fbpx

Aðalfundur Íslenska ferðaklasans 2022

Þann 19. maí sl. var aðalfundur Íslenska ferðaklasans haldinn í Grósku.

Dagskrá fundarins var samkvæmt samþykktum Íslenska ferðaklasans:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Reikningar liðins starfsárs lagðir fram til samþykktar
  4. Tillaga stjórnar um félagsgjöld lögð fram til samþykktar
  5. Kjör endurskoðenda
  6. Kosning stjórnar
  7. Breytingar á ákvæðum samþykkta félagsins
  8. Önnur mál

Rósbjörg Jónsdóttir stýrði fundinum. 

Ný stjórn Íslenska ferðaklasans sem kjörin var á aðalfundinum:

  • Helga Árnadóttir – Bláa lóninu, til vara Bryndís Björnsdóttir
  • Sölvi Sturluson – Íslandsbanka, til vara Hjörtur Steindórsson
  • Elín Árnadóttir – Isavia, til vara Hrönn Ingólfsdóttir
  • Dóra Gunnarsdóttir – Landsbankanum, til vara Þorsteinn Hjaltason
  • Andrés Jónsson – Icelandair Group.
  • Rannveig Grétarsdóttir, Elding
  • Berglind Viktorsdóttir, Hey Iceland
  • Jón Gestur Ólafsson, Höldur, Bílaleiga Akureyrar

Aðalfundurinn var jafnframt síðasti fundur stjórnarformannsins, Sævars Skaptasonar. Sævar var stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans í sjö ár eða frá 2015-2022. Þá vann Sævar einnig ötullega að formlegri stofnun klasans á árunum 2011-2015. Viljum við nýta tækifærið og þakka Sævari fyrir gott, farsælt og óeigingjarnt starf á undanförnum árum og óskum honum velfarnaðar í öllu því sem hann kemur til með að taka sér fyrir hendur í nánustu framtíð.

Ný inn í stórn Íslenska ferðaklasans koma þau Berglind Viktorsdóttir frá Hey Iceland og Jón Gestur Ólafsson frá Höldi, Bílaleigu Akureyrar. Hafa þau bæði unnið náið með Íselnska ferðaklasanum síðustu árin og þekkja því vel þau verkefni sem bíða.  Óskum við þeim til hamingju með kosninguna og hlökkum til að vinna með þeim. 

Nú fljótlega mun nýja stjórnin koma til fyrsta fundar og skipta með sér verkum.

Fyrstu útgáfu af Ársskýrsla 2021-2022 er hægt að nálgast hér sem jafnframt verður uppfærð á næstu dögum og gefin út með enn meiri upplýsingum um starfsárið sem er framundan.

Kveðja formanns

Í einni af ferðum mínum um Fjallabak gisti ég eitt sinn ásamt góðum hópi ferðafélaga í skála Ferðafélags Íslands í Emstrum, að loknum kvöldverði var kíkt í gestabók hússins og rakst ég á kafla sem skrifaður var í tilefni 80 ára afmælis Frú Sigríðar. Kaflinn byrjaði á þessum skemmtilegu orðum: „Frú Sigríður lítur yfir farin veg og sér ekki eftir neinu“ … Ég vil í dag gera orð Frú Sigríðar að mínum, þegar ég lít yfir farinn veg með Íslenska ferðaklasanum, þá sé ég ekki eftir neinu.

Það var mikið gæfuspor haustið 2012 að taka þátt í samstarfi góðra félaga og fyrirtækja sem ákváðu að kortleggja íslenska ferðaþjónustu í anda klasaaðferðafræði dr. Porter. Markmiðið var að tengja saman ólíka hópa innan og utan ferðaþjónustunnar auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan greinarinnar. Þessi vinna leiddi síðan af sér að þann 12. mars 2015 var Íslenski ferðaklasinn stofnaður á fjölmennum stofnfundi sem haldinn var á Hótel Reykjavík Natura. Á fyrsta stjórnarfundi kom það í minn hlut að taka að mér formennsku í stjórninni, fyrsta árið eftir formlega stofnun og undirbúningsárin vann Rósbjörg Jónsdóttir náið með mér og stjórninni en þann 4. janúar 2016 hóf Ásta Kristín Sigurjónsdóttir störf sem klasastjóri Íslenska ferðaklasans.

Í byrjun var stundum á brattann að sækja, oft var spurt. Eru ekki aðrir að sinna þessum verkefnum? Eru þið ekki að fara inn á verksvið annarra? Við kusum að svara með því að vinna faglega með klasaaðferðafræðina að leiðarljósi, að sýna frumkvæði og tengja saman ólíka aðila og stuðla að einingu og faglegu samstarfi.

Það yrði of langt mál að tíunda hér alla þá viðburði sem Ferðaklasinn hefur staðið fyrir frá stofnun, einnig að nafngreina allt það góða fólk sem setið hefur í stjórn klasans frá byrjun, ég legg heldur ekki í að telja alla tölvupóstanna og símtölin. Árangurinn er glæsilegur, í dag er Íslenski ferðaklasinn virkt og viðurkennt afl í íslenskri ferðaþjónustu og í erlendu samstarfi og verkefnavinnu. Góður árangur er einnig afrakstur ómældrar vinnu, þrautseigju og hæfni starfsfólks klasans í gegnum árin. Ég vil þakka Rósbjörgu fyrir hennar hlutverk í aðdraganda að stofnun Íslenska ferðaklasans einnig vil ég sérstaklega þakka Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur fyrir hennar sérstaklega ánægjulega samstarf, heiðarleika, dugnað og þolinmæði.

