaþjónustu.

,,Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur samvinna við félaga innan Hey Iceland verið mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Gagnkvæm virðing og traust skiptir hér sköpum og í þessari sameiginlegu vegferð hefur áhersla verið lögð á að saman fari gæði í þjónustu og aðbúnaði, sérstöðuna þar sem gestir fá tækifæri til að skipta við og tengjast fólkinu sem býr og starfar í sveitum landsins. Þá hafa umhverfismálin verið okkur hugleikin lengi og áhersla á að bæði fyrirtækið og félagsmenn starfi í sátt við menn og náttúru.  Fyrirtækið er þátttakandi í Vakanum og er með gullmerkið í umhverfisþættinum. Markmið okkar er að allir félagarnir taki upp Vakann á næstu misserum.” segir Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Hey Iceland.

Að mati Berglindar er ljóst að ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur áhrif á bæði náttúru og samfélag. Hún segir það mikilvægt að fyrirtæki sem starfa í greininni viðurkenni það og finni leiðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum og hámarka jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar. Þannig geti þessi atvinnugrein stuðlað að bættri þjónustu og aukinni fjölbreytni fyrir heimamenn, sem aftur getur skilað sér í meiri sátt almennings þegar kemur að þolmörkum innan greinarinnar.

 ,,Það sem mér finnst skipta mestu máli fyrir íslenska ferðaþjónustu í framtíðinni er að uppbygging ferðamannastaða og vöxtur fyrirtækja séu í takt við aukinn ferðamannastraum.  Dreifa þarf ferðamönnum betur um landið þannig að landsbyggðin njóti meiri tekna af ferðamönnum á heilsársgrunni.” segir Berglind.

Horft til CO2 losunar við val á bílum
Steingrímur Birgisson

Steingrímur Birgisson

Bílaleiga Akureyrar er stærsta bílaleiga landsins og leggur fyrirtækið mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð. Við val á sérhverjum nýjum bíl sem er keyptur horfa stjórnendur fyrirtækisins til CO2 losunar og eldsneytiseyðslu. Það endurspeglar áherslur fyrirtækisins í umhverfismálum. Fyrirtækið rekur yfir 20 afgreiðslustöðvar um allt land og styður vel við samfélagið á hverjum stað m.a. íþróttafélög og skógrækt. Þá má taka fram að Höldur eru einn af stofnaðilum Íslenska ferðaklasans og þátttakendur í hvatningaverkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu.

,,Við höfum mælt vatnsnotkun í nokkur ár og við fórum í tilraunaverkefni með Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnvöldum um notkun á rafbílum í starfseminni árið 2010 og höfum fjölgað þeim á hverju ári.” segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds.

Að hans mati felst samfélagsábyrgð fyrirtækisins framar öllu í því að fara að þeim lögum og reglum sem gilda í landinu.  ,,Við erum fyrsta fyrirtækið í okkar starfsgrein til þess að fá ISO 9001 gæðavottun og ISO 14001 umhverfisvottun. Við skilum umhverfisskýrslu á hverju ári og leggjum okkur fram um að bæta árangurinn. Við höfum verið aðilar að Vakanum frá upphafi. Í tengslum við þau kerfi þá höfum við ábyrgð okkar ávallt í huga hvað varðar bæði náttúruna sem og rekstur fyrirtækisins,  umhverfi og samfélag.   Við horfum til lengri tíma við ákvarðanatökur og reynum eftir fremsta megni að líta til allra átta og taka tillit til allra mögulegra og ómögulegra þátta.” segir hann.

Að mati Steingríms er ferðaþjónusta afskaplega mikilvæg grein að því marki að hún hjálpar okkur Íslendingum að halda landinu í byggð. Auk þess verður fjölbreyttara úrval vöru og þjónustu sem síðan leiðir til aukinna lífsgæða þeirra sem búa á viðkomandi svæðum.

,,Ferðaþjónustan er mjög mannaflsfrek grein, ef við styðjum ekki við innviðauppbyggingu með beinum og óbeinum hætti,  þá flyst fólk á brott. Þá höfum ekkert að bjóða þeim sem vilja sækja okkur heim og ekkert fólk til þess að sinna viðskiptavinum okkar.” segir Steingrímur.

