fbpx

Rethinking Cluster Services – European Cluster Collaboration Platform

Þann 28. október sl. var stafræn ráðstefna á vegum European Cluster Collaboration Platform haldin undir yfirskriftinni European Cluster Capacity Building. Viðfangsefnið var stafræn væðing klasaþjónustu og starfsemi klasa almennt. Um 90 manns fylgdust með stafrænu ráðstefnunni en þar mátti finna klasastjóra úr öllum heimshornum, sérfræðinga í tæknimálum og ólíka aðila úr opinbera og einkageiranum. Ráðstefnan var haldin fyrir tilstilli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem hluti af forgangsverkefni framkvæmdastjórnarinnar um stafræna framtíð.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans var með erindi undir yfirskriftinni Rethinking cluster services. Í erindinu fjallaði Ásta almennt um klasaumhverfið í ferðaþjónustu á Íslandi og horfurnar í tengslum við Covid-19.

Starfsemi Ferðaklasans breyttist til muna þann 15. mars þegar starfsemi klasans og verkefnin færðust á stafrænt form. Notast hefur verið við Zoom, MS Teams eða Google Meetings fyrir vinnustofur og fundi ásamt því að Facebook, Instagram og Linkedin eru notuð í samskiptum við klasafélaga og annarra. Einnig var gerð könnun meðal fyrirtækja til að komast að því hvað fyrirtæki hafa brugðið á að gera í kjölfar faraldursins og hvernig klasinn geti verið þeim innan handar. Einnig hefur verið sett saman aðgerðaráætlun undir heitinu Restart Tourism, en með þeirri áætlun er ætlunin að efla enn frekar sjálfbærni og nýsköpun sem tæki framtíðarinnar.

Með þessari starfsemi er ætlunin að færa fyrirtækin frá því að vera í “survival mode” og yfir í “adapt and restart mode.” Á þeim óvissu tímum sem við stöndum frammi fyrir er mikilvægt að hafa í huga að það er í lagi að gera mistök og prófa sig áfram með nýjar leiðir. Á sama tíma er mikilvægt að þróa reksturinn hratt og halda góðum tengslum við folk og fyrirtæki í rekstrarumhverfinu.