Samkeppnishæfni í íslenskri ferðaþjónustu – Nýársmálstofa 23.janúar

Nýársmálstofa Íslenska ferðaklasans og KPMG fór fram þann 23.janúar sl. þar sem samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu var sett í fókus.

Þrjú erindi voru haldin þar sem mismunandi þættir voru skoðaðir en allir hafa þeir áhrif á möguleika fyrirtækja til að vera samkeppnishæf til lengri tíma.

Erum við eða ætlum við að verða nIceland?

Sævar Kristinsson, sérfræðingur hjá KPMG fór yfir sviðsmyndagreiningu sem var unnin m.a fyrir Stjórnstöð ferðamála á árinu 2016 sem ákveðið stýritæki á góða áætlunargerð og nauðsynlegar áherslur í ákvarðanatöku. Sævar freistaði þess að máta hvar við værum stödd m.v mismunandi sviðsmyndir og forsendur en erindi hans má nálgast hér.

Tölurnar tala sínu  máli – tækifærin felast í betri rekstri, upplýsingatækni og bættum hugbúnaði.

Alexander Edvardson, partner og sérfræðingur á skattasviði KPMG lagði upp með rekstarlegar forsendur fyrirtækja til þess að vera samkeppnishæf, m.a á alþjóðavísu og lagði fram mismunandi dæmi um rekstrarmódel og þætti sem hafa áhrif á verðlag og þróun. Alexander fór yfir helstu þróun á kennitölum ferðaþjónustunnar og bar saman á milli ára og þá kom einnig fram í erindi hans að ef fyrirtæki hefðu ætlað að halda raun virði í Íslenskum krónum (í þessu tilfelli sama rekstarhagnaði milli ára) hefðu þau þurft að hækka verð um 66% gagnvart evru frá 2012.  Þetta ásamt mörgu öðru áhugaverðu kemur fram á meðfylgjandi glærum.

Aukin samkeppnishæfni í gegnum skýra stefnumótun og sérstöðu fyrirtækja

Þriðja erindi nýársmálstofunnar var í höndum Runólfs Smára Steinþórssonar, prófessors við Háskóla Íslands þar sem hann kennir m.a stefnumótun og stjórnun ásamt samkeppnishæfni og klasa hugmyndafræði.  Hann lagði áherslu á hversu mikilvægt samstarf í samkeppni væri, hvernig fyrirtæki gætu nýtt sér mismunandi tól og tæki við að efla sérstöðu sína og endurmeta og rýna stefnu og áherslur fyrirtækjanna meðfram því að rýna í rekstur og tölur.  Að lokum tók Runólfur dæmi um hvernig fyrirtæki gætu nýtt sér hugmydnafræði klasa til að ýta undir samkeppnishæfni og aukna verðmætasköpun. Erindi Runólfs má finna hér.

Hlutverk að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenskri ferðaþjónustu.

Að lokum fór Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans yfir helstu verkefni klasans og hvernig val á verkefnum er í takti við helsta hlutverk hans, þ.e að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Að lokum var stutt kynning á nýjum þróunarhópum þar sem aðildafélagar eru hvattir til að skrá sig til leiks og taka virkan þátt í samstarfinu. Erindið má finna hér.

Upptökur frá fundinum eins og hann leggur sig má finna hér. 

Við þökkum þátttakendum á fundinum og samstarfsaðilum okkar hjá KPMG fyrir frábæran fund og gott innlegg inní árið 2018.