fbpx

Ný persónuverndarlög – Ábyrg ferðaþjónusta

Ný persónuverndarlög – Ábyrg ferðaþjónusta

Fyrr í dag fór fram morgunfundur Ábyrgrar ferðaþjónustu um hvaða áhrif ný persónuverndarlög muni hafa á ferðaþjónustufyrirtæki. Nýju persónuverndarlögin munu hafa mikil áhrif á hvernig fyrirtæki höndla með upplýsingar um viðskiptavini, starfsfólk sitt og notendur.

Persónuverndarlögin setja því ýmsar nýjar kvaðir á ferðaþjónustufyrirtæki. Tilgangur laganna er að auka vernd einstaklinga og efla rétt fólks um meðferð á persónupplýsingum. Nýju lögin taka gildi samtímis í allri Evrópu þann 25. maí 2018. Reynt var að koma upplýsingunum á framfæri þannig að þær nýttust öllum mjög vel burt séð frá því hvar fyrirtæki eru stödd í innleiðingarferlinu.

 

Fundarstjóri var Ketill Berg Magnússon framkvæmdarstjóri Festu en framkvæmdaaðilar að Ábyrgri ferðaþjónustu eru Ferðaklasinn og Festa í breiðu samstarfi helstu hagaðila í ferðaþjónustunni.

 

Á fundinum tóku til máls Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd. Hún ræddi um persónuvernd í víðu samhengi ásamt því að kynna fyrir fundarmönnum nýju evrópsku persónuverndarlöggjöfina (PVRG).  Hún benti einnig á tækifæri sem felast í setningu nýju laganna og hvernig væri hægt að nálgast upplýsingasöfnun með öðrum hætti heldur en hingað til hefur verið gert.

 

Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og meðeigandi Logos fjallaði um hvað fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að gera áður en nýju lögin taka gildi.

 

Að lokum sögðu Lísa Jóhanna Ævarsdóttir verkefnastjóri hjá Hey Iceland og Anna Krístin Kristinsdóttir verkefnastjóri hjá Isavia frá því hvernig staðið hefur verið að innleiðingu nýju laganna í sínum fyrirtækjum.

 

Hægt er að nálgast streymið af fundinum á Facebook síðu viðburðarins hér.