fbpx

Hvernig virkar svo svona klasasamstarf?

Er nema von að fólk velti því fyrir sér, ekkert endilega einfalt en það er nú líka bara með svo margt í lífinu. Kannski þurfum við ekki að vita í þaula hvernig það virkar, frekar en flókinn tölvubúnaður sem við njótum góðs af, heldur að það virki og hvernig við getum nýtt okkur það til að vinna betur, hraðar og með auknum árangri.

Við sjáum það nánast undantekningalaust þegar ólíkir aðilar leggja saman að árangur næst, besta og nýlegasta dæmið eru fluggáttirnar á Akureyri og Egilsstöðum. Fyrst með Niceair og síðan með Condor sem hyggst fljúga bæði á Akureyri og Egilsstaði. Þetta tókst með samvinnu mjög fjölbreytts hóps mismunandi hagsmunaaðila sem sameiginlega áttu nægilega öflugt vogarafl til að knýja þessa þróun í þessa átt. Á Norðurlandi hefur verið hefð fyrir samstarfi sem þessu í gegnum flugklasann Air 66 um langt skeið og á Austurlandi hefur verið mjög virk samvinna milli allra stjórnlaga í langan tíma. Á báðum stöðum hefur þurft að byrja uppá nýtt aftur og aftur, endurskoða, endurmeta, næstum því gefast upp en aldrei að stoppa.

Í sjávarútvegi eigum við ótrúlega mögnuð dæmi um það hvernig samstarf og samvinna þvert á geira og greinar hafa flýtt fyrir tækniþróun, aukið verðmætasköpun og skilað okkur aukinni samkeppnishæfni sem um munar. Síðastliðin 12 ár hefur Íslenski sjávarklasinn unnið ötullega að því að koma súrefni til frumkvöðla í greininni sem vinna að nýjum lausnum og auknu virði úr því hráefni sem við alla jafna höfum litið á sem úrgang. Þessar aðferðir og leiðir hafa skilað sér í útflutningi á tækni og hugviti til landa um allan heim og hefur hugmyndafræðin um 100% þorsk verið tekin upp víða sem fyrirmyndardæmi um nýtingu og innleiðingu á fullkomnu hringrásarhagkerfi. Tækifærin sem eru falin í betri nýtingu á afurðum, orku og mannafla munu skila okkur bættum lífskjörum næstu áratugi.

Ísland er ein stór auðlindavin hvort sem horft er til orku, mannauðs eða náttúru. Miðin eru gjöful, eldfjöllin og vatnsöflin sjá okkur fyrir um 90% endurnýjanlegri orku og hugvitsdrifið fólk með frjóan hug sér til þess að Ísland skipar sér í raðir þeirra fremstu þegar kemur að menntun, jafnrétti og skapandi lausna til að lifa yfirburðar lífi nálægt hjara veraldar. Önnur nýleg dæmi um frábæran árangur Íslands við að ná inn erlendu fjármagni er Carbfix sem landaði hvorki meira né minna en 16 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu og Auðna tæknitorg (sem mig langar að kalla tækniklasa) hefur nú möguleika á því að leiða þróun þvert á Evrópu í svokölluðum EDIH kjarna (European Digital Innovation Hubs) hvorutveggja algjörlega ómögulegt án samvinnu og samþættingar margra ólíkra aðila.

