Nýsköpun innan klasasamstarfs er margfalt áhrifaríkari en nýsköpun innan einstakra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þetta eru niðurstöður meistararitgerðar sem nýlega var gerð í stefnumiðaðri stjórnun hjá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Höfundur telur að helstu ástæðurnar séu virk samvinna og jafnvel samkeppni á meðal klasameðlima sem ýtir þeim til að gera betur, þá er aukin þekkingar- og upplýsingamiðlun sem á sér stað í klasanum m.a í gegnum viðburði, menningu og sérstaka innviði svo sem eins og rannsóknarsetur eða háskóla. Höfundur ritgerðarinnar er Verena Schnurbus
Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að nýsköpun innan fyrirtækja sé nauðsynleg til þess að halda samkeppnisforskoti á markaði og vera fær um að bjóða nýja virðisaukandi þjónustu. Viðfangsefni rannsóknar hennar var að finna lykilatriðin sem styddu við nýsköpun í klösum og í ferðaþjónustufyrirtækjum. Ferðaklasinn (á Íslandi) og fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu urðu fyrir valinu sem viðfangsefni rannsóknar og greiningar til þess að kanna nýsköpun innan klasa og fyrirtækja.
Stuðningur við klasa mikilvægari en stuðningur við einstaka fyrirtæki
Almennt eru einkenni ferðaklasa þeirra náttúrulega umhverfi og sérstaða svæða á sömu svæðum og framleiðsla og neysla þjónustu og vöru fyrir ferðamenn eiga uppruna sinn. Þess vegna eru mörk klasanna oft frekar óljós og fjöldi annarra fyrirtækja en þeirra sem eiga aðild að klasanum eiga hagsmuna að gæta á svæðinu sjálfu. Ferðaklasar hafa gríðarlega mikil bein áhrif á svæðum þar sem þau starfa og á sjálf sveitarfélögin. Þeir fela í sér ný tækifæri fyrir áfangastaði að þróa og skilgreina sig upp á nýtt í gegnum markvisst samstarf.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stuðningur við nýsköpun innan einstakra fyrirtækja muni hafa lítil áhrif á ferðaþjónustuna sem heild. Aftur á móti geti stuðningur við innviði í klasasamstarfi haft víðtækari áhrif. Stuðningur innan klasa hafi t.d. margföldunaráhrif á fjölda nýsköpunar fyrirtækja og aukningu á vöruúrvali. Í raun gefur rannsóknin til kynna að það sé margfalt áhrifaríkara og mikilvægara að styðja við innviði ferðaklasa heldur en að styðja við starfsemi einstakra fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Samkeppnishæfni felst í skýrri stefnumótun og sjálfbærri þróun
Til að standast alþjóðlegan samanburð og sjálfbæran vöxt í ferðaþjónustu til lengri tíma þarf að vinna að skýrri framtíðarsýn og stefnumótun fyrir greinina. Sögusagnir um að Ísland sé uppselt, að hér sé komin massa túrismi og að náttúran sé orðin spilt af of miklum ágangi eru þegar farnar að hafa áhrif á ímynd Íslands út á við. Rannsakandi bendir hinsvegar á að í samanburði við aðra áfangastaði sé þetta ekki raunin, raunin sé sú að vöxturinn hafi orðið of hraður á of skömmum tíma án þess að innviðir væru tilbúnir, mannauðurinn væri tilbúinn og að íbúar og nærsamfélag hafi haft ráðrúm til að undirbúa sig fyrir komu þessara gesta í eins miklum mæli og raun ber vitni. Það sem uppá hafi vantað til þessa væri skýr framtíðarstefna stjórnvalda um uppbyggingu áfangastaða og samvinna fleiri mismunandi aðila, fyrirtækja og stofnanna til að ná fram sameiginlegum markmiðum og aðgerðum. Verði ekkert gert skerðist samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands hratt. Bendir rannsakandi á að jákvæð skref hafi verið tekin með stofnun Stjórnstöðvar Ferðamála og vinnu KPMG í sviðsmynda framsetingu fyrir ferðaþjónustu. Þá bendir rannsakandi einnig á mikilvægi þess að vinna saman þvert á ólíkar greinar og að nýsköpunarstefna stjórnvalda spili þar stórt hlutverk. Aukin fagmennska, samvinna og tengslamyndum innan greinarinnar er óhjákvæmleg til að ná árangri. Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja því óhjákvæmilega við helsta hlutverk Íslenska ferðaklasans sem er einmitt að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu með þverfaglegu samstarfi ólíkra fyrirtækja, háskóla, stofnanna og stjórnvalda.
