fbpx

Styrkir fyrir frumkvöðla

Styrkir fyrir frumkvöðla

 

Þegar hrinda á nýsköpunarhugmynd í framkvæmd er gott að kanna þá styrki sem standa mögulega til boða. Hér á eftir fylgir listi yfir þá styrki sem hugsanlega gætu nýst í nýsköpun í ferðaþjónustu en hafa verður í huga að þessi listi er ekki tæmandi svo mikilvægt er að kanna sér styrkjaumhverfið á eigin forsendum. Þessi upptalning er ágætt fyrsta skref.

Rannís (Rannsóknarráð Íslands)

Rannís rekur samkeppnissjóði á sviði rannsókna og nýsköpunar og býður uppá aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum. Í leitarvél á vefsíðu Rannís má sjá þá sjóði sem stofnunin rekur ásamt þeim erlendu sjóðum sem í boði eru. Styrkjum á síðunni er skipt niður í sex flokka, Rannsóknir og nýsköpun, Menntun, Menning og listir, Æskulýðsstarf og íþróttir og Atvinnulíf og Innlendir sjóðir og Alþjóðastarf A-Ö. Gott er að renna yfir þessa flokka og skoða sérstaklega þá flokka sem þú telur að hugmyndin þín gæti átt hljómgrunn.

Stjórnarráð Íslands

Á vefsíðu stjórnarráðsins má sjá yfirlitssíðu um styrki og sjóði sem ráðuneytin veita. Sem dæmi má nefna að Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið er með sjóði á sviði nýsköpunar og sérstaka styrki tengda ferðaþjónustu, framkvæmdasjóð ferðamannastaða og flugþróunarsjóð. Einnig má nefna Loftlagssjóð sem hýstur er hjá Umhverfisráðuneytinu.

Hægt er að skoða yfirlit yfir styrki á vegum stjórnarráðsins hér.

Uppbyggingarsjóðir landshlutanna

Landshlutasamtök sveitarfélaga, utan höfuðborgarsvæðisins, starfrækja uppbyggingarsjóði sóknaráætlana hvert í sínum landshluta samkvæmt samningum við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Sjóðirnir eru samkeppnissjóðir sem styðja verkefni í samræmi við markmið hverrar sóknaráætlunar.

Nánari upplýsingar um sóknaráætlanir landshluta má finna hér

Ferðamálastofa

Ferðamálastofa auglýsir styrkir frá NATA (North Atlantic Tourism Association). Hægt er að sækja styrki til tvennskonar verkefna,

  • Þróunar og markaðsverkefna í ferðaþjónustu
  • Ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um möguleika á styrkjum á vefsíðu Ferðamálastofu hér.

Sjóðir klasaaðila Íslenska ferðaklasans

Margir klasaaðilar Íslenska ferðaklasans bjóða uppá styrki í tengslum við ferðaþjónustu eða málefni sem hafa víðari skírskotun. Hér að neðan eru nokkur dæmi:

Landsvirkjun heldur meðal annars úti samfélagssjóð en tilgangur sjóðsins er að styðja verkefni sem hafa breiða samfélagslega skírskotun og möguleika á að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Einnig hefur Landsvirkjun innan sinna vébanda, Orkurannsóknarsjóð en tilgangur hans er að veita styrki til námsmanna og rannsóknarverkefna. Hægt er að fá nánari upplýsingar um styrkina hér.

Íslandsbanki heldur úti Frumkvöðlasjóði en úr honum er veitt árlega á haustin. Markmið sjóðsins er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og styðja við bakið á frumkvöðlaverkefnum sem stuðla að þeim heimsmarkmiðum sem bankinn leggur sérstaka áherslu á. Bankinn styður jafnframt við verkefni sem efla samfélagið og vernda umhverfið með því að styrkja fólk, félagasamtök og fyrirtæki sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun. Nánari upplýsingar má finna hér.

Isavia veitir styrki til meistara- og doktorsnemenda í HR eða HÍ sem gera verkefni innan flug- og ferðaþjónustugeirans ásamt því að halda úti samfélagssjóð. Nánari upplýsingar má finna hér. 

Landsbankinn veitir á hverju ári 15 milljónir í samfélagsstyrki á hverju ári sem ætlað er að styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Einnig veitir Landsbankinn 15 námsstyrki til viðskiptavina í námi. Nánari upplýsingar um styrki Landsbankans má finna hér.

Ítarefni

Ráðgjafarfyrirtækið RATA aðstoðar fyrirtæki og einstaklinga í sínum fyrstu skrefum á frumkvöðlabrautinni.

Vefsíða RATA

Ráðgjafarfyrirtækið Poppins & Partners aðstoðar fyrirtæki og einstaklinga við styrkumsóknir. Á vefsíðu þeirra má meðal annars hala niður styrkjadagatali, tékklista og upplýsingar um þá styrki sem í boði eru, flokkaðir eftir atvinnugreinum.

Vefsíða Poppins & Partners 

Ef spurningar kvikna við lestur eða ósk er um frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Árna Frey hjá Íslenska ferðaklasanum í arni@icelandtourism.is