fbpx

Við kynnum nýjan liðsmann: Ólöf Ýrr Atladóttir

Á næstu vikum mun Ferðaklasinn leiða nýtt verkefni sem fjármagnað er af Norrænu ráðherranefndinni og unnið í breiðu samstarfi aðila á norðurlöndunum. Ráðuneyti ferðamála (áður ANR) er ábyrgðaaðili verkefnisins en Ferðaklasinn fer með framkvæmd í samstarfi við stýrihóp sem skipaður hefur verið yfir verkefnið. Í stórum dráttum gengur verkefnið útá að vinna að þróun á mælikvörðum fyrir jákvæð áhrif ferðaþjónustu á náttúruna, samfélag og efnahag, samvinnu þvert á norðurlöndin og jafningjarýni áfangastaða og fyrirtækja. Óskað verður eftir bæði aðkomu áfangastaðastofa sem og fyrirtækja til þátttöku.

Á dögunum gerði Ferðaklasinn verkefnasamning við Ólöfu Ýrr Atladóttur um að leiða verkefnið og þróa áfram á næstu mánuðum. Erum við afskaplega ánægð með þann ráðahag og bjóðum Ólöfu hjartanlega velkomna í Klasaskútuna. Nýlega hóf Ólöf Ýrr störf hjá Háskólanum á Hólum þar sem hún stýrir sviði rannsókna og nýsköpunar ásamt því að eiga ásamt eiginmanni sínum ferðaþjónustufyrirtækin Sóta Summits og Summit Heliskiing á Tröllaskaga.

Ólöf Ýrr gegndi embætti ferðamálastjóra á Íslandi 2008-2017 og tók virkan þátt í í þeirri umbreytingu íslenskrar ferðaþjónustu sem átti sér stað á þeim árum. Til ársins 2021 bjó hún í Sádi-Arabíu, þar sem hún starfaði í þrjú ár að uppbyggingu ferðaþjónustu við Rauða hafið og í Al Ula.