fbpx

Flugvöllurinn á núlli eftir áratug

 

– Hvetjandi fréttir frá klasafélögum Íslenska ferðaklasans –

 

Keflavíkurflugvöllur ætlar að verða kolefnislaus í starfsemi sinni árið 2030, sem er eftir níu ár. Þetta kemur fram í nýrri sjálfbærnistefnu Isavia. Þetta er áratug á undan áætlun íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi og tveimur áratugum á undan NetZero-skuldbindingu Evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, ACI Europe.

„Mestu áskoranir Isavia til þess að draga úr kolefnissporinu er að finna lausnir á því hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sérhæfðum tækjum flugvallarins,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og samfélagsábyrgðar hjá Isavia.

Langstærsti umhverfisþátturinn í starfsemi Isavia, eða 80 prósent, er vegna notkunar á jarðefnaeldsneyti á tæki sem sjá um þjónustu og viðhald á brautum flugvallarins. Isavia hefur prófað sig áfram með notkun repjuolíu á tæki og þær prófanir hafa gefið góðan árangur.

„Aðgerðir snúa fyrst og fremst að endurnýjun bíla- og tækjaflota félagsins, þar er um að ræða um 140 tæki á Keflavíkurflugvelli, og skynsamlegri nýtingu auðlinda þar sem sóun er haldið í lágmarki. Nú þegar eru til lausnir fyrir minni ökutæki sem hægt er að skipta út fyrir rafmagnstæki í dag með eðlilegri endurnýjun,“ segir Hrönn.

Hún segir að það muni taka lengri tíma að skipta út stærri tækjum en áætlanir gera ráð fyrir að það náist innan tilsetts tíma. Samhliða útskiptingu tækja er þörf fyrir innviðauppbyggingu til þess að þjóna flotanum með nýjum umhverfisvænni orkugjöfum. „Þessu til viðbótar erum við að láta greina fýsileika þess að nota vetni á varaaflsstöðvar til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og losna loks alfarið við það,“ segir Hrönn.

„Við höfum lagt mikla áherslu á umhverfismál og samfélagslega ábyrgð í okkar rekstri,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Frá árinu 2015 höfum við markvisst unnið að því að minnka kolefnaútblástur okkar og erum meðal annars að vinna að þriðja stigi af sex í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation). Við höfum kortlagt kolefnisspor okkar, gripið til aðgerða til að minnka það og sett okkur markmið um samdrátt. Eftir ítarlega yfirferð á okkar losun getum við núna fullyrt að við getum orðið kolefnislaus í okkar rekstri í síðasta lagi árið 2030,“ segir forstjóri Isavia.

Losun á gróðurhúsalofttegundum frá íslenskum flugrekendum hefur dregist mikið saman vegna minni flugsamgangna af völdum Covid-19, en líklegt er að hún aukist á ný þegar faraldrinum slotar. Spáð er mikilli aukningu í alþjóðaflugsamgöngum fram til ársins 2050, allt að þreföldun frá því sem nú er. Verið er að þróa minni farþegaflugvélar sem ganga fyrir rafmagni og vonir standa til að á næstu árum og áratugum verði hægt að knýja stærri farþegavélar með umhverfisvænna eldsneyti, til dæmis með því að framleiða vetni með rafgreiningu í stað jarðefnaeldsneytis.

En er það raunhæft að ISAVIA nái því að verða kolefnislaust árið 2030?

„Við höfum fordæmi fyrir því frá Svíþjóð þar sem flugvellir eru komnir þangað og svo er fjöldi evrópskra flugvalla búinn að setja takmarkið á 2030,“ segir Hrönn. „Við getum náð þeim árangri líka.“

Verður hægt að kaupa rafeldsneyti á Keflavíkurflugvelli þegar flugvélar fara að ganga fyrir því?

„Við fylgjumst vel með þeirri þróun sem er á orkugjöfum til að knýja þoturnar og verðum tilbúin að veita þá þjónustu sem þarf þegar þar að kemur,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir.