fbpx

Jólakveðja frá Íslenska ferðaklasanum

 

Kæru ferðaklasafélagar

Um leið og við óskum ykkur gleðilegrar jólahátíðar langar okkur að þakka fyrir einstaklega gott samstarf á árinu sem er að líða. Þrátt fyrir hinn þráláta faraldur sem engan enda virðist ætla að taka þá höfum við inn á milli náð góðum sprettum saman. Á árinu sem senn er að ljúka náðum við að halda tvær Ratsjár með þátttöku frá fyrirtækjum af öllu landinu, alls voru 130 fyrirtæki sem fóru í gegnum 16 vikna prógramm og er einstaklega gaman að segja frá því að Ratsjáin verður aftur á dagskrá í febrúar 2022 þökk sé öflugum stuðningi landshlutasamtakanna. Meira um það ásamt umsóknarfresti síðar.

Árið 2022 er enn óskrifað blað og enn þá margir óvissuþættir sem erfitt er að sjá fyrir hvernig fara, við verðum samt að vona að við þokumst nær því að geta lifað sem eðlilegustu lífi, a.m.k. þegar líður á árið.

Áhersluverkefni Íslenska ferðaklasans á árinu 2022 verða enn frekari sókn í sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ferðaþjónustunnar, nýsköpun og efling starfandi fyrirtækja sem og frumkvöðla stuðningur og áhersla á enn frekari hæfni þegar kemur að innleiðingu stafrænna lausna í ferðaþjónustu.

Íslenski ferðaklasinn er óhagnaðardrifið félag sem hefur það megin markmið að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Það er okkur mikið kappsmál að vera lifandi verkefnavettvangur fyrir fyrirtækin stór og smá en í ljósi erfiðrar stöðu ferðaþjónustunnar síðustu tvö ár hefur einungis verið innheimt um 30% af aðildagjöldum. Það hefur kallað á skapandi tekjuöflun sem hefur m.a. falið í sér sókn í erlend verkefni og alþjóðlega sjóði. Þrjú slík verkefni eru nú í sjónmáli og munum við segja frá þeim á næstu vikum.