fbpx

Aukum forskotið – Ábyrg ferðaþjónusta 2022

Þann 3. mars sl. var haldin kynningarfundur á verkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu í Grósku.

Fundurinn var haldinn fyrir fullu húsi en honum var einnig streymt.

Ætlunin var að ráðherra ferðamála Lilju Dögg Alfreðsdóttur myndi opna fundinn en því miður þá greindist hún með Covid svo María Reynisdóttir hljóp í skarðið og opnaði fundinn í hennar stað.

María er sérfræðingur á skrifstofu menningar og ferðaþjónustu í ferðamálaráðuneytinu. Hún lagði áherslu á bjartsýni þrátt fyrir óvissuástand í greininni. Þökk sé öflugu markaðsstarfi sé ímynd landsins sterk og má í því samhengi nefna að nú nýlega skrifaði ráðherra undir 550 milljón króna aukafjárveitingu til markaðsverkefnisins Ísland saman í sókn. Einnig rigndi inn viðurkenningum og má þar meðal annars nefna að Lonely Planet útnefndi Vestfirði besta stað í heimi til að heimsækja árið 2022, CultureTrip útnefndi Giljaböðin í Húsafelli sem eina af bestu ferðaupplifunum á árinu. Einnig gerðu CNN travel og ferðatímaritið Travel & Leasure nýju Skógarböðunum sem munu opna í vor við rætur Vaðlaheiðar fyrir norðan góð skil á sýnum miðlum. Þá ber einnig að gleðjast yfir fyrirætlunum um stofnun nýs flugfélags með aðsetur á Akureyri, Niceair. Þau áform ríma vel við áform stjórnvalda um að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Einnig lagði María áherslu á að samkvæmt könnunum væru kröfur um sjálfbæra ferðaþjónustu stöðugt að verða háværari og væri Ábyrg ferðaþjónusta kjörin vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná árangri í þeim efnum.

Því næst tók Rakel Theodórsdóttir, verkefnastjóri hjá Íslenska ferðaklasanum til máls. Rakel mun leiða verkefnið um Ábyrga ferðaþjónustu og kynnti hún áherslur komandi árs í verkefninu. Áður en hún slóst í för með Ferðaklasanum var hún markaðs- og gæðastjóri hjá Friðheimum ásamt því að vera með BSc gráðu í Ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein.

Á árinu er ætlunin að leggja áherslu á sjálfbærni og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og nýta þau tæki til að veita okkur forskot upp úr heimsfaraldrinum. Einnig ítrekaði Rakel mikilvægi þess að setja sér raunhæf markmið og birta þau. Þannig væru skilaboðin skýr að við séum að axla ábyrgð á eigin rekstri og tryggja framtíð komandi kynslóðar. Með þessu styrkjum við jafnframt ímynd ferðaþjónustu á Íslandi á heimsvísu.

Rakel tók dæmi af TUI Group, Booking.com og Kuoni Tumlare um hvernig þessi fyrirtæki vinna nú markvisst af því að koma fyrirtækjum með öfluga sjálfbærnistefnu á framfæri.

Í verkefninu verður einn fundur í mánuði sem verður um 2 klst. Langur. Lögð er mikil áhersla á að verkefnið sé aðgengilegt fyrir alla og verða því fundirnir á Zoom. Fundunum verður skipt upp í fyrirlestra og jafningjarýni með viðtalsherbergjum á Zoom. Fundirnir verða allir teknir upp og aðgengilegir. Frá maí og fram í september verður sumarfrí en kostnaður við þátttöku í verkefninu er 45.000kr. Hægt verður að skrá tvo einstaklinga frá hverju fyrirtæki.

Í verkefninu verður farið yfir helstu hugtök er varðar gæði og ábyrga ferðaþjónustu ásamt því að tengt er við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með þátttöku gefst fyrirtækjum kostur á að taka samtalið um vegferðina í átt að sjálfbærni. Einnig verða í boði tól og tæki til að setja sér skýr markmið og auðvelda birtingu á sjálfbærnistefnu fyrirtækisins sem og mælingar á árangri. Ætlunin er að fyrirtæki geti birt afrakstur vinnu í verkefninu á heimasíðu fyrirtækis síns að námskeiði loknu.

Hægt er að horfa á erindi Rakelar hér.

Því næst tók Birta Kristín Helgadóttir fagstjóri Grænvangs til máls. Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftlagsmál og grænar lausnir. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld í innlendum aðgerðum til að ná því sameiginlega markmiði.

Birta Kristín greindi frá því að þau finndu fyrir aukningu á mörkuðum í áherslum á sjálfbærni og vilja hjá ferðaþjónustuaðilum, bæði fyrirtækjum og viðskiptavinum til að gera vel í þessum efnum. Sem dæmi má nefna að nú sé það skilyrði á mörgum vinnustofum sem Íslandsstofa tekur þátt í að greina frá sjálfbærnistefnu þeirra fyrirtækja sem koma til með að nýta sér viðburðinn. Einnig hafa fyrirspurnir frá fjölmiðlum í tengslum við sjálfbæra ferðaþjónustu aukist til muna og Visit Iceland hefur fengið mikla athygli tengt sjálfbærni.

Eitt af stærstu verkefnum Grænvangs er að gefa út loftlagsvegvísi atvinnulífsins. Samtök ferðaþjónustunnar komu að útgáfu fyrsta loftlagsvegvísisins og tóku þá saman stöðu greinarinnar og tillögur að úrbótum. Aukin áhugi á Íslandi af hálfu erlendra ferðamanna hafði eðlilega í för með sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda sem mikilvægt er að vera meðvituð um.

Að lokum nefndi Birta Kristín að það væri á allra færi að grænka sinn rekstur og mikilvægt að hefja þá vegferð sem fyrst. Í þeirri vinnu væri lykilatriði að setja sér markmið, tilgreina stefnu og stilla upp árangursríkum aðgerðum

Að lokum stjórnaði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF pallborði en í pallborðinu töluðu:

Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Arctic Adventures

Jón Gestur Ólafsson gæða og öryggisstjóri hjá Höldi – Bílaleigu Akureyrar.

Linda Jóhannessdóttir eigandi Eyja Guldsmeden Hotel.

Hægt er að sjá fundinn í heild sinni hér.