4,9% vaxtar koma frá ferðaþjónustu
Greining á nýsköpun innan Íslenska ferðaklasans sýndi svo ekki var um villst hvað hann er mikilvægur fyrir Ísland. Að mati Landsbankans (2016) hefur efnahagslegur vöxtur á Íslandi að mestu komið frá ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir því að vöxturinn verði 6,1% á þessu ári og komi 4,9% hans frá ferðaþjónustu. Á vef Ferðamálastofu kemur fram að heildarfjöldi erlendra ferðamanna hafi verið tæplega 1,8 milljónir árið 2016 og er um að ræða 39% aukningu frá 2015 en þá voru erlendir ferðamenn tæplega 1,3 milljónir. Tæplega 1,8 milljónir ferðamanna komu með flugi um Keflavíkurflugvöll eða 98,7% af heildarfjölda ferðamanna. Tæplega 20 þúsund komu með Norrænu um Seyðisfjörð eða 1,1% af heild og um 3.800 þúsund með flugi um Reykjavíkur- eða Akureyrarflugvöll eða um 0,2% af heild. Gera verður ráð fyrir frávikum í talningum á Keflavíkurflugvelli þar sem þær ná til allra brottfara þ.m.t. erlendra ríkisborgara búsettra hérlendis.
Þróun á klasastefnu og sameiginleg sýn
Þessar tölur eru jákvæðar fyrir íslenskt atvinnulíf og þróun ferðaþjónustunnar. Í rannsókninni kemur fram að náttúrulegt samkeppnisforskot í ferðaþjónustu sé talið vera staðsetning Íslands á jarðarkringlunni, einstök náttúra og jarðfræði, mikið öryggi og lág glæpatíðni. Menningararfurinn auk menntunarstigs og orkuauðlinda eru einnig styrkleikar íslenskrar ferðaþjónustu. Þessa sameiginlegu kosti eða styrkleika er ekki að finna innan einstakra fyrirtækja heldur einkenna þeir landið sem heild sem aftur gerir það eftirsóknarvert sem áfangastað ferðamanna. Þess vegna telur höfundur þróun á klasastefnu og sameiginlegri sýn lífsnauðsynlega fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.
Samstarf á milli klasa
Nýsköpun í ferðaþjónustu á Íslandi er mikilvæg og hefur mjög jákvæð áhrif á aðrar atvinnugreinar og klasa eins og landbúnað, hönnun og sjávarklasa. Nú þegar eiga nokkur fyrirtæki aðild að starfsemi innan fleiri en eins klasa. Þar sem Ísland er lítil eyja í Norður Atlantshafi þá er markaðurinn og neytendur fjarri og flytja þarf þá á markaðinn. Stærð markaðar er einnig takmarkaður sem gerir nýjum aðilum erfitt fyrir að komast inn á markaði. Það elur af sér takmarkaða nýsköpunargetu. En sterkar tengingar og tengslanet auðvelda deilingu á þekkingu og hvetur til nýsköpunar.
Í rannsókninni segir í niðurstöðum að það sé tekið fram að Ísland getur nýtt sér það að vera einstakt og öðruvísi með því að bjóða vörur og þjónustu sem tengist þjóðararfinum, menningunni, landafræði og matarmenningu, en einnig hreinum orkuauðlindum. Nýsköpun í ferðamálum, séstakleg á fámennum svæðum getur aðstoðað þau í að auka gæði innviða og þannig draga að sér fleiri erlenda gesti..
Tækifæri á þróun Íslenska ferðaklasans
Höfundur rannsóknarinnar segir ljóst að Íslenski ferðaklasinn sé ennþá að vaxa en fjárfesting og frumkvöðlastarf sé þegar orðið mjög öflugt. Klasasamstarfið hefur verið árangursríkt enn sem komið er og margar nýjungar komið á markað, ný fyrirtæki stofnuð, meðlimum hefur fjölgað, fjárfestingar vaxið og sum svæði hafa aukið aðdráttarafl sitt.
Höfundur telur að gríðarleg tækifæri felist í þróun á Íslenska ferðaklasanum – að fara í samstarf við aðra klasa eins og matvælaklasa, sjávarklasann, heilsuklasann, tónlistarklasa, MICE (Meetings, Incentives, Conferences, and Events) og jarðvarma/orku- og auðlindaklasann. Þar sem Íslendingar hafi sannað sig sem mjög skapandi þjóð með ríkan frumkvöðla hugsunarhatt þá eigi hún von á fjölmörgum verkefnum í framtíðinni. Markaðurinn á Íslandi sé ennþá smár og mörg fyrirtækjanna í ferðaþjónustu eru ennþá fjölskyldufyrirtæki sem eru að byggja upp reynslu í rekstri og markaðssetningu samhliða örum vexti Það séu því rík tækifæri til þróunar og aukinnar þekkingar.
Stuðningur við klasasamstarf nauðsynlegur
Samandregið er nýsköpun í ferðaþjónustu og innan ferðaklasans mjög öflug. En til þess að tryggja áframhaldandi nýsköpun á komandi árum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum þarf einhvers konar stuðningur við klasann að koma til. Það hefur komið í ljós að stofnun Íslenska Ferðaklasans er mikilvægur þáttur þegar kemur að stuðningi við nýsköpun innan greinarinnar. Bakhjarlar klasans eru stór og öflug fyrirtæki, áhugasamtök , mennta- og rannsóknarstofnanir auk opinberra stofnanna og sveitarfélaga.
Ritgerð Verenu má finna hér:
Umfjöllun í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 3.ágúst sl.