fbpx

Iceland Travel Tech // 2022

Þann 19. maí sl. var Iceland Travel Tech haldið í fjórða sinn. Að þessu sinni var viðburðurinn haldinn í Grósku, nýsköpunar og hugmyndarhúsi í Vatnsmýri. Viðburðurinn var einnig hluti af nýsköpunarvikunni sem fram fer í Grósku og á fleiri stöðum 16-20. maí.

Rúmlega 300 manns skráðu sig á viðburðinn, margir mættu á staðinn en einnig var boðið uppá upptöku af viðburðinum senda með rafrænum hætti.

Kynnar voru þær Ásta Kristín Sigurjónsdóttir og Inga Rós Antoníusdóttir

Viðburðinum var skipt upp í þrjú þemu:

  1. Ný tækni: Er ég mögulega að missa af einhverju og hvað þarf ég að vita?

Þeir Maksim Izmaylov frá Winding Tree og Gísli Kristjánsson frá Monerium sögðu frá fyrirtækjunum tveimur. Winding Tree er vettvangur fyrir ferðaþjónustu til að selja vörur í gegnum bálkakeðju tækni sem byggð er á Ethereum. Monerium er fjártæknilausn sem einnig er byggð á bálkakeðjutækni og miðar að því að gera færslu fjármuna öruggari og stytta tímann sem það tekur að færa peninga á milli. Þeir sýndu fram á ágæti tækninnar með lifandi sýnidæmum fyrir þátttakendur í salnum.

  1. Praktísk tækni: Hvernig spara ég tíma og peninga? Í þessum hluta fræddust þátttakendur um þrjár áskoranir og lausnir sem þeim fylgdu.

Í fyrstu áskoruninni sem fjallaði um hótelbókanir og utan um hald fengum við Áslaugu Söru Hreiðarsdóttur frá Stracta Hotels. Hún sagði okkur frá þeim áskorunum sem hótelið stóð frammi fyrir varðandi bókanir og hvernig hægt var að leysa þær með bókunarkerfi GoDo. Því næst tók Ástþór frá GoDo við og sagði frá þeim möguleikum sem hin ýmsu kerfi fyrirtækisins bjóða uppá.

Í annarri áskoruninni sem fjallaði um greiðslukerfi og gjaldtöku töluðu þeir Ásbjörn Tryggvi Sveinbjörnsson frá Bílaleigu Akureyrar og Róbert Freyr Jónsson frá Stefnu. Fyrirtækin tvö hafa átt í gjöfulu samstarfi undanfarið til að leysa vandamál bílaleigunnar í sambandi við bílastæða og veggjöld. Með tæknilausn Stefnu var hægt að lækka kostnað og auka ánægju viðskiptavinarins með hagkvæmum hætti.

Í þriðju áskoruninni sem fjallaði um tækni og netöryggi fengum við Lee Tipton, yfirmann tæknimála hjá AwareGO sem talaði um mikilvægi netöryggis þegar kemur að sjálfbærum rekstri. Gestir fengu bókina Cybersecurity for dummies eftir fyrirlesturinn þar sem hægt er að glöggva sig frekar á helstu atriðum til að gæta fyllsta öryggis í tækniheimum.

Að lokum kom Sigríður Dögg Guðmundsdóttir og sagði okkur frá nýjustu herferð Íslandsstofu sem gengur út á að fá hesta til að svara tölvupóstum ferðamanna sem koma til landsins á meðan þeir eru í fríi.

  1. Sjálfbærni og tækni

Hafrún Huld Þorvaldsdóttir sagði okkur frá spennandi hlutum sem eru að gerast í heimi deilihagkerfis rafbíla en frá 2015 hefur fyrirtækið e1 verið að þróa og hanna e1 appið sem snýr að samnýtingu hleðslustöðva.

Fannar Jónsson umhverfis- og gæðastjóri Bláa Lónsins fjallaði um hringrásarhagkerfið í sambandi við rekstur lónsins. Í erindi sínu sagði Fannar frá því að sjálfbærni væri kjarni og uppspretta Bláa Lónsins en reksturinn er að verða 30 ára um þessar mundir.

Aríel Árnason frá Súrefni og Breath Iceland fjallaði um fyrirtækið sitt undir formerkinu „Fáum gestina með í lið!.“ Súrefni bíður uppá heildstæða þjónustu á markaði kolefnisjöfnunar. Þau framleiða vottaða kolefniseiningar sem nýta má á ábyrgan hátt á móti kolefnisspori. Með þessu móti skapast vettvangur á milli fjármögnunaraðila og sjálfbærra verkefna sem annars gætu talist óhagstæð eða ómöguleg í framkvæmd.