fbpx

Hvernig tryggir þitt fyrirtæki öryggi og heilsu gesta og starfsmanna?

Hvernig tryggir þitt fyrirtæki öryggi og heilsu gesta og starfsmanna?

Nú þegar tilslakanir á opnun landamæra hafa verið gerðar er okkur sem störfum í ferðaþjónustunni og þróun hennar til framtíðar mikið keppikefli að vel sé haldið á öllum aðgerðum er tryggja öryggi gesta og heilsu þeirra sem og samfélagsins alls.

Þann 16.júní var send út stutt könnun til að meta þær aðgerðir og ferli sem ferðaþjónar hafa farið í til að bregðast við og bæta öryggi gesta sinna ásamt því að hvetja þá til þess að slík ferli verði keyrð á fullum þunga áfram ef slíkt hefur ekki verið klárað.

Áframhaldandi smitvarnir og takmörkun á smitleiðum er forsenda þess að ferðaþjónustufyrirtæki geti vænst þess að frekari takmörkunum á komu gesta verði aflétt. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Spurningalisti var sendur á alla skráða þátttakendur í verkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu sem eru yfir 170 fyrirtæki. Sjá má lista fyrirtækjanna hér.

Spurningalistann má sjá hér að neðan en það sem hægt er að taka út úr svörum almennt er að allir svarendur voru búin að gera ráðstafanir varðandi smitvarnir og flestir töldu líklegt að um varanlegar breytingar væri að ræða. Algengustu svörin varðandi aðgerðir í smitvörnum voru aðgengi að sprittbrúsum, aukin þrif, meiri fræðsla bæði til starfsmanna og gesta sem og bætt hreinlætisaðstaða.
Þá sögðu yfir helmingur svarenda að þau hefðu breytt fyrirkomulagi við hlaðborð og aðrir aðlagað bætt hreinlæti að fyrri þjónustu. Yfirgnæfandi meirihluti sótti sér upplýsingar til landlæknisembættisins og á Covid.is. Yfir helmigur svarenda hafði fengið fyrirspurnir frá erlendum ferðaskrifstofum varðandi aðgerðir til smitvarna og aukið öryggi gesta. Allir svarendur telja að okkur beri að tryggja öryggi og heilsu gesta og starfsmanna með óyggjandi hætti og að stafræn tækni geti hjálpað okkur töluvert í þeirri þróun. Þá var tæpur helmingur svarenda á því að aukin fjárfesting í tækni myndi aukast á næstu misserum í tengslum við bætt öryggi og heilsu.

Helstu tækifæri að mati svarenda eftir Covid-19 voru flest á þá leið að Ísland þyrfti að passa uppá þann árangur sem núþegar hefði náðst og að þannig myndum við ná og halda samkeppnisforskoti og auka samkeppnishæfni okkar sem áfangastaðar. Landið er stórt og náttúran mögnuð sem verður áfram okkar helsta aðdráttarafl. Auk þess var fámennið oft nefnt sem tækifæri í samhengi við þá spá að ferðamenn munu vilja velja áfangastaði þar sem landrými er nægt, öryggi og heilsa er tryggð og árangur stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda á því að ná böndum á krísunni er tryggð.

Spurningalistinn:
1. Hvaða aðgerðir hafa verið gerðar til að tryggja smitvarnir – Almennt
2. Ef þú ert hóteleigandi og býður uppá mat – hverju hefur þú breytt, ef einhverju?
3. Hvernig finnst þér upplýsingum til þjónustuaðila hafa verið háttað? Hvar sóttir þú þér upplýsingar?
4. Hvernig hafa erlendar ferðaskrifstofur brugðist við varðandi fyrirspurnir um öryggi og heilsu þeirra gesta sem eru á þeirra vegum?
5. Hversu miklu máli finnst þér skipta að við tryggjum öryggi og heilsu gesta og starfsmanna með óyggjandi hætti?
6. Hefur stafræn tækni fyrirtækisins þíns aukist sem viðbrögð við bættu öryggi og heilsu gesta og starfsmanna?
7. Telur þú að aukin fjárfesting í tækni geti bætt öryggi og heilsu gesta?
8. Einn af fjórum áhersluþáttum ábyrgrar ferðaþjónustu er að tryggja öryggi og heilsu gesta og starfsmanna. Telur þú þig uppfylla þennan áhersluþátt og getur þú mælt árangur af aðgerðum fyrirtækisins?
9. Telur þú að áherslur í öryggi og heilsu á þeim áfangastöðum sem ferðamenn velja sér eftir Covid -19 muni hafa áhrif á val þeirra?
10. Eru einhver verkefni inna öryggis og heilsu sem þú myndir vilja fá frekari upplýsingar, fræðslu og þjálfun í af hendi framkvæmdaaðila að Ábyrgri ferðaþjónustu?
11. Hver eru helstu tækifærin í íslenskri ferðaþjónustu eftir Covid – 19 að þínu mati?