fbpx

Restart Tourism – Think Tank 01

Á síðustu vikum höfum við unnið að hugmyndum okkar að endurræsingu ferðaþjónustunnar undir nafninu Restart Tourism. Súrefni verkefnisins er nýsköpun og sjálfbærni til framtíðar. Verkefninu er skipt í þrennt. Í fyrsta lagi verða Think Tank umræður sem hægt verður að nálgast á youtube, í öðru lagi verða vinnustofur og í þriðja lagi verða vefnámskeið varðandi þekkingarmiðlun og stafræna byltingu ferðaþjónustunnar.

Í fyrsta Think Tank Restart Tourism spjölluðu þau Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans, Daniel Byström og Signe Jungersted frá Group NAO um ýmislegt er snertir þær erfiðu aðstæður sem blasa við ferðaþjónustunni út um allan heim.

Signe lagði áherslu á að nú væri tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustu. Í upphafi hafi ástandið einkennst af áfalli en nú sé mikilvægt að nýta sköpunargleðina og leggja áherslu á nýsköpun í miklum mæli. Það er mikilvægt að halda umræðunni gangandi um áhrif COVID 19 á ferðaþjónustunna og hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur þegar ástandið líður hjá.

Aðspurð um aðgerðir sem hægt væri að ráðast í strax þá sagði Signe að þetta væri kjörið tækifæri fyrir áfangastaði til að styðja vel við ferðaþjónustu í heimabyggð í sátt við íbúa á hverju svæði fyrir sig. Núverandi ástand sýnir vel hvernig hlutirnir væru ef ferðamanna nyti ekki við. Einnig gagnrýndi hún þá tilhneigingu ferðaþjónustunnar til að einangra sig og horfa á sig sem aðskilið frá nærsamfélagi áfangastaða. Ástandið sýnir að við erum öll í þessu saman, COVID 19 er ekki sér vandamál einhverra ákveðinna hópa í samfélögum heldur samfélagsins alls.

Einnig voru uppi áhugaverðar umræður um hvernig best væri að endurvekja öryggistilfinningu fólks á ferðalögum.

Þetta og margt fleira var til umræðu í Restart Tourism Think Tank 01