fbpx

Norrænir matarkraftar sameinast í ferðaþjónustu

Þann 19. júní fór fram fyrsti fundur í norræna verkefninu Nordic Food in Tourism þar sem
samstarfsaðilar hittust allir og áttu öflugan vinnudag saman á Íslandi.

Verkefnið er eitt af þremur formennskuverkefnum norrænu ráðherranefndarinnar undir hatti
sjálfbærrar ferðamennsku í norðri en það er Matarauður Íslands sem leiðir verkefnið í samstarfi við
Íslenska ferðaklasann og Matís. Norrænir samstarfsaðilar koma frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð,
Grænlandi, Færeyjum, Álandseyjum og Finnlandi auk þess sem sérfræði hópur frá háskóla og
atvinnulífi kemur að verkefninu.

Meðal helstu markmiða verkefnisins er að átta sig á breyttri neysluhegðun ferðalanga og hvernig þeir
kjósa að nálgast mat og afurðir á sínum ferðalögum. Loftlagsmál og breytt umhverfisvitund gesta
sem sækja norðurlöndin heim hefur mikið að segja með breytta hegðun og verður leitast við að finna
hvaða þættir munu helst breytast eða verða fyrir áhrifum. Meðal afurða verkefnisins eru svör við
hvaða matvæli, framleiðsluaðferðir og eða breytt samsetning afurða munu framtíðar gestir okkar
sækjast eftir og hvernig þurfum við að þróa og bæta aðferðir til að mæta því. Mikil áhersla er lögð á
að einblína á mat í ferðaþjónustu en ekki matarferðaþjónustu eingöngu. Samstarfsaðilar að
verkefninu munu að auki nýta þann þekkingarbrunn og niðurstöður sem koma fram til að miðla
áfram og verða leiðandi í sjálfbærni og þróun þegar kemur að mat í ferðaþjónustu. Á vinnufundinum
var einnig vörumerki verkefnisins kynnt til sögunnar en það er iðn, áfangastaða og allt mögulegt
hönnuðurinn Daniel Byström frá Design Nation sem vann með verkefnahópnum að hönnun
merkisins, túlkun og meiningu þess.

Vinnudagur samstarfsaðilanna fór fram í Húsi ferðaklasans en hópnum var skipt í þrjár vinnustofur
sem hver um sig einbeitti sér að ákveðnu viðfangsefni. Markmið vinnudagsins var að skilgreina
ákveðnar rannsóknarspurningar til að vinna með í framtíðargreiningar vinnunni. Eftir vel pakkaðan
vinnudag var aðilum boðið í matarupplifunar ferðalag með Ými Björgvin Arthúrssyni og Magical
Iceland. Þar voru helstu veitingastaðir borgarinnar heimsóttir þar sem saga, menning og matur runnu
ljúflega niður. Daginn eftir var hópurinn í traustri farastjórn Siggu hjá CrissCross en boðið var uppá
ferð í Traustholtshólma þar sem Hákon og Skuggi hafa komið sér einstaklega vel fyrir í miðri Þjórsá.
Hákon rekur þar ferðaþjónustu með áherslu á sjálfbærni, kyrrð og algjöra núllstillingu. Ferðalag í
Traustholtshólma er ferðalag allra skynfæra en ferðin hófst með því að ferja mannskapin yfir á
eyjuna. Í framhaldi af því var gengið um svæðið, sagan sögð og því næst var hafist handa við að
veiða til matar. Þrír villtir laxar voru dregnir á land þetta skiptið og gerði Hákon að þeim á
bryggjunni, þar strax byrjaði matarupplifun dagsins sem lék við hvern sinn bragðlauk.
Að loknum verulega drjúgum vinnufundi auk tveggja matar og upplifunar ferðalaga voru aðilar
sammála um að okkar helstu tækifæri felast í hreinleika, sjálfbærni og framúrskarandi gestrisni.
Þegar allt kemur til alls þá er það fólkið á ferðalögum sem stendur uppúr, stórbrotin náttúra og síðast
en ekki síst gæða matur og góð þjónusta.

Hægt verður að fylgjast með frekari framþróun í verkefninu á sérstöku vefsvæði sem er í vinnslu á
vef Matarauðs, www.mataraudur.is

Allar nánari upplýsingar veita tengiliðir verkefnisins, Brynja Laxdal, Ásta Kristín og Þóra Valsdóttir.