fbpx

Startup Tourism 2018 – Teymin kynnt til leiks

Tíu fyrirtæki valin til þátttöku í viðskiptahraðli á sviði ferðaþjónustu.

 

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu eða til að þróa nýjar lausnir innan starfandi fyrirtækja. Verkefninu er ætlað að veita þátttakendum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra. Tíu teymi hafa verið valin til þátttöku í hraðalinn sem hefst þann 15. janúar n.k. og verður til húsa í nýju húsnæði Íslenska ferðaklasans og Íslenska menninga og listaklasans að Fiskislóð 10.

 

  • Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall fyrir nýjar lausnir á sviði ferðaþjónustu

  • Viðskiptahraðallinn hefst þann 15. janúar n.k. og er nú haldinn þriðja sinn

  • Tíu teymi voru valin úr hópi 113 umsókna og fá þau leiðsögn og þjálfun yfir tíu vikna tímabil

  • Um er að ræða samstarfsverkefni Icelandic Startups, Bláa Lónsins, Íslandsbanka, Isavia, Vodafone og Íslenska ferðaklasans

 

Óskað var eftir eftir lausnum sem gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring.

Alls bárust 113 umsóknir í Startup Tourism að þessu sinni sem er 20% aukning á milli ára, en umsóknarfrestur rann út þann 11. desember s.l. Af þeim hópi voru 25 umsækjendur teknir í viðtöl og hafa tíu nú verið valdir til þátttöku. Samkvæmt fulltrúa dómnefndar einkenndu mikil gæði og sterkur bakgrunnur umsóknirnar í ár og var valið því ekki auðvelt.

Hópurinn sem valin var kemur vítt og breitt af landinu og vinnur bæði að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu og nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila innan ferðaþjónustunnar og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu.

Það sem er einstaklega ánægjulegt að sjá til viðbótar við þetta allt er að rúmlega helmingur af þeim verkefnum sem voru valin í hraðalinn í ár flétta með einhverjum hætti sögu landsins, listir og menningu við þá tegund af ferðaþjónustu sem aðilar vilja efla enn frekar og nýta næstu 10 vikur í það. Þetta er einkum ánægjulegt vegna þess að Íslenski ferðaklasinn vinnur að uppbyggingu á nýju klasahúsnæði að Fiskislóð 10 með nýjum Menninga og listaklasa og mun Startup Tourism einmitt fara þar fram.

Bakhjarlar Startup Tourism eru Isavia, Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone, en Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins.

Eftirtalin tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Tourism árið 2018:

  1. Arctic Surfers
    Sérhæfð ferðaþjónusta fyrir brim-, róðra- og snjóbrettaiðkendur í ævintýraleit

  2. Havarí
    Gisting og viðburðir á lífrænu býli í Berufirði

  3. Igloo Camp
    Einstök tjaldhótel í stórbrotinni náttúru

  4. Kaffi Kú og The Secret Circle
    Ferðaþjónusta og upplifun í Eyjafjarðarsveit

  5. Propose Iceland
    Viðburðaþjónusta fyrir ferðamenn á biðilsbuxum

  6. Pure Magic
    Leikhúsupplifun byggð á íslenskum sagnaarfi

  7. basicRM
    Sjálfvirkni í verðlagningu fyrir ferðaþjónustu

  8. Stórsaga
    Víkingaheimur í Mosfellsdal

  9. Under the Turf
    Þjóðleg upplifun í gömlum torfbæ í Borgarnesi

  10. When in Iceland
    Veflausn sem tengir erlenda ferðamenn við einstaklinga sem vilja bjóða uppá afþreyingatengda ferðaþjónustu