fbpx

COP26 – Hvað getum við gert?

Í tengslum við COP26, Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í Glasgow fór fram ákall til þeirra sem vinna í ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti. Íslenski ferðaklasinn, sem m.a leiðir verkefnið um Ábyrga ferðaþjónustu og hefur sett fram metnaðarfull markmið um framtíðarsýn og endurræsinu ferðaþjónustunnar er stoltur aðili að þeirri yfirlýsingu sem UNWTO stóð fyrir og hægt er að skoða hér.

Með undirritun sinni vill Ferðaklasinn leggja áherslu á þau mikilvægu málefni sem snerta ferðaþjónustuna til skemmri og lengri tíma með því að hvetja aðildafélaga sína, stóra og smáa til þess að taka þessi málefni föstum tökum og vinna að því að uppfylla þau markmið sem við höfum um að vera leiðandi í sjálfbærni strax árið 2030. Til að svo megi verða þurfum við að standa saman öll sem eitt og leita allra leiða til að hraða ferlum, þekkingu og skilvirkni.

Loforðið gengur út á það að lækka kolefnaspor ferðaþjónustunnar um helming fyrir árið 2050. Það gerir Ferðaklasinn eðli málsins samkvæmt ekki einn síns liðs en það er okkar hlutverk, að hvetja ykkur, félagana okkar til að setja markmiðin í samhengi. Það þarf að byrja á að ákveða mælikvarðana, byrja að mæla, draga úr allri mögulegri losun, endurnýja á ábyrgan hátt og aðstoða gesti við að draga úr losun og mengandi athæfum, sameinast um lausnir með öðrum fyrirtækjum til að draga úr kostnaði og forgnangsraða fjármagni til að mögulegt sé að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum.

Þetta er ekki einfalt verkefni eða auðsótt, en ákvörðun um að byrja að taka þessi skref er skref í rétta átt. Við erum boðin og búin til að aðstoða ykkur í þessari vegferð og munum á næstu vikum kynna ykkur nýjar leiðir í gegnum  Ábyrga ferðaþjónustu til að nýta betur verkfæri og þekkingu í gegnum sameiginlegan vettvang.