fbpx

Sóknarfærin í upphafi árs

Dagana 16. -19. janúar höldum við Ferðaþjónustuvikuna í fyrsta skipti en vikan mun samanstanda af viðburðum sem alla jafna hafa verið haldnir yfir nokkurra vikna tímabil frá upphafi árs og jafnvel inní vorið. Með því að þjappa þessum viðburðum viljum við í fyrsta lagi koma til móts við stóran fjölda fyrirtækja sem staðsettur er um allt land og sækir í þessari sömu viku viðburðin Mannamót en við viljum líka minna á mikilvægi greinarinnar í gegnum allt æðakerfi íslensks efnahagslífs og gefa þannig enn fleirum tækifæri á að kynnast ferðaþjónustu og því sem hún skilar okkur sem íbúum á Íslandi.  Aðstandendur að Ferðaþjónustuvikunni eru auk Ferðaklasans, Markaðsstofur landshlutanna, Ferðamálastofa, SAF og Íslandsstofa.

Í lok árs stóðu Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar fyrir fundi þar sem skattspor ferðaþjónustunnar var rakið ásamt því að velta upp raunverulegum verðmætum sem eftir verða í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að halda staðreyndum og gögnum á lofti þegar verið er að ræða atvinnugreinar almennt og þar hefur stundum skort á að réttar upplýsingar séu hafðar um hönd. Þannig er það oft ákveðinn sameiginlegur misskilningur að greinin skili litlu sem engu í þjóðarbúið, greiði nánast enga skatta og að laun séu neðar en nefna þurfi. Hægt er að nálgast þessar greiningar allar ef áhugi er fyrir hér. En til að gera langa sögu stutta þá var skattspor ferðaþjónustunnar 155 milljarðar á árinu 2022 og líkur til að vera nær 200 milljörðum á líðandi ári. Útflutningsverðmæti greinarinnar eru nær 40% og skapar þessi magnaða atvinnugrein rúmlega 26.000 fjölbreytt og skapandi störf í viðskiptahagkerfinu. Það er vissulega hluti af starfsmönnum í ferðaþjónustu að erlendu bergi brotinn en gleymum ekki að þeir einstaklingar greiða skatta og skyldur á Íslandi og eru því hrein viðbót inn í ríkiskassann okkar góða.

Í desember fór einnig fram fundur þar sem gögn um komur skemmtiferðaskipa til Íslands voru kynnt. Hér er á sama hátt og áður mikilvægt að halda staðreyndum á lofti þar sem hægt er að vísa í gögn því til staðfestingar. Hér má lesa góða samantekt frá fundinum en samkvæmt viðhorfskönnun sem framkvæmd var af Rannsóknarmiðstöð ferðamála á viðkomustöðum skipanna kemur í ljós almenn ánægja íbúa og að þeir telji að skipafarþegar skili samfélaginu ábata, það er þó ekki nóg að skynja það heldur styðja rannsóknir og greiningar gagna jafnframt við þá staðreynd að virði skemmtiferðaskipafarþega í íslensku efnahagslífi sé um 55 milljarðar á árinu 2023. Þá hefur þróunin á móttöku skiptifarþega stóraukið verðmætin sem eftir verða í samfélaginu þar sem þeir farþegar koma með flugi og gista að meðaltali 2,15 nætur á Íslandi. Um 80% þessara farþega koma að jafnaði með íslensku flugfélögunum tveim. Eins er mikilvægt að halda til haga að fjöldi skemmtiferðaskipafarþega er um 14% af heildarfjölda ferðamanna á Íslandi og sennilega með þeim hópum sem auðveldast er að stýra inná áfangastaði eða í náttúrunni. 

Í ótal samtölum við fólk vítt og breytt hef ég tekið eftir því að það gætir líka ákveðins misskilnings eða þekkingaleysis um hvað sé talið með sem störf í ferðaþjónustu og því mikilvægt að hafa í huga að störfin ferðast á skalanum „starfsmaður í hótelþrifum til flugstjóra“, „hugbúnaðarsérfræðings til mótttökuritara“, „hópferðabílstjóra til landvarða“ og allt þar á milli. Þessi störf eru öll verðmæt og mikilvægur hlekkur í langri virðiskeðju ferðaþjónustunnar þar sem einn laus hlekkur getur orðið til þess að keðjan slitnar og vistkerfið virkar ekki sem skyldi. Vissulega eigum við ótalmörg tækifæri á að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu og þar er hægt að auka fjárfestingar og gefa í. Nýta hugvit og tækni til að leysa úr mannaflsfrekum eða flóknum verkefnum þannig að við getum einbeitt okkur enn frekar að því að þjónusta gestina okkar eins vel og best verður á kosið.  Tæknin er líka okkar besti vinur til að flýta fyrir innleiðingu á sjálfbærni og umhverfislausnum ásamt því að gera vinnuna okkar að svo mörgu leiti ángæjulegri og árangursríkari. 

Ég hvet ykkur til að taka upplýsta umræðu þar sem við á og við hlökkum til að sjá ykkur kát á nýju ári. Þar verður sannarlega úr mörgum spennandi viðburðum, vinnustofum og ráðstefnum að velja. 

Gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir gömlu góðu.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans