fbpx

Ferðaþjónusta nýrra tíma – Nýársmálstofa Íslenska ferðaklasans, SAF og KPMG

Þann 11. janúar 2022 fór Nýársmálstofa ferðaþjónustunnar fram í beinu streymi. Líkt og undanfarin ár var horft inn í nýtt ár og helstu tækifæri og áskoranir framundan var velt upp. Nýársmálstofan var haldin í samstarfi Íslenska ferðaklasans, SAF og KPMG.

Í upphafi ávarpaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra málstofuna en hún hóf erindið á persónulegu nótunum og sagði frá því hvernig ævintýragjörn dóttir hennar hafi nýverið óskað sérstaklega eftir því að fá að heimsækja sem flesta staði á Íslandi. Lilja benti á að ýmisleg umskipti væru að eiga sér stað í ferðaþjónustunni, nýtt ráðuneyti ferðaþjónustunnar er í undirbúningi og rekstrarumhverfið gjörbreytt. Lilja lýsti jafnframt yfir aðdáun sinni á viðbragði fyrirtækjanna í greininni við breyttu landslagi og taldi það með ólíkindum hvað fólkið í greininni hafi sýnt af sér mikinn dugnað að undanförnu.

Því næst tók Aldís Hafsteinsdóttir til máls. Hún er formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðisbæjar. Í erindi sínnu fjallaði Aldís um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu. Hún sagði frá því að Samband Íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu lagt áherslu á að ríki, sveitarfélög, landeigendur og ferðaþjónustan vinni saman að því að draga úr neikvæðum áhrifum af aukinni áhrifum ferðamanna á viðkvæma staði í íslenskri náttúru. Einnig að ferðamönnum verði stýrt inná landssvæði sem þola vel umferð, tekjur af gistináttagjaldi renni til sveitarfélaga og að menningartengd ferðaþjónusta njóti aukins stuðnings stjórnvalda.

Aldís nefndi að ferðaþjónustan væri ótrúlegur drifkraftur fyrir sveitarfélög og að vöxtur ferðaþjónustunnar hefði gjörbreytt lífsskilyrðum heilu landshlutanna til hins betra og að fjölgun ferðamanna hafi gefið áður óþekkt tækifæri til vaxtar og tekjuöflunar. Í þessari velgengni væri jafnframt mikilvægt að tekjur væru skildar eftir í héraði.

Einnig væri mikilvægt að hafa í huga að tekjum væri misskipt eftir landshlutum og að landsbyggðin upplifði hagleka af sínum svæðum til höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega á svæðum sem væru í „dagsferðaradíus“ í kringum höfuðborgarsvæðið, þar að segja að ferðamenn koma í miklum mæli og skoða en gista svo á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi tekjumissi fyrir sveitarfélögin.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er afar mikilvægur að mati Aldísar þar sem sveitarfélög kosta oft miklu til í uppbyggingu innviða og þjónustu við ferðamenn. Oftar en ekki væru engar beinar tekjur á móti þeim kostnaði. Sjóðurinn hefur stutt við fjölda verkefna vítt og breitt um landið og gert sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum kleift að þróa ferðaþjónustu sem þá mikilvægu stoð í íslensku atvinnulífi sem greinin er orðin.

Byggðastofnun er einnig mikilvægur bakhjarl og máli sínu til stuðnings nefndi Aldís að lán til ferðaþjónustu væri nú um fjórðungur af heildarútlánum Byggðastofnunar eða um 5 milljarðar króna. Mest af lánsfénu hafi farið til Suðurlands þar sem straumur ferðamanna er hvað mestur en aðrir landshlutar fylgja svo nokkuð jafnir þar á eftir. Aðkoma Byggðastofnunar væri lífsnauðsynleg í smærri byggðum fjarri höfuðborginni þar sem aðgengi að fjármagni er oft takmarkað. COVID19 hefur haft mikil áhrif á lánastarfsemi stofnunarinnar en 76% lántakenda í ferðaþjónustu fengu skilmálabreytingu með einhverjum hætti. Nánast allar breytingar um skilmálabreytingar hafa verið samþykktar sem er mikilvægur stuðningur við greinina við þessar aðstæður.

Þegar kom að tekjum sveitarfélaga lagði Aldís áherslu á að útsvarstekjur af launum í ferðaþjónustu skipta sveitarfélögin miklu máli en ekki síður tekjur sem þau afleiddu störf sem greininni fylgja skapa.

Tekjurnar eru mjög mismunandi eftir sveitarfélögum en Aldís tók dæmi af Mýrdalshreppi. Sjá hér að neðan.

Aldís nefndi nokkur dæmi um vel heppnaða uppbyggingu í sveitarfélögum vegna ferðaþjónustu. 3800 fermetra verslunarmiðstöð í Vík í Mýrdal sem býr til um 15-20 ný störf í bænum.

Að lokum nefnir Aldís að ferðaþjónusta auðgar líf íbúa sveitarfélagsins. Máli sínu til stuðnings nefndi hún að íbúar finna fyrir auknum möguleikum til afþreyingar, fleiri og fjölbreyttari veitingahús, skemmtilegir gistimöguleikar og svo framvegis.

Því næst tók Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans til máls en í sínu erindi fjallaði hún um umhverfismál og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Ásta hóf störf hjá Íslenska ferðaklasanum í byrjun árs 2016 og greindi hún frá því að mikið vatn hafi runnið til sjávar í umhverfis og sjálfbærnimálum í greininni síðan þá. Mjög ánægjulegt væri að sjá aukningu í áherslum á umhverfis og sjálfbærnimál meðal fyrirtækja og nú væru stjórnvöld búin að setja sér metnaðarfull markmið um að Ísland sem áfangastaður yrði leiðandi í sjálfbærni á árinu 2030. Ef ná á þessu markmiði þarf að koma sér saman um þær aðgerðir og aðferðir sem greinin ætlar að nota til að ná í mark.

Að mati Ástu næst langmesti árangurinn þegar við vinnum saman og við speglum okkur í aðferðum hvors annars. Sem betur fer höfum við verkefni til að gera það með skilvirkum hætti. Verkefni líkt og Ábyrga ferðaþjónustu. Þar er tækifæri til að miðla miklu meiru heldur en hefur verið gert hingað til.

Það er margt sem bendir til þess að ferðaþjónusta sé að breytast á ógnarhraða og segist Ásta sannfærð um að nú séum við að sigla inn í ferðaþjónustu nýrra tíma. Þessar breytingar eru ekki til skamms tíma. Fólk er nú þegar farið að setja sér markmið um sjálfbærni í sínum ferðalögum og það á bara eftir að aukast með nýjum kynslóðum ferðamanna sem hugsar allt öðruvísi en fólk gerði fyrir 10 eða 20 árum síðan.

Ásta greindi frá heimsþingi Global Sustainable Tourism Council sem fram fór í desember þar sem þessi mál voru krufin til mergjar. Þar kom skýrt fram að stórir ferðaheildsalar og birgjar út í heimi leggja í auknum mæli áherslu á að þeirra samstarfsfyrirtæki séu með stefnu í málefnum sjálfbærni og umhverfis og séu með einhverskonar vottun þess efnis. Þetta hefur auðvitað keðjuverkandi áhrif svo það í raun tímaspursmál hvenær við þurfum öll að marka okkur afgerandi stefnu í þessum málum.

Ásta greindi jafnframt frá nýju verkefni sem Ferðaklasinn hefur á sinni könnu og er hýst hjá Atvinnuvegaráðuneytinu. Það verkefni miðar að því að skilgreina hvernig Norðurlöndin geta ekki einungis náð kolefnishlutleysi heldur gengið lengra og skilað jákvæðum umhverfislegum afgangi. Með þessu verkefni er ætlunin að færa sjálfbærni upp á næsta stig og kallast verkefnið Regenerative Tourism.

Að lokum nefndi Ásta að nú væri kominn tími til að fjárfesta í framtíðarmálum sem eru umhverfismál og taka þau föstum tökum. Einnig að horfa á málefnið sem þau viðskiptatækifæri sem þau svo sannarlega eru. Þau fyrirtæki sem taka umhverfismálin og gæðamálin föstum tökum eru fljót að sjá fjárhagslega ávinninginn sem af því hlýst.

