fbpx

Fjölnýting náttúruauðlinda styður við sjálfbærni í ferðaþjónustu

Aðildafélagar að Íslenska ferðaklasanum eru af öllum stærðum og gerðum og líka úr mjög ólíkum geirum atvinnulífsins. Allir hafa þeir það þó sameiginlegt að vinna að framtíðarþróun og uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu. 

Ferðaklasinn hefur sett fram þrjú skýr verkefnamarkmið fyrir árið 2022 en þau felast í nýsköpun, sjálfbærni og stafrænni umbreytingu fyrirtækja. 
 
Undir hatti sjálfbærninnar munum við deila með ykkur ólíkum verkefnum og sýn klasafélaga okkar á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar. Hvar liggja tækifærin til framtíðar og hvaða áskoranir ætlum við að takast á í sameiningu. 
 
Nú kynnumst við því hvað Bláa Lónið hefur fram að færa þegar kemur að þessum málum.
 

Bláa Lónið hf. hefur, allt frá stofnun fyrirtækisins árið 1992, unnið að hringrásarhagkerfi. Jarðsjórinn á svæðinu kemur af 2000 metra dýpi úr jarðhitakerfinu í Svartsengi og myndar hann lón á yfirborði hraunsins, betur þekkt sem Bláa Lónið. Upphaflega var litið á hann sem hrakstraum en rannsóknir leiddu síðar í ljós að hann hefur einstakan lækningamátt og inniheldur lífvirk efni sem vinna gegn öldrun húðar. Á grunni þessarra rannsókna hefur Bláa Lónið í kjölfarið þróað fjölbreyttar vörur og þjónustu sem byggja á einstökum eiginleikum jarðsjávarins; heilsulind á heimsmælikvarða, meðferð fyrir psoriasis sjúklinga og húðvörulínur sem markaðssettar eru undir vörumerki fyrirtækisins Blue Lagoon Iceland. Jarðsjórinn er því einstakt dæmi um fjölnýtingu og fullnýtingu jarðvarmastrauma sem verða til við virkjun jarðvarmans.

Mikil áhersla er lögð á að nýta staðbundna strauma með sjálfbærum hætti og hefur hugmyndafræði Auðlindagarðsins á Reykjanesi um að skapa samfélag án sóunar verið leiðarljós í þeirri þróun. Gott dæmi um slíkt er örþörungaræktun Bláa Lónsins. Koltvísýringsríkt (CO2) jarðvarmagas, sem losnar við orkuvinnslu á svæðinu og færi annars út í andrúmsloftið, er leitt inn í þörungaræktunarkerfi Bláa Lónsins þar sem þörungarnir binda það og nýta sér til vaxtar.

Bláa Lónið hefur mótað og skilgreint visthring sinn (Geothermal ecocycle) sem lýsir ferðalagi jarðsjávarins og því hvernig fyrirtækið vinnur í átt að hringrásarhagkerfi.

Ávallt er horft til auðlindastraumanna og fullnýtingu þeirra í öllum rekstri fyrirtækisins, til dæmis í hönnun á upplifunarferlum, vöruþróun og uppbyggingu á svæðinu. Þannig er reksturinn samofinn fjölnýtingu þessara dýrmætu strauma og er lykilþáttur í að skapa einstaka tengingu mannsins við náttúruna og verndun nærliggjandi umhverfis fyrir komandi kynslóðir.

Áhersla á umhverfismál er innbyggð í menningu fyrirtækisins og er stöðugt unnið að þróun á því sviði. Í umhverfisstefnu fyrirtækisins eru þrjár megin áherslur: sjálfbærni, kolefnishlutleysi og afnám einnota plasts. Haldið er utanum alla kolefnislosun rekstursins og árlega eru sett markmið og umbótaverkefni skilgreind til  að draga úr losun koltvísýrings. Sá hluti sem eftir liggur er kolefnisjafnaður í gegnum Kolvið og hefur fyrirtækið stuðlað að gróðursetningu yfir 35.000 trjáa síðastliðin þrjú ár. Plastspor rekstursins hefur einnig verið kortlagt og markvisst er unnið í að skipta út einnota plastvörum og umbúðum fyrir umhverfisvænni lausnir.

Til að tryggja áframhaldandi umbætur og aðhald í stjórnkerfi fyrirtæksins var það vottað samkvæmt ISO9001, ISO14001 og ISO45001 síðastliðið sumar. Bláa Lónið hefur einnig fjölda annarra vottana og hlotið margvíslegar viðurkenningar á sviði hönnunar og ferðaþjónustu undanfarin ár. Það var sérstakur heiður fyrir starfsfólk Bláa Lónsins þegar það var útnefnt Umhverfisfyrirtæki ársins 2021 af Samtökum atvinnulífsins og hvatning til áframhaldandi góðra verka.

Höfundur er Fannar Jónsson, gæða- og umhverfisstjóri Bláa Lónsins

 

https://www.bluelagoon.com/