Að þessu sögðu endurtek ég orð Frú Sigríðar: Ég sé ekki eftir 10 ára vinnu fyrir Íslenska ferðaklasann.

Sævar Skaptason

Skýrsla stjórnar:

Ný stjórn Íslenska ferðaklasans var kosin á aðalfundi þann 16.júní 2021 og hélt stjórn alls átta stjórnarfundi á starfsárinu. Fyrir aðalfundinn lá fyrir skýr stefna félagsins næstu þrjú árin sem byggði m.a á samtali við klasafélaga og rýni í kjarna starfsemina. 

Vettvangur Íslenska ferðaklasans hélt áfram að standa vörð um kjarnaverkefnin sem snúa að sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu, nýsköpun og bættum rekstri ásamt aukinni notkun og hæfni í stafrænni þróun. Starfsárið einkenndist af heimsfaraldri fram eftir ári og breyttu fyrirkomulagi funda, vinnustofa og viðburða sem áfram voru haldnir að mestu leyti á rafrænu formi eða með blönduðum hætti.

Alls stóð Íslenski ferðaklasinn fyrir tæplega 40 viðburðum sem má ætla að hafi náð til yfir 5000 manns en við höfum lagt mikið uppúr því að hafa upptökur af viðburðum og erindum aðgengileg þannig að sem flestir geti nýtt sér það sem fram fer í starfinu.  Hluti viðburða var opin öllum, aðrir voru einungis ætlaðir fyrir aðildafélaga og svo enn aðrir fyrir þátttakendur í sér skilgreindum verkefnum eins og Ratsjánni og Ábyrgri ferðaþjónustu. Fjöldi þátttakenda í Ratsjánni náði nýjum hæðum en alls hafa yfir 100 fyrirtæki tekið þátt frá öllu landinu á rekstrarárinu. Framkvæmd verkefnisins varð möguleg með góðum stuðningi landshlutasamtakanna allra auk þess að hægt var að nýta að hluta til styrk frá Byggðaáætlun sem lauk á árinu 2021. Þá greiddu þátttakendur einnig hóflegt þátttökugjald sem haldið var í lágmarki. Framkvæmd á Ratsjánni er í höndum Íslenska ferðaklasans og RATA ráðgjafafyrirtækis auk stuðnings frá atvinnuráðgjöfum landshlutasamtakanna.

Yfir fimmtíu fyrirtæki eru skráð til leiks í nýju fræðsluverkefni Ábyrgrar ferðaþjónustu sem hófst á vormánuðum 2022 og líkur í árslok 2022.  Ferðaklasinn fjárfesti ríkulega í kjarnaverkefnunum sínum og gekk þarafleiðandi töluvert á eigið fé félagsins.

Ferðaklasinn er óhagnaðardrifið félag sem ber að fjárfesta fyrst og fremst í verkefnum sem koma breiðum hópi aðildafélaga sem best. Við upphaf faraldurs var ákveðið að gefa aðildafélögum með kjarnarekstur sinn í ferðaþjónustu 70% afslátt af aðildagjöldum en sá afsláttur mun falla út í þrepum og vera að fullu afnumin í lok árs 2022. Íslenski ferðaklasinn hefur fjárfest í verðmætum aðilum sem vinna í sérverkefnum klasans bæði innlendum og erlendum og bætast því í kröftugt starfsmannateymi sem fyrir er. Það er mikill kostur í starfi sem þessu að hafa þann sveigjanleika að geta ráðið aðila tíma og verkefnabundið með það fyrir augum að hámarka árangur af verkefnum hverju sinni með sérfræðiþekkingu réttra aðila. 

Á starfsárinu hóf klasinn einnig þátttöku í þremur erlendum verkefnum en þau eru Nordic Travel Tech Network sem gengur útá að styðja við frumkvöðla í ferðatækni og tengja þá við aðila í ferðaþjónustu, verkefnið er að hluta til stutt með fjármagni frá Nordic Innovation. Evrópuverkefnið Tourbit sem hefur það markmið að efla hæfni og tæknigetu stjórnenda og styðja fjárhaglsega við ferðaþjónustufyrirtæki til að innleiða hentugar tæknilausnir, verkefnið er fjármagnað að hluta úr Horizon 2020 sjóði Evrópusambandsins. Þriðja erlenda verkefnið sem Íslenski ferðaklasinn tekur þátt í auk þess að leiða, heitir Nordic Regenerative Tourism en það hefur það að markmiði að finna leiðir til að ganga enn lengra í átt að sjálfbærni og endurnýjandi ferðaþjónustu með það fyrir augum að efla samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar. Verkefnið er unnið með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni en ráðuneyti ferðamála fer með ábyrgð verkefnisins. Á starfsárinu lukum við einnig einu norrænu verkefni sem kallast Nordic Food in Tourism en Ferðaklasinn leiddi m.a hluta verkefnisins og stóð fyrir lokaráðstefnu þess sem haldin var með blönduðum hætti í raunheimum á Egilsstöðum og með rafrænum hætti.

Starfsmenn Íslenska ferðaklasans:

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri

Árni Freyr Magnússon, verkefnastjóri

Rakel Theodórsdóttir, verkefnastjóri

Saman stöndum við vörð um ábyrgð, hæfni og gæði í íslenskri ferðaþjónustu og höfum jákvæð áhrif á það samfélag sem við byggjum.

Það er okkur sem störfum á vettvangi Íslenska ferðaklasans efst í huga þakklæti til  samstarfsaðila sem og góð þátttaka í verkefnunum ársins sem öll hafa miðað að því að styðja, styrkja og efla nýsköpun, sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar.