fbpx

Sumarkveðja framkvæmdastjóra

Tímamót og þakklæti

Flest viljum við og styðjum breytingar en fæst viljum við samt í rauninni breytast og þar er ég engin undantekning. Ég hef verið svo lánsöm að sinna starfi framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans síðan í ársbyrjun 2016. Á hverjum degi nánast má merkja breytingar á þessum tíma í því umhverfi sem ferðaþjónustan er í, fjölgun ferðamanna, fækkun, hrun, frost og nú þráðbeinn vöxtur. Það hefur heldur betur verið lærdómsríkt að vinna með þessum fjölbreytta hópi fyrirtækja og þessum ótrúlegu stjórnendum sem hafa vaðið hvern skaflinn á fætur öðrum. Þvílíka seiglan og baráttuþrekið sem býr í þessari grein.

Það er ógjörningur að minnast ekki á og þakka einum manni sérstaklega samfylgdina þessi tæpu sjö ár. Sævar Skaptason er ekki beint eins vetra í bransanum en hann býr bæði yfir ótrúlegri þekkingu og ekki sýst fagmennsku þegar kemur að því að standa ölduna. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið þennan góða skóla og ómetanlega vináttu en Sævar hefur ekki bara sitið sem stjórnarformaður síðustu ár heldur hefði þessi vettvangur klasans aldrei orðið til nema af því að hann trúði því og hvatti rétt fólk á réttum tíma til að taka höndum saman og vinna að framtíðarþróun og uppbyggingu á gæða ferðaþjónustu á Íslandi. Hafi einhverntímann verið þörf fyrir sterkum samstarfsvettvangi og góðu tengslaneti þá sannaði það sig í faraldri síðustu tveggja ára að Íslenski ferðaklasinn var vettvangur þar sem stjórnendur og eigendur ferðaþjónustufyrirtækja um allt land gátu sótt sér innblástur og stutt hvert við annað á erfiðum tímum.

Breytingafasi er og verður fylgifiskur ferðaþjónustu í þróun. Það sem við þurfum að gera og sammælast um er að minnka dífurnar, vanda okkur við endurræsinguna og stíga fram á réttum forsendum. Þær forsendur verða að tengjast sjálfbærni og jákvæðum áhrifum á það samfélag sem við lifum í og sjáum framtíðina okkar byggjast á. Meira er ekki betra, gæði og langtíma aðgerðir með náttúruna, félagslega uppbyggingu og fjárhagslegan stöðugleika er lykillinn. Á meðan fyrirtækin sem við vinnum fyrir hjá Íslenska ferðaklasanum eru sammála um að þetta séu aðalatriðin, þá göngum við stolt inní nýtt starfsár og erum tilbúin að leggja okkar af mörkum við að styðja og hvetja áfram fyrirtækin stór og smá.

Á árinu standa yfir fleiri breytingar en Árni Freyr okkar allra sem starfað hefur sem verkefnastjóri hjá Ferðaklasanum síðan 2018 mun hverfa til nýrra ævintýra á erlendri grund. Hann hefur sinnt klasasamfélaginu okkar af mikilli alúð og verður sárt saknað af þeim vettvangi. Við þökkum Árna allt gott og óskum honum alls hins besta í framtíðar verkefnum. Í upphafi ársins fengum við til liðs við okkur hana Rakel Theodórsdóttir en hún kemur inn af miklum krafti með sinn einstaka persónuleika og áhuga á að miðla reynslu og þekkingu, sér í lagi þegar kemur að sjálfbærni, hæfni og gæðum í íslenskri ferðaþjónustu. Á starfsárinu höfum við líka verið svo lánsöm að vinna með fjölda sérfærðinga sem koma til skemmri eða lengri tíma inn í verkefni með okkur. Vil ég þar sérstaklega þakka frábært samstarf við Svövu Björk Ólafsdóttur í Ratsjánni, Brynju Laxdal í Nordic Food in Tourism, Daniel Byström hönnuðinum okkar, Rósbjörgu Jónsdóttir vegna What Works ráðstefnunnar og útgáfunni af Virðisauka í ferðaþjónustu 2.0, Hermann Ottósson sem kom með okkur í Ratjsánna, Valgeir Ágústsson sem starfaði með klasanum á starfsárinu,  Davíð Jóhannsson frá SSNV sem starfar með okkur í TOURBIT evrópuverkefninu, Magdalenu Falter vegna Hacking Heklu og NorReg og síðast en ekki síst, Ólöfu Ýrr Atladóttur sem stýrir NorReg, Nordic Regenerative Tourism fyrir hönd Íslenska ferðaklasans.

Á síðustu dögum og vikum höfum við því miður heyrt fregnir af erlendum ferðamönnum sem hafa týnt lífi sínu á Íslandi. Það er ömurleg og sorgleg staðreynd sem við  megum aldrei sætta okkur við. Það er hvatning mín, hér og nú að við vöndum okkur öll í mótttöku gesta og setjum öryggi gesta okkar efst, eflum fræðslu og pössum uppá hvert annað.  Leiðbeinum, stoppum fólk af og uppfærum öryggisáætlanir og kröfur í takti við aðgengi og umfang.  Við getum gert betur.

Að lokum. Njótið íslenska sumarsins með öllum þeim ævintýrum sem það hefur uppá að bjóða. Munið að hlú að ykkur og hlaupa hægar, þá komumst við lengra.

Ásta Kristín