Uppskeruhátíð Ábyrgrar ferðaþjónustu fór fram 7. desember sl.
Ábyrg ferðaþjónusta – eykur samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar
Meðvitund um samfélagsábyrgð fyrirtækja er sífellt að aukast og æ fleiri fyrirtæki hafa breytt verklagi sínu svo þau hafi jákvæðari áhrif á samfélag sitt og náttúruna með því að hafa ábyrga ferðaþjónustu sem eðlilegan hluta af sínum rekstri.
Frá því í janúar á þessu ári hafa Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn boðið fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum uppá fræðslufundi, vinnustofur og málþing til að hreyfa við og þróa vinnu í átt að ábyrgari stjórnun fyrirtækja í ferðaþjónustu. Í upphafi árs undirrituðu yfir 300 stjórnendur fyrirtækja úr virðiskeðju ferðaþjónustu yfirlýsingu þess efnis að þau myndu setja sér markmið um fjóra meginþætti ábyrgrar ferðaþjónustu. Þessir þættir eru að tryggja öryggi ferðamanna og koma fram við þá af háttvísi, umgangast náttúruna af virðingu, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæði áhrif á nærsamfélag sitt. Með yfirlýsingunni skuldbundu fyrirtækin sig til að birta þessi markmið fyrir 7. desember í ár. Hafa mörg þessarra fyrirtækja núþegar birt markmiðin sín á heimasíðum sínum og sífellt fleiri bætast í þennan hóp.
Fyrirtæki sem taka virkan þátt í verkefninu hafa skiptst á þekkingu og reynslu og farið yfir þessa fjóra meginþætti skref fyrir skref, náð að byggja upp, breyta ferlum og tileinka sér alveg nýja hugsun og starfshætti. Mörg þeirra hafa komist að því að ábyrg ferðaþjónusta skilar bættum rekstri og sparar peninga.
Uppskeruhátið Ábyrgrar ferðaþjónustu fór fram þann 7.desember þegar fyrirtækin ásamt samstarfsaðilum að verkefninu og bakhjörlum komu saman og fóru yfir verkefni ársins. Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Reykjförð Gylfadóttir flutti ávarp þar sem hún hvatti til áframhaldandi frumkvæðis fyrirtækjanna í góðu samstarfi við stjórnvöld, þrjú fyrirtæki fluttu ör fyrirlestra þar sem þau kynntu sína vinnu undir hatti ábyrgrar ferðaþjónustu ásamt því að Bruno Bisig, framkvæmdastjóri Kontiki Reisen flutti erindi um mikilvægi þess að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sýndu samfélagslega ábyrgð í verki. Hvað hefði reynst þeim vel og hvernig væri hægt að miðla þekkingu og reynslu á ferlum og aðferðum þannig að Ísland gæti orðið í flokki þeirra bestu. Að lokum var síðan boðið uppá hressandi pallborð þar sem rætt var um málin af mikilli festu og ábyrgð í bland við léttan upprifjunartón frá 1928.
Þeim fyrirtækjum sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna er fylgt eftir með því að gera athugun á sýnileika markmiðanna og svo í framhaldi hversu vel hefur gengið að innleiða og mæla árangur. Það eru því ærin verkefni sem bíða ábyrgra ferðaþjónustufyrirtækja á árinu 2018 og við hlökkum til að verða hluti af þeirra ferðalagi áfram.
Hér má finna samantekt á erindum, upptökur og myndir frá deginum.
Hluti af grein sem birtist á Vísi 7.desember 2017 og má sjá hér.