fbpx

Elding fyrirmyndarfyrirtæki Ábyrgrar ferðaþjónustu 2018

Þann 6. desember sl. var Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu haldinn hátíðlegur í Veröld – Húsi Vigdísar. Þar hittust þátttakendur, bera saman bækur sínar og fá innsýn í nýjar aðferðir, nýjar áherslur og stöðu verkefnisins.

Í upphafi fundarins greindi Ketill Berg Magnússon, fráfarandi framkvæmdastjóri Festu frá niðurstöðum rannsóknar um hversu dugleg fyrirtæki eru í raun og veru að fylgja markmiðum Ábyrgrar ferðaþjónustu.

Þar næst hélt Vilborg Arna Gissurardóttir aðalerindi undir yfirskriftinni Ávextir ábyrgðar – ræktun og uppskera. Þar ræddi Vilborg um reynslu sína af ferðalögum til landa sem eru að kljást við svipuð vandamál og Ísland líkt og ágangur ferðamanna á náttúruna og hvernig hún hefur þurft að leggja fram tryggingar fyrir ferðum sínum um óbyggðir til að hægt sé að borga fyrir hugsanlega björgun.

Að lokum veitti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson verðlaun til fyrirmyndar fyrirtækis í Ábyrgri ferðaþjónustu. Verðlaunin að þessu sinni hlaut Elding – hvalaskoðun.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Fyrirtækið sem varð fyrir valinu sem fyrirmyndarfyrirtæki í ábyrgri ferðaþjónustu árið 2018 hefur verið með virka umhverfisstefnu í fjölda ára og verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar á sviði umhverfismála og eru m.a. aðili að fleiri en einu umhverfisverkefni.  Þetta fyrirtæki er eitt af þeim fyrstu sem fór í gegnum vottunarkerfi Vakans og er með gullvottun. Það setur sér markmið í málaflokknum, mælir árangur og birtir stefnuna og markmiðin á heimasíðu sinni.  Auk þess að vinna að stöðugum úrbótum.

Fyrirtækið tekur þátt í nýsköpunar- og þróunarverkefnum og hefur m.a. komið að verkefnum tengdum mögulegum orkuskiptum. Það hefur verið virkur þátttakandi á alþjóðlegum vettvangi og m.a. stofnfélagi í alheimssamtökum.  Félagið hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, bæði í samvinnu við Háskóla Íslands og erlenda háskóla.  Þetta fyrirtæki tekur reglulega á móti skólahópum og fræðir börnin um mikilvægi umhverfismála.

Það er með öryggisstjórnunarkerfi til að auka öryggi, vinnuvernd og umhverfisvernd í starfsemi fyrirtækisins auk þess að áhættumat er til staðar fyrir farþega og fyrir öll störf fyrirtækisins.  Fyrirtækið leggur áherslu á góðan starfsanda, mannauðsstefna hefur verið sett og regluleg þjálfun er í boði fyrir starfsfólk.  Félagið leggur áherslu á ráðningu starfsfólks úr heimabyggð og leitast við að velja vörur, aðföng og þjónustu úr heimabyggð.

Að síðustu er eftirtektarvert að fyrirtækið sem um ræðir tengir stefnu og starfsemi sína við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er með fyrstu afþreyingarfyrirtækjum í íslenskri ferðaþjónustu til að gera slíkt.

Fyrirtækið sem um ræðir er handhafi Kuðungsins, umhverfisviðurkenningar Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2018.“

Við í Ferðaklasanum viljum óska Eldingu innilega til hamingju með titilinn.