fbpx

Virkjum hugvitið

Þann 31. október sl. lauk formlega 12 vikna verkefninu okkar sem kallast Virkjum hugvitið og var unnið með stuðningi Atvinnuvegaráðuneytisins.

Verkefnið, eins og mörg af okkar góðu verkefnum fór auðvitað langt fram úr væntingum okkar sem framkvæmdaaðila og enn og aftur er það fólkið – þátttakendur sem algjörlega bera af. 

Virkjum hugvitið fór af stað þann 21. ágúst með vinnustofu í umsjón Hjartar Smárasonar – Þar á eftir komu tvær vinnusmiðjur í umsjón Svövu Bjarkar Ólafsdóttur og tvær á vegum Helga Þórs Jónssonar. Heather Thorkelson stýrði vinnustofunni How to bulletproof your business og Daði Guðjónsson fræddi þátttakendur um mismunandi markhópa sem Íslandsstofa hefur skilgreint sérstaklega. Melkorka Sigríður Magnúsdóttir frá Icelandic Startups fór með hópinn í gegnum Viðskiptamódelið / Business Model Canvas og Hulda Birna Baldursdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands stóð fyrir frábærri vinnustofu um stafræna markaðssetningu og miðlun. Loka hnykkur á prógramminu var síðan kynning frá Hönnu Kristínu Skaftadóttur frá Poppins & Partners sem fræddi þátttakendur um styrkjaumhverfið á Íslandi og hvernig mætti ná sem bestum árangri í umsóknum.

Umsóknir í verkefnið voru 90 talsins en alls voru 40 aðilum með viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu boðið að virkja hugvitið, 20 aðilum var boðin sérstök vinnuaðstaða í húsi ferðaklasans ásamt ráðgjöf og endurgjöf.

Undir lok mánaðar tókum við einn dag utan skrifstofunnar og lögðum í óvissuna.Við byrjuðum daginn á stórkostlegri heimsókn til FlyOver Iceland og fengum svo nokkra þátttakendur til þess að taka þátt í framkvæmd ferðarinnar án þess að þeir vissu um heildar skipulag dagsins. Þannig var Ásgerður Einarsdóttir eigandi Turtle Travel Iceland bílstjóri dagsins, Estrid Þorvaldsdóttir sá um leiðsögn (án fyrirmæla eða án þess að vita hvert hún væri að fara) auk þess að sjá um hugleiðslu og joga. Herdís Friðriksdóttir frá Understand Iceland tók óhefðbundna leiðsögn um Þingvelli og Hjördís Björnsdóttir frá Úthlíð bauð í heimsókn.

Um leið og við þökkum öllu þessu frábæra fólki fyrir að leggja hönd á plóg við skipulagið, þátttakendum fyrir innblásinn og gefandi tíma og ráðuneytinu fyrir að hafa trú á verkefninu bjóðum við ykkur að njóta nokkurra mynda frá þessu tímabili.