fbpx

If you can´t go to the moon – go to Iceland!

Þann 27. september stóð Íslenski ferðaklasinn ásamt Valitor, Central Pay og Ferðamálastofu Íslands fyrir upplýsingafundi um málefni Kína með áherslu á kínverska ferðamenn. Ásamt ávarpi frá aðstoðarmanni utanríkisráðherra, Borgari Þór flutti kínverski sendiherrann á Íslandi, Jin Zhijian erindi og varpaði ljósi á fjölmargar áhugaverðar staðreyndir.

Fundurinn var vel sóttur en ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins og kínverska sendiráðsins voru sjö aðilar sem fluttu erindi.

Kínverskum ferðamönnum hefur jafnt og þétt fjölgað hér á landi á síðustu árum en á árinu 2017 komu 90 þúsund kínverskir ferðamenn til Íslands. Það má leiða líkum að því að sá fjöldi verði a.m.k óbreyttur miðað við áframhaldandi ásand en geti síðan aukist verulega með bættum samgöngum á næstu árum. Í máli sendiherrans kom fram að líklegt er að beint flug hefjist á milli Kína og Íslands á næstu tveimur árum sem myndi í kjölfarið þýða amk tvöfaldan ef ekki þrefaldann fjölda gesta sem koma frá Kína í dag.

Á fundinum voru helstu áskoranir og tækifæri nefnd og hvaða úrlausnir væru mögulegar. Í því samhengi var ítarleg kynning á því greiðslufyrirkomulagi sem yfir 90% Kínverja nota og þekkja en hefðbundin greiðslukort eru ekki algeng í Kína. Sú tækni sem all flestir eða yfir 1 milljarður Kínverja nota á degi hverjum nefnist WeChatPay og er í raun hefðbundið app með möguleikum á greiðslu fyrir vörur og þjónustu. Appið er því í senn markaðs, afþreyingar og samtalsvettvangur um leið og hægt er að greiða fyrir allar helstu vörur og þjónustu. Til þess hinsvegar að íslenskir þjónustuaðilar geti tekið við greiðslum í gegnum þetta app þarf ákveðin tækni að vera til staðar sem íslenskir þjónustuaðilarnir Central Pay og Valitor hafa milligöngu um. Rannsóknir sýna að í þeim löndum þar sem búið er að innleiða kínverskt greiðslukerfi sé marktækur munur á eyðslu kínverja.

Í Mælaborði ferðaþjónustunnar leynist ýmislegt gagnlegt sem getur m.a gefið okkur vísbendingar um ferðahegðun kínverja, afhverju þeir koma, hvernig þeir skipuleggja ferðalagið, hvar þeir fá upplýsingar um landið og hvað þeir vilja helst gera.

Stór hluti af þeim kínverjum sem koma til landsins eru konur eða um 59%. Í framhaldi má nefna að um 31% kínverskra ferðamanna sem koma til landsins eru á aldursbilinu 30-40 ára og um helmingur þessara ferðamanna kýs að ferðast á eigin vegum um landið.

Í máli sendiherrans kom einnig fram að Ísland er í tíunda sæti yfir þá áfangastaði í heiminum sem Kínverjar hafa mestan áhuga á að heimsækja, að Ísland væri fimmti öruggasti áfangastaður fyrir Kínverja í heiminum og sá öruggasti í Evrópu. Þegar öryggismál eru hinsvegar almennt skoðuð kemur í ljós að það er ýmislegt sem má bæta og er þá helst upplýsingagjöf og almenn stýring þar efst á blaði. Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri frá Safetravel fór yfir mikilvægi þess að merkingar þyrftu að vera til á fleiri en einu tungumáli og hversu auðvelt væri að stýra ferðamönnum með markvissari hætti með betri skiltum, aukinni upplýsingagjöf og almennt bættri þekkingu á ólíkum aðstæðum og öruggari útskotum á vegunum.

Fjöldi kínverskra ferðamanna í heiminum árið 2017 er yfir 130 milljónir og fer ört vaxandi með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum. En hver á kökuna og hvernig fáum við stærri sneið? Eins og fram kom í máli Arnars Steins og Ársæls Harðarssonar sem báðir hafa mikla reynslu og þekkingu á kínverskum markaði er ljóst að stór hluti virðiskeðjunnar sem tilheyrir hefðbundnu ferðalagi er í eigu og skipulagt af erlendum ferðaskrifstofum, framkvæmd af erlendum leiðsögumönnum. Þetta fyrirkomulag verður til þess að upplýsingar um tekjur og mikilvæg þekking verður ekki eftir hjá íslenskum ferðaþjónustuaðilum. Þessu er hægt að breyta með bættri þekkingu, markvissari þjálfun og réttum verkfærum í markaðssetningu.

Hjá Íslandsstofu er hafin vinna við að greina kínverska markaðinn enn betur en þar er að finna gagnlega samantekt og upplýsingar um ferðahegðun, mismunandi markhópa, tillögur að nálgun og því hvernig Norðurlöndin geti unnið betur að markaðssetningu og upplifun gagnvart þessum markaði og hvaða skilaboð og miðla best er að nota.

En hvernig gerum við þetta síðan og hvað er í rauninni góð þjónusta? Er það að gefa gestum okkar þá upplifun sem við teljum að sé honum fyrir bestu eða er það að mæta hans þörfum og veita honum þá þjónustu og upplifun sem hann óskar eftir? Margrét Reynisdóttir er reynslubolti þegar kemur að þjálfun og uppbyggingu á hæfni og gæðum í ferðaþjónustu en hún fór m.a yfir þau ólíku samskiptaform sem þessir menningarhópar nota, það sem er upp fyrir okkur er niður fyrir þeim og svo mætti lengi telja. Með gagnkvæmri virðingu fyrir ólíkri menningu og lifnaðarháttum en með viljan að vopni til að veita framúrskarandi þjónustu og upplifun til gesta þá byggjum við upp gott orðspor og áframhaldandi viðskipti til komandi ára.