Ábyrg ferðaþjónusta í sátt og samlyndi við landsmenn
Friðrik Árnason

Friðrik Árnason

Frumkvöðullinn Friðrik Árnason á og rekur Hótel Bláfell á Breiðdalsvík.  Á Bláfelli er  fjölbreytt starfsemi og mikill metnaður lagður í  að byggja upp góða ferðaþjónustu. Bláfelli tileyra 46 herbergi á hótelinu, fjallahúsið glæsilega Aurora Lodge sem opnaði 2016, íbúðahótel, ferðaskrifstofan: Travel East tour operator, verslunin í Kaupfélaginu; the Old General Store. Einnig er Bláfell í samstarfi við frystihúsið, The Fish Factory sem búið er að breyta í glæsilegan veislusal. Friðrik tekur þátt í tveimur verkefnum á vegum Íslenska ferðaklasans en það er hvatvningaverkefnið um Ábyrga ferðaþjónustu og Ratsjáin.

,,Í öllu okkar starfi hér á Breiðdalsvík höfum við lagt áherslu á að virða okkar samfélagslegu ábyrgð. Við erum gríðarlega stór vinnuveitandi í smáu bæjarfélagi og því fylgja skyldur. Við styðjum vel við svæðið m.a. með því að ráða fólk af svæðinu í störf og styðja við björgunarsveitir og  kvenfélag. Við leggjum áherslu á að borga starfsmönnum mannsæmandi laun og leitumst við að koma vel fram við þá. Það er líka mikilvægt í okkar starfi að standa skil á opinberum gjöldum, þar á meðal á sköttum, “ segir Friðrik.

Verið er að vinna nýja umhverfisstefnu fyrir fyrirtækin en hún mun vísa veginn í umhverfismálum. Sorp er að mestu flokkað og Hótel Bláfell er í umsóknarferli að Vakanum sem er gæðakerfi ferðaþjónustunnar.

,,Samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu skiptir máli að mínu mati vegna þess að með henni aukum  við ánægju þeirra sem vinna hjá okkur. Að auki tel ég að við aukum ánægju ferðamannanna með því að reka ábyrga ferðaþjónustu.  Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er best tryggð með því að greinin starfi í sátt og samlyndi við þjóðina. Við þurfum öll að taka ábyrgð á því að ganga vel um landið okkar. Við þurfum jafnframt að starfa í sátt við fólkið í landinu. Sem starfsgrein þá eigum við að ganga á undan með góðu fordæmi, þeir sem vilja vinna af ábyrgð þurfa að smita þau vinnubrögð út til hinna svo þeir vilji vera eins. Ferðamaðurinn dæmir síðan um hvort það hafi tekist. “ segir Friðrik.

Uppbygging samfélags í gegnum ábyrga ferðaþjónustu

Björg Árnadóttir

Björg Árnadóttir,  framkvæmdastjóri Midgard Adventure, hefur tekið þátt í að byggja upp vaxandi ferðaþjónustufyrirtæki á Hvolsvelli með ferðaskrifstofu, gistingu, veitingastað og ævintýraferðum. Fyrirtækið hefur mikil áhrif á samfélagið og skapar fjölda starfa fyrir fólkið í nærsamfélaginu auk þess sem brottfluttir sjá tækifæri í að koma heim.  Midgard Adventure er þátttakandi í hvatningaverkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu.

,,Ég hugsa alltaf um ábyrga ferðaþjónstu þannig að við lifum í sátt við umhverfi okkar.  Við bjóðum starfsmönnum eftirsóknarvert vinnuumhverfi allt árið. Við lifum í sátt við náttúruna, umgöngust hana af virðingu með því að skilja ekki eftir okkur ummerki. Við lifum í sátt við yfirvöld með því að skila hagnaði, greiða skatta og fylgja reglum. Við lifum í sátt við gestina okkar með því að skapa þeim einstaka upplifun og hjálpa þeim að njóta dvalarinnar á Íslandi. Við lifum í sátt við samkeppnisaðila okkar og samstarfsaðila með því að efla hvert annað og vinna saman að því að auka ánægju gesta okkar.” segir Björg. 

,,Ábyrg ferðaþjónusta og samfélagsábyrgð tengjast órjúfanlegum böndum. Eftir að ég fluttist á Hvolsvöll þá kom mér á óvart að upplifa einlægan áhuga og jákvæðni nágranna okkar gagnvart verkefnum okkar. Það setur skyldur á herðar okkar líka að vera orðin ákveðin stærð í bæjarfélaginu og skattgreiðandi á svæðinu. Hér getum við því ekki farið á hausinn í friði – það myndi hafa áhrif á marga og allir myndu vita af því. Mikilvægi þess að standa sig er því mjög mikið. “

,,Mér finnst ómetanlegt þegar nágrannar okkar koma hér inn, kíkja, spyrja hvernig gangi og svo framvegis. Það er draumur minn að þannig verði það áfram og þannig náum við líka að tengja saman erlenda og innlenda gesti og auka þar með upplifun erlendra ferðamanna og vonandi líka skilning innfæddra á ferðaþjónustu og gildi hennar fyrir samfélagið. 

Samfélagsábyrgð okkar felst líka í því að veita viðskiptavinum þannig þjónustu að þeir komi aftur á Hvolsvöll. Markmið okkar er að hafa áhrif á líf gesta okkar á einhvern máta og að skila þeim aftur heim aðeins breyttum frá því að þeir komu. “ segir Björg.

Starfar samkvæmt alþjóðlegum markmiðum um sjálfbæra þróun

Sara Sigmundsdóttir

Sara Sigmundsdóttir er sölu- og markaðsstjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins  Eldingar á Akureyri. Hún hefur verið í samstarfi við Ferðaklasann í gegnum Ratsjána sem er nýsköpunar og þróunarverkefni fyrir stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja. Að sögn Söru töldu eigendur og lykilstarfsmenn Eldingar nauðsynlegt að koma umhverfismálum í betra horf þar sem starfsemin fer öll fram í náttúrunni eða á sjó.

,,Ákveðið var að taka upp umhverfisvottunarkerfi og árið 2006 voru gefin fyrirheit um góða umgengni við hafið og umhverfið í heild. Vorið 2006 fengu bátar fyrirtækisins svokallaðar Bláfánaveifur frá Landvernd. Í framhaldi af því var ákveðið að sækja um aðild að Green Globe umhverfisvottunarkerfinu sem kallast í dag EarthCheck.

Elding í Reykjavík starfar því samkvæmt alþjóðlegum markmiðum um sjálfbæra þróun og byggir á umhverfisvænum starfsháttum auk þess að vera eina hvalaskoðunarfyrirtækið í heiminum með umhverfisvottun frá EarthCheck. Fyrirtækið þarf að sýna fram á úrbætur ár hvert og fer í gegnum ítarlegt úttektarferli. Þá er fyrirtækið þátttakandi í Vakanum og var fyrsta íslenska fyrirtækið til að fá úttekt þar. “ segir Sara.

Elding hefur að auki verið virkur þáttakandi í að móta reglur um umgengi við hvalina, og vann með Bláfánanum að mótun reglna um bláfánaveifu fyrir hvalaskoðunarbáta. Stjórendur fyrirtækisins hafa tekið þátt í óteljandi nefndum og ráðum um mótun og framþróun íslenskrar ferðaþónustu.

,,Það er mikilvægt að ferðaþjónustan geti starfað í sátt við samfélagið. Mestu máli skiptir núna að fá stöðuleika í rekstarumhverfið. Sífelldar breytingar á skattalögum og aðrar álögur á greinina sem hafa verið lagðar á eða fyrirhugað er að legga á sem og flökt á genginu getur hæglega gert útaf við mörg fyrirtæki í greininni. Þetta gæti þýtt að hægist á heilsársferðaþjónustu sem verið er að byggja upp á landsbyggðinni.

Þá er mikilvægt að ná sátt um ferðaþjónustuna í samfélaginu svo að hún geti lifað í sátt við íbúana.  Það er kominn tími til þess að hætta að tala um ferðaþjónustuna með upphrópunum og taka málefnalega á hlutunum.” segir Sara.