fbpx

Trendin í ferðaþjónustu 2021

Trendin í ferðaþjónustu 2021

Hver ætlar að ákveða þau? Er það ferðaskrifstofan í Ameríku? Erlendi ferðamaðurinn? Skemmtiferðaskipaskrifstofan í Hamburg? Þú? Við?

Ferðaþjónusta er ekki bara ferðaþjónusta

Þegar yfirvöld hafa fáa kosti, alla slæma, til að velja úr er kannski ekki von á neinu sérstöku ástandi. Kannski þurfum við ekki að skilja útreikningana til fulls, ef þeir eru þá til. Við skiljum hinsvegar öll að ferðamenn hafa ekki áhuga á að ferðast til landa sem hafa ekki stjórn á smitum eða fjölgun þeirra svo sá kostur að hafa óbreytt ástand hefði jafnvel dregið hraðar úr komum síðar, hver veit. Mörg okkar óskuðu þess að sú góða reynsla og þekking sem komin var á landamæraskimun og ferlið allt myndi verða til þess að áframhaldandi þróun í þá átt yrði raunin, en svo varð ekki og því mikilvægt að finna sem fyrst leiðir til að vinna með þá aumu stöðu sem við fáum úr að moða. Föstudagurinn 14.ágúst var sjokk, helgin þar á eftir doði, mánudagurinn ringulreið og miðvikudagurinn 19.ágúst staðreynd sem ekki verður komist hjá.

En hvað er til ráða? Nú gætu sumir sagt að ég hefði engan skilning á stöðunni, að ég sýndi litla auðmýkt eða að ég væri í einhverjum óraunhæfum skýjaborgum að tala út um óæðri endann. Gott og vel. Við þessa sumu vil ég segja að skilningur minn, aðdáun og virðing fyrir eldhugum í framlínu ferðaþjónustunnar á sér engin takmörk. Það er einfaldlega minn tilgangur í starfi að horfa á tækifærin og sjá nýsköpunarmökuleikana í öllum stöðum, sama hversu djúpt við förum eða hátt við fljúgum mun það vera mitt hlutverk.

Nokkur grundvallaratriði sem ekki er víst að allir átti sig á. Ferðaþjónusta snertir ótrúlegustu anga samfélagsins og er að langmestu leyti byggð upp af elju og dugnaði starfsmanna um allt land. Nú segja þeir bjartsýnu að við þurfum bara að halda áfram að heimsækja þessa staði, við förum hvort sem er ekki í skíðaferðina, aðventuferðina, vinkonuferðina eða siglinguna. Sennilega getum við ekki keypt fleiri heita potta í bili eða stækkað pallinn. Það eina sem vantar örlítið inní þessar pælingar, sem ég alla jafna tek fullan þátt í og á oft frumkvæðið að, er að ferðaþjónusta er hluti af langri virðiskeðju af ólíkum þjónustuþáttum sem hver um sig mun verða fyrir miklum áföllum. Árið 2019 komu tæplega 2milljónir erlendra ferðamanna til Íslands sem neyttu vöru og þjónustu á Íslandi, keyptu gistingu, afþreyingu, nutu menningarviðburða og voru tímabundnir íbúar á Íslandi með dvöl sinni. Það er ekki eingöngu fyrirtæki með ISAT (atvinnugreinaflokkun) tengt ferðaþjónustu sem raunverulega þjónustar þetta ágæta fólk.

Ferðaþjónustan fer um kima alls atvinnulífsins. Verkfræðistofan sem hannar hótelið eða göngustíginn, lögfræðistofan sem græjar samninga, bankinn sem lánar fyrir fjárfestingu eða selur gjaldeyrinn, sveitafélagið sem rekur sundlaugina, háskólinn sem menntar ferðamálafræðinginn, skólinn sem menntar kokkinn sem vinnur á veitingastaðnum. Matvælafyrirtækið sem framleiðir matinn, sjávarútvegsfyrirtækið sem flytur út fisk á erlenda veitingastaði, verslunin sem selur vöruna, tónlistamaðurinn sem heldur viðburðinn og svona mætti lengi telja langa keðjuna.

Það er til mikils að vinna að innlendur markaður geti ennþá staðið undir einhverri veltu en varasamt að taka mið af því að fyrirtæki nái að halda lífi með því móti. Sum munu ná að halda floti eitthvað áfram, önnur munu koma sér í skjól og enn önnur hætta starfsemi. Ekki bara ferðaþjónustufyrirtæki, heldur mörg önnur kjarna fyrirtæki í íslensku samfélagi.

Væri hægt að hugsa sér að snúa dæminu við? Ferðaþjónusta verði endurræst á grunni sjáflbærni og nýsköpunar? Að við notum ferðaþjónustu sem verkfæri og að hún sé til á okkar forsendum en við ekki á hennar? Að við stýrum og stjórnum flæði, ágangi, uppbyggingu og innviðum eftir því sem hentar okkur en ekki vegna þrýstings eða hagsmuna utanfrá sem fara ekki saman við okkar markmið? Samkvæmt nýútgefinni framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu ætlum við að vera leiðandi í sjálfbærni árið 2030. Það er stórt loforð sem útheimtir staðfastar aðgerðir strax.

Við eigum þvílíkan mannauð í ferðaþjónustu sem búið er að gefa í og úr með störf næstu mánuðina. Gleymum því aldrei að við erum að langmestu leiti að höndla með líf fólks og lífsviðurværi, ekki dauða hluti. Sýnum hluttekningu og virðingu, við erum öll í þessu saman, eða er það ekki?

Eitt er víst að við sitjum með næsta kafla í íslenskri ferðaþjónustu fyrir framan okkur sem óskrifaðar blaðsíður. Ef þú mættir ráða, hvað myndir þú gera? hvað hlakkar þig mest til að gera fyrir gestinn þinn árið 2021?

Hverjir verða höfundar að næsta kafla? Hver setur trendin fyrir ferðaárin 2021-22?  Ert það þú? Gæti jafnvel verið að ef við leyfum okkur að hugsa lausnamiðað alla leið að við kæmumst enn fyrr af stað? Við fáum amk aldrei að vita það nema leggja af stað og reyna!

 

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.