fbpx

Sjálfbær ferðaþjónusta í hringrásarhagkerfi

Aðildafélagar að Íslenska ferðaklasanum eru af öllum stærðum og gerðum og líka úr mjög ólíkum geirum atvinnulífsins. Allir hafa þeir það þó sameiginlegt að vinna að framtíðarþróun og uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu. 

Ferðaklasinn hefur sett fram þrjú skýr verkefnamarkmið fyrir árið 2022 en þau felast í nýsköpun, sjálfbærni og stafrænni umbreytingu fyrirtækja. 
Undir hatti sjálfbærninnar munum við á næstu vikum deila með ykkur ólíkum verkefnum og sýn klasafélga okkar á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar. Hvar liggja tækifærin til framtíðar og hvaða áskoranir ætlum við að takast á í sameiningu. 
Við byrjum á að kynnast því hvað verkfræðistofan Efla hefur fram að færa þegar kemur að þessum málum.

Sjálfbær ferðaþjónusta í hringrásarhagkerfinu

Líkt og umræða síðustu ára hefur kennt okkur hafa allar okkar athafnir og neysla, þ.e. vörur sem við kaupum, matur, þjónusta, flug og ferðalög, áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda og notkun auðlinda. En hvað þýðir þetta fyrir ferðaþjónustuna? Eigum við að gera sem minnst og hætta að taka á móti ferðamönnum til Íslands? Eða eru tækifæri fólgin í þessari áskorun?

Útsýnispallur við Svartafoss. EFLA sá um landmælingar, burðarvirki og eftirlit og útboðsgögn. Landmótun um hönnun pallsins.
Útsýnispallur við Svartafoss. EFLA sá um landmælingar, burðarvirki og eftirlit og útboðsgögn. Landmótun um hönnun pallsins.

Eins og vísindin hafa sýnt fram á stöndum við frammi fyrir stórum umhverfislegum áskorunum á komandi árum.  Við þurfum að hafa hraðar hendur, því umhverfið/náttúran bíður ekki og lausnin er margslungin sem felst meðal annars í því að við þurfum að breyta kerfinu sem við þrífumst öll í og hrærumst: Hagkerfinu okkar.

Hringrásarhagkerfið. Mynd EFLA
Hringrásarhagkerfið. Mynd EFLA

Nú þarf hið línulega hagkerfi: „taka auðlindir -framleiða – nota – henda“ að víkja fyrir hringrásarhagkerfinu: „auðlindir – framleiða – nota – endurnota – endurvinna“. Til þess að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt og takmarka losun gróðurhúsalofttegunda er hringrásarhagkerfið talinn lykilþáttur. Með þessari breytingu á hagkerfi heimsins er talið að losun gróðurhúsalofttegunda myndi lækka um 40% á heimsvísu (The circularity gap report).

Nýja hagkerfið: Hringrásarhagkerfið, miðar að því að endurskilgreina vöxt hagkerfisins út frá jákvæðum ávinningi samfélagsins. Þar eru neytendur meðvitaðir um hvaða áhrif neysla þeirra hefur á umhverfið og fyrirtæki þurfa að svara kalli um ábyrga framleiðslu. Því þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína m.t.t. hönnunar,  nýtingu auðlinda, efnisvali, endurnýtingar og fleira er tengist framleiðslu.

Í ferðaþjónustu eru ýmis tækifæri, stór og smá, sem tengjast hringrásarhugsuninni. Hér má nefna til dæmis tækifæri er felast í því að nýta eldri muni til innanhúshönnunar og skreytinga; svo sem bækur og gömul húsgögn. Einnig er hægt að gefa gömlum handklæðum og lökum nýtt líf í formi fjölnota poka. Önnur stærri tækifæri í að draga úr auðlinda notkun og losun gróðurhúsalofttegunda eru þó tengd byggingarframkvæmdum ferðaþjónustunnar (val á byggingarefnum, orkunotkun og fleira) og hámarksnýtingu matvæla, bæði hráefna og matarafganga. Gott dæmi um nýsköpun tengda hringrásar ferðamennsku frá Danmörku er hótel sem er útbúið bókunarkerfi sem skráir hvaða herbergi eru ekki bókuð yfir nótt og loka þá fyrir upphitun í ónýttum herbergjum. Á sama hóteli er matarafgöngum safnað saman í tank þar sem lífgas úr matarafgöngum er safnað og notað til upphitunar.

Ísgöngin í Langjökli. EFLA var þróunaraðili verkefnisins fyrstu þrjú árin, sá um tæknilega hönnun hellisins, skipulags- og leyfismál, lýsingarhönnun og framkvæmdaeftirlit.
Ísgöngin í Langjökli. EFLA var þróunaraðili verkefnisins fyrstu þrjú árin, sá um tæknilega hönnun hellisins, skipulags- og leyfismál, lýsingarhönnun og framkvæmdaeftirlit.

Tækifærin eru mörg fyrir ferðaþjónustuna við innleiðingu hringrásarhagkerfishugsunar í starfsemina, þar sem sjálfbærni og meðvitund um áhrif gjörða mannsins á náttúruna  er lykilþáttur. Skýr stefnumörkun og framtíðarsýn varðandi sjálfbærni og umhverfismál getur einnig veitt fyrirtækjum samkeppnisforskot og haft jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækis. Þannig leggjum við okkar af mörkum svo að við og komandi kynslóðir fái að ferðast um þessa einstöku og fallegu jörð um ókomna framtíð.

Höfundar starfa við ráðgjöf á sviði samfélags hjá EFLU.
Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur, og Lára Kristín Þorvaldsdóttir, umhverfisverkfræðingur