Því næst tók Jón Bjarki Bentsson til máls. Jón Bjarki er aðalhagfræðingur Íslandsbanka en hans erindi fjallaði um efnahag ferðaþjónustunnar á nýjum tímum. Jón hóf sína tölu á þeim orðum að þó það væri kalt úti og myrkur og veiran skæða geysaði enn þá væri ýmislegt sem benti til þess að árið yrði gott.

Árið í fyrra var betra heldur en margir óttuðust. Ferðaþjónustan vann varnarsigur á síðasta ári þegar um 700.000 ferðamenn komu til landsins. Heldur fleiri heldur spáð hafði verið. Það sem skipti einnig máli var að hver ferðamaður skilaði talsvert meira í tekjum heldur en fyrir Covid. Í kjölfarið vakna upp spurningar um breytta samsetningu eða ferðahegðun. Tekjur af erlendum ferðamönnum einhverstaðar í kringum 200 milljarða króna á síðasta ári.

Jón Bjarki gerir ráð fyrir auknum hagvexti árið 2022 eða um 4,4% í stað 4,2% á árinu 2021. Þannig draga má þá ályktun að þegar öllu er til haga haldið þá erum við að koma betur frá kórónuveiru kreppunni heldur en gert var ráð fyrir. Stór hluti hagvaxtar á næsta ári kemur til vegna útflutnings og þar er auðvitað ferðaþjónustan stór hluti. Talið er að útflutningur komi til með að aukast um fimmtung á þessu ári eða tvöfalt hraðar heldur en í fyrra.

Varðandi fjölda ferðamanna þá nefnir Jón Bjarki að líkur eru á að ferðamenn verði um 1,3 milljónir á þessu ári en árið 2023 verði þeir um 1,5 milljón.

Hvað sumrin 2020 og 2021 varðar þá eru þau dæmi um skjótan vöxt þegar aðstæður batna. Annað athyglivert er að ferðamenn virðast dvelja lengur á landinu en bókunartíminn hefur styst.

Jón Bjarki ræddi einnig um stöðu krónunnar en bendir á að gott jafnvægi hafi ríkt á gjaldeyrismarkaði frá öðrum ársfjórðungi 2021. Krónan sé nú 7% veikari í ársbyrjun 2022 en árið 2019. Framhaldið ráðist af verðbólgu og launakostnaði.

Að lokum nefndi Jón Bjarki að árið 2021 var umfram væntingar sem er jákvætt og að 2022 líti ágætlega út en þær áskoranir sem beri að varast eru krónan, launakostnaður, framboðsskortur og vaxtakostnaður.

Því næst tók Sævar Kristinsson, sérfræðingur hjá KPMG til máls. Hann kynnti niðurstöður skoðanakönnunar ferðaþjónustunnar. Þetta var í fjórða sinn sem könnunin var framkvæmd en hún var gerð í desember 2021. 96 svör bárust sem eru færri svör heldur en áður hefur verið.

Í upphafi sagði Sævar að svörin bæru merki þeirra aðstæðna sem greinin og heimsbyggðin öll byggi við um þessar mundir, þar að segja afleiðingar af heimsfaraldrinum. Þrátt fyrir það virðist vera ákveðin bjartsýni sem er ríkjandi.

Sævar benti á að tæplega tveir þriðju forsvarsfólks ferðaþjónustufyrirtækja telja að samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar muni styrkjast eða standa í stað á milli ára.

Jafnframt kom fram að mikill meirihluti eða 77% að ríkisstjórnin þurfi í ljósi heimsfaraldursins að grípa til enn frekari aðgerða til að styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Auk svipaðra aðgerða og þegar hefur verið gripið til leggja svarendur áherslu á aukinn stöðugleika. Hér má svo sjá hvað fyrirtækin töldu skipta sitt fyrirtæki mestu máli á komandi ári.

Nánar má lesa um niðurstöðu könnunarinnar hér.