fbpx

Stefnumót klasaaðila – Eflum tengslin

Stefnumót klasaaðila – Eflum tengslin

Fundur aðildafélaga Íslenska ferðaklasans var haldin hjá EFLU verkfræðistofu fimmtudagsmorguninn 2.nóvember.

Aðildafélagar að Íslenska ferðaklasanum koma frá breiðum hópi virðiskeðju sem mynda ferðaþjónustu. Það er einn af styrkleikum klasans hversu fjölbreyttur þessi hópur er og hversu ólíka þekkingu og reynslu hann kemur með að borðinu.

Til þess að nýta þessa reynslu og þekkingu sem best er nauðsynlegt að hittast og kynnast betur þeim fyrirtækjum sem mynda Ferðaklasann. Til þess að kynnast, taka samtalið og skiptast á skoðunum er ekkert betra en að heimsækja aðilia í sitt umhverfi.

Í haust og vetur verðum við með röð heimsókna og stefnumóta við klasaaðila á þeirra svæði. Fyrst til að bjóða í heimsókn var EFLA verkfræðistofa sem m.a hefur komið að fjölda verkefna tengt uppbyggingu og þróun í ferðaþjónustu. Á fundinum fór Ólafur Árnason fagstjóri skipulagsmála m.a yfir þau fjölbreyttu verkefni sem EFLA hefur stýrt og með hvað hætti ferðaþjónustan blandast inní nær alla þætti í íslensku samfélagi. Hann lagði áherslu á að með réttu skipulagi og leiðandi vinnubrögðum væri hægt að stýra mun betur bæði fjölda og fjármunum þannig að greinin gæti vaxið á sjálfbæran hátt til lengri tíma. Þá kom Hafsteinn Helgason frá EFLU inná mikilvægi þess að við tækjum opna og gagnrýna umræðu um uppbygginu á vegakerfinu um hálendið þannig að m.a væri hægt að stýra ferðamönnum með markvissari hætti um dreifðari byggðir Íslands þann hluta af ári sem slíkt er raunhæft.

Áskoranir í ferðaþjónustu eru af ýmsum toga og hefur umræða um margskonar þolmörk verið áberandi og skildi engan undra. Þau þolmörk sem hvað mest hafa verið rædd að undanförnu eru viðhorf íbúa, þ.e íslendinga sjálfra til ferðaþjónustu og það gap sem hefur myndast milli greinarinnar og þjóðarinnar um mikilvægi og það stóra hlutverk sem ferðaþjónustan skipar í íslensku efnahagslífi. Á fundinum voru þessi mál m.a rædd og með hvaða hætti væri hægt að byggja brýr á milli aðila þannig að sú vinna og þau áhrif sem greinin hefur á íslenskt samfélag komist sem best til skila og hlúð sé að þróun hennar og framtíðar möguleikum á allan mögulegan hátt. Þau Eva Magnúsdóttir frá ráðgjafafyrirtækinu Podium og Magnús Heimisson frá Almannatengslum fóru yfir greiningu og vinnu sem hefur verið í forgrunni síðan í vor.

 

Stefnt er að því að halda stefnumót klasaaðila einu sinni í mánuði og halda þeim hætti á að fá að fara í heimsókn til aðildafélaganna sjálfra. Það skapar góð tengsl, gagnkvæma virðingu og mun betri kynningu á þeim fyrirtækjum sem mynda félagið.

Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að bjóða heim eru hér með hvött til að hafa samband á netfangið asta.kristin@icelandtourism.is og munu verða aðstoðuð við alla kynningu og skipulag fundarins.

Við þökkum EFLU kærlega fyrir frábærar mótttökur á fyrsta stefnumóti vetrarins og minnum á að Íslandsbanki, LEX og Ferðaklasinn bjóða til opins fundar undir heitinu „Samrunar og samþjöppun í ferðaþjónustu, tækifæri eða ógn?“ þann 14.nóv kl 8:30. Nánari upplýsingar um staðsetningu og dagskrá verða sendar út í kjölfarið.