fbpx

Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu

Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli námsbrautar í Land og ferðamáladeild við Háskóla Íslands, Íslenska ferðaklasans, Samtaka ferðaþjónustunnar og Náms og starfsráðgjafar Háskóla Íslands um þróun og uppbyggingu starfþróunar á sviðið ferðaþjónustu.

Undirskriftin fór fram í Húsi ferðaklasans en auk samstarfsaðila að námsþróuninni undirrituðu einnig sex ferðaþjónustufyrirtæki og stofnanir samkomulag um að taka á móti nemendum í vettvangsheimsóknir.

 

 

 

 

Þetta voru fulltrúar frá Bílaleigu Akureyrar, Íslandshótelum, Nordic Visitor, Kötlu Travel, Ferðamálastofu og Meet in Reykjavík.

Í samstarfinu um starfsþróun í ferðaþjónustu felst m.a:

Að vinna sameiginlega að framkvæmd og áframhaldandi þróun námskeiðisins Starfsþróun í ferðaþjónustu.

  • Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenski ferðaklasinn hafa milligöngu um að koma nemendum á námskeiðinu í starfskynningu í fyrirætkjum innan sinna vébanda. Markmiðið er að skapa hóp 10-15 fyrirtækja og stofnana sem skuldbinda sig til að taka þátt í námskeiðinu næstu þrjú ár.
  • Starfsmaður Náms og starfsráðgjafar HÍ kemur að kennslu í námskeðinu sem samsvarar 20.klst og veitir ráðgjöf um tilhögun vettvangsnámsins
  • Nemendur munu kynna skýrslu um vettvangsheimsóknir sínar á sameiginlegum vettvangi SAF og Íslenska ferðaklasans í lok námskeiðisins.
  • Nemendur í námskeiðinu skila skýrslu um vettvangsheimsóknir sínar til þeirra fyrirtækja sem taka þátt og til anarra aðila að samstarfssamningnum.

 

 

Markmið samstarfsins er að efla þróun og uppbyggingu starfsþróunar og vettvangsnáms á sviði ferðaþjónustu. Aðilar samkomulagsins eru sammála um mikilvægi þess að byggja brýr milli háskólamenntunar og atvinnugreinarinnar til að efla færni nemenda, auðvelda yfirfærslu þekkingar og koma á tengslum milli fyrirtækja og framtíðarstarfsmanna í greininni með sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu að leiðarljósi.

 

Samningurinn byggir á samstarfi námsbrautarinnar og SAF frá 2015 í tengslum við námskeiðið Starfsþróun í ferðaþjónustu en hátt í 100 nemendur hafa í gegnum það fengið innsýn í störf og hæfnikröfur fyrirtækja í ferðaþjónustu. María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF sagðist fagna vaxandi áherslu á starfsþróun í háskólanámi og benti á að dæmi væru um að nemendur hafi fengið vinnu í gegnum þátttöku í námskeiðinu. „Þetta námskeið verður áfram kjölfesta í samstarfinu en með því að fá Náms- og starfsráðgjöf HÍ og Íslenska ferðaklasann formlega að borðinu skapast tækifæri til að taka næstu skref til að styrkja starfsþróun nemenda í ferðamálafræði enn frekar“ sagði Gunnar Þór Jóhannesson, formaður námsbrautar í Land- og ferðamálafræði og umsjónarkennari námskeiðsins. Aðilar samkomulagsins hafa fleiri þróunarverkefni á prjónunum, svo sem að vinna að kynningu á Tengslatorgi HÍ til fyrirtækja í ferðaþjónustu (www.tengslatorg.hi.is) og efla færni leiðbeinanda sem taka á móti nemendum í vettvangsnámi. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans benti á að mikilvægt væri fyrir atvinnugreinina að vinna með fræðsluaðilum til að styrkja ímynd ferðaþjónustu sem atvinnugreinar sem getur boðið upp á spennandi og gefandi störf til framtíðar.

 

Við hjá Íslenska ferðaklasanum erum ákaflega stolt af því að vera aðilar að þessu samkomulagi og munum halda áfram þeirri mikilvægu brúarsmíði sem nauðsynleg er milli háskólasamfélagsins, rannsókna og atvinnulífsins.