Mig langar líka að minnast á að til þess að svona þverfaglegt klasasamstarf geti gengið upp þá þarf hugrekki, stuðningur og tiltrú opinberra stofnanna og stjórnvalda að vera til staðar.  Það hefur í þeim efnum verið aðdáunarvert að fylgjast með Landsvirkjun ýta undir og auðga þróun í þremur mismunandi svæðisbundnum klösum í þremur landshlutum. Eimur staðsettur á Norðurlandi er með áherslu á að bæta orkunýtingu og auka verðmætasköpun með sérstaka áherslu á sjálfbærni, grænar lausnir og hátækni. Orkedía á Suðurlandi einblínir á bætta orkunýtingu og sjálfbærni í  matvælaiðnaði og Blámi á Vestfjörðum hefur það markmið helst að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði. Þessi þrjú dæmi eru tær klasaverkefni sem miða öll að því að tengja saman þessa fimm lykilaðila sem mynda virkan klasa og skila án undantekninga árangri en það eru háskólar og rannsóknir, stjórnvöld, atvinnulíf, frumkvöðlar og fjármagnseigendur. Við megum svo ekki gleyma því að þó að þessir klasar sem taldir eru upp hér séu svæðisbundnir þá hefur hugvitið og lausnirnar sem þeir skapa engin landamæri sem mun enn og aftur, laða að erlent fjármagn, vera skalanlegt til útflutnings og svo mætti lengi telja.

Þó ég sé svo lánsöm að stýra einum mögnuðum klasavettvangi sem samanstendur af ótrúlega breiðum hópi fólks víðsvegar úr vistkerfi ferðaþjónustunnar þá erum við ekkert eyland þegar kemur að samstarfi þvert á aðra klasa eða með öðrum geirum. Þetta sýnir nýuppfært klasakort best en þar kemur einmitt í ljós hversu mikilvægt það er að byggja brýr þvert á ólíkar atvinnugreinar og hversu háðar greinarnar eru hvor annarri enda erum við jú í lok dags öll hluti af sama vistkerfinu þó við döfnum við ólíkar aðstæður. Okkar helsta keppikefli hjá Íslenska ferðaklasanum er að vinna að aukinni sjálfbærni greinarinnar, efla nýsköpun og auka hæfni í notkun á mismunandi tækni og stafrænum lausnum. Þó þetta þrennt sé allt mikilvægt þá á sjálfbærnin stóran hluta af okkar tíma og forgangi næstu mánuði þar sem svo margt hangir saman við að þar takist okkur vel til. Í þeim efnum köllum við eftir auknu og enn öflugara samstarfi við stjórnvöld, frumkvöðla, fjármagnseigendur og háskólaumhverfið auk þeirra frábæru fyrirtækja sem í dag mynda klasavettvanginn.

Meðfylgjandi er nýuppfærð samantekt af verkefnum síðasta starfsárs auk nýrrar útgáfu af klasakorti Íslenska ferðaklasans.

Að lokum, því stundum hættir okkur til að taka meira mark á því sem fólk í útlöndum segir og gerir.  Norðurlöndin standa sterk þegar kemur að þróun og stuðningi við mismunandi klasa og þá hefur markviss vinna verðið unnin í Bandaríkjunum í langan tíma. Gott dæmi um það má sjá hér þar sem Washington ríki hefur sett á kopp nýsköpunar klasahraðal til að styðja og auka líkur á velgengni þeirra fyrirtækja sem sækja fram á mismunandi sviðum. Kanadísk stjórnvöld hafa tekið stuðning við klasaþróun föstum tökum og endurnýjuðu á dögunum fjárhagsstuðning sinn og áætlanir um helming frá því sem fyrir var. Að þeirra mati þurfa klasar nægilega langa flugbraut til að ná tilætluðum langtíma árangri þar sem útkoman verður:

  • Samstarfsvettvangur fyrirtækja, háskóla, stjórnvalda, frumkvöðla og fjárfesta
  • Þróun viðskiptamódela sem samþætta og gera ráð fyrir fjármögnun bæði opinberra aðila og einaaðila
  • Traust milli aðila í breiðu vistkerfi sem sjá hag sinn í samvinnu í samkeppni með það fyrir augum að hraða þróun með aukinni nýsköpun.
  • Þróun og uppbygging verkefna sem hafa það að markmiði að nýta stærðarhagkvæmni þegar kemur að rannsóknum, auðlindanýtingu, tíma, mannauð og þekkingu með því að brjóta niður ósýnlega múra og byggja í staðin brýr sem auka flæði og hjálpa til við að koma auga á tækifæri framtíðarinnar.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans