fbpx

Hefur hert eftirlit heimagistingar haft áhrif á minna framboð gistirýma hjá Airbnb?

Í upphafi sumars undirrituðu ráðherra ferðamála og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samning með hert eftirlit um heimagistingu með fjárveitingu uppá 64mk til embættisins. Tilgangur samningsins var að öðlast betri yfirsýn yfir raunverulegt umfang heimagistingar, tryggja rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og starfsemin fari þar með að þeim lögum sem um hana gilda.

Hert eftirlit með heimagistingu var hótel og gistieigendum eðlilega mikið fagnaðarefni, enda veikir leyfislaus heimagisting samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem skila lögbundnum sköttum og skyldum til samfélagsins um land allt.

En hefur þetta virkað? Hafa aðgerðirnar borið árangur?

Ef samanburður mánaðanna maí júlí á árunum 2017 og 2018 er skoðaður í mælaborði ferðaþjónustunnar þá kemur í ljós að framboð gistirýmis og fjöldi leigusala hefur dregist saman í báðum þessum mánuðum. Þannig fækkar þeim sem leigja á Airbnb um 17% milli ára. Ef höfuðborgarsvæðið er skoðað, þar sem langmesta framboðið hefur verið, fækkar Airbnb leigusölum um 24%. Á sama tíma minnkar framboð á gistirými um 24-30%, misjafnlega mikið eftir tegundum rýma. Þetta gæti þýtt:

  • að hert eftirlit eða jafnvel bara umræðan um hert eftirlit sé að hafa áhrif á þennan markað. Nú virðist vera ágæt fylgni á milli fjölda ferðamanna (3-4%) og fjölda gistinótta á hótelum og gistiheimilum (4%).
  • Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands kemur fram að á fyrstu 6 mánuði ársins fjölgar gistinóttum – í gegnum vefsíður um 10% sem gefur til kynna að aðrar vefsíður en Airbnb hafi sótt í sig veðrið. Fjölgun gistinátta er mest í húsbilum eða um 34% og í  annarri innigistingu (hjá vinum og ættingjum, húsaskiptum) er hún um 12%.

Áhugavert verður að fylgjast með þrónun gistingar á næstu mánuðum.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir,

framkvæmdastjóri Ferðaklasans.