fbpx

Nýársfundur Ferðaklasans, KPMG og SAF

Þann 16. janúar sl. fór nýársmálstofa Ferðaklasans, KPMG og SAF fram í húsnæði KPMG í Borgartúni.

Í upphafi tók Friðrik Pálsson eigandi Hótel Rangá til máls en hann rýndi í fortíð og framtíð. Hann byrjaði fyrirlestur sinn á að benda á það sem sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan ættu sameiginlegt og hversu mikilvægt það væri að líta sem svo á að komur erlendra ferðamanna til landsins sem ásókn í takmarkaða auðlind. Hann ræddi jafnframt um Eyjafjallajökuls gosið 2010 og hvernig neikvæða umfjöllunin um bankahrunið og eldgosið væri svona svolítið í takt við það sem Hollywood segir „bad reputation is better than no reputation.“ Þannig tókst að breyta neikvæðum fréttum af eldgosi og niðurfellingu þúsunda flugferða í glæsilegar myndbirtingar af náttúrufegurð Íslands.

Einnig lét Friðrik í ljós efasemdir sínar um ágæti skemmtiferðarskipa fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Það væri mikilvægt að kolefnisjafna komur þessara skipa og að réttast væri ef skipin greiddu gistináttagjald líkt og aðrir „á meðan þessi óheilla skattur væri enn við lýði.“

Friðrik lagði líka mikla áherslu á mikilvægi beins flugs frá Bandaríkjunum og Kanada og benti á að lítið myndi fiskast, ef dregið yrði mjög úr sjósókn að sama skapi myndi ferðamönnum fækka, ef flugsætum fækkar til muna. Eftir samtöl Friðriks við viðskiptavini erlendis hefur hann grun um að það þurfi átak á mikilvægustu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu á sama tíma vill Friðrik undirstrika að dýrmætustu viðskiptavinina er oftast bæði ódýrast og fljótlegast að ná í á þeim mörkuðum þar sem þú ert best þekktur nú þegar, það gagnast oft minna að fara yfir lækinn til að sækja vatnið.

Um vöxt ferðaþjónustunnar hafði Friðrik þetta að segja:

„Ég þykist vita að við munum aldrei aftur upplifa annan eins vöxt eins og var á mestu uppgangsárunum, sá vöxtur var óheilbrigður og gat ekki staðist til lengdar. Þegar uppgangurinn hófst var atvinnuleysi í landinu ekki mikið og því höfum við þurft að manna starfsemina að miklu leyti með innfluttu vinnuafli, ágætu fólki sem flest kemur hingað aðeins sem starfsmenn á verktíð og hefur ekki í hyggju að setjast hér að. Það þýðir vitanlega að þau leggja ekki eins mikið til samfélagsins væru þau búsett hérlendis og starfsmannaveltan verður jafnframt meiri en góðu hófu gegnir. Við gerðum á undanförnum árum margt gott, margt mjög gott og við munum njóta ávaxtanna af því á næstu árum. Það er óskandi að samdrátturinn sem við sjáum fram á núna verði skammvinnur og í framhaldi af honum komumst við á góðan skrið á ný og þá með þær áherslur sem ég hef nefnt hér að framan, ef við leggjum mesta áherslu á gæði og gott verð en minna á fjölda ferðamanna.“

Því næst ræddi Friðrik þau mál sem hafa verið á allra vörum upp á síðkastið, loftlagsmálin. Um framtíðina í þeim efnum er vandi að spá en augljóst er að Íslensk ferðaþjónusta á allt sitt undir fluginu og erfitt getur verið að aðlaðast breyttum heimi ef verð á flugsætum hækkar verulega og flugviskubitið nær yfirhöndinni. Það er ólíkt því sem gengur og gerist í Bandaríkjunum og meginlandi Evrópu þar sem ferðaþjónustan getur lifað sæmilegu lífi ef að flugsins nyti ekki við.

Að lokum sagði Friðrik

„Vöndum okkur, vöndum okkur við allt sem við gerum. Höldum áfram uppbyggingu sem stefnir að verndun náttúruauðlinda okkar. Takmörkum átroðning þar sem þess er þörf. Stöndum framarlega í flokki í barráttu gegn loftlagsvá. Grípum tækifæri framtíðarinnar fyrir kröfuharða gesti. Gerum landið áfram eftirsóknarverðan áfangastað en gerum okkur líka grein fyrir því að Ísland verður aldrei og á ekki að vera ódýrt, það á hins vegar að vera hverrar krónu virði.“

Eftir að Friðrik hafði lokið máli sínu tók Sævar Kristinsson sérfræðingur hjá KPMG til máls og kynnti niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar KPMG sem gerð var fyrir Íslenska ferðaklasann og SAF.

Í könnuninni var meðal annars spurt út í væntingar ferðaþjónustuaðila um samkeppnishæfni á komandi ári, ógnanir og tækifæri á árinu sem og eftir fimm ár, áherslur síðustu 12 mánuði og hvaða þættir skipta fyrirtækin mestu máli á árinu.

Í síðasta tilfellinu gafst fyrirtækjum í geiranum kost á að raða málaflokkum í röð eftir mikilvægi, og þar brenna gengismálin helst á fyrirtækjunum, annað árið í röð. Þó lækkar hlutfall þeirra úr 35% í 28% sem telja samkeppnisstöðuna veikjast á árinu. Það gæti þó að einhverju leyti kristallast í því að hlutfall stærri fyrirtækja eykst í könnuninni á milli ára.

Önnur atriði halda sinni stöðu innan mikilvægisröðunarinnar, utan þess að annars vegar nýsköpun og vöruþróun og hins vegar erlend samkeppni rjúka upp listann, það fyrrnefnda í 6. sæti og það síðarnefnda í 9. sæti.

Mjög ánægjulegt var að sjá að 90% fyrirtækja í ferðaþjónustu svöruðu því játandi þegar þau voru spurð hvort þeirra fyrirtæki hafi lagt áherslu á nýsköpun og vöruþróun í rekstri sínum á síðustu 12 mánuðum.

Að lokum voru svo áhugaverðar umræður á milli Ástu Kristínar Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans og Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra SAF undir stjórn Skapta Ernis Ólafssonar upplýsingafulltrúa SAF þar sem meðal annars var farið yfir helstu niðurstöður könnunarinnar og horfur á komandi ári.

Hér má nálgast upptöku af fundinum.
Hér má nálgast glærur af fundinum.
Hér má nálgast umfjöllun Viðskiptablaðsins um fundinn
Hér má nálgast viðtal við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra Ferðaklasans og Sævar Kristinsson ráðgjafa hjá KPMG á Rás 2.