fbpx

Ratsjáin 2021

Ratsjáin fór formlega af stað í janúarbyrjun með þátttöku aðila frá 85 fyrirtækjum. Þátttakendur eru af öllu landinu og frá fyrirtækjum í breiðri virðiskeðju ferðaþjónustunnar sem hafa það markmið að nýta tímann núna til að efla sig eins mikið og mögulegt er til að takast á við nýja tíma. Fyrirkomulagið er þannig að allir þátttakendur hittast aðra hverja viku á samtengdum fræðslu vinnustofum en hina vikuna á milli hittast þau inná sínum svæðum þar sem unnið er með efni vinnustofanna á meiri dýpt bæði fyrir svæðin sjálf sem og með meiri fókus á jafningjarýni og þekkingayfirfærslu þeirra á milli.

Ratsjánni er skipt upp í sjö lotur en fyrstu fjórar hafa nú þegar verið keyrðar með góðum árangri og virkri þátttöku. Markmið Ratsjánnar er halda fyrirtækjaeigendum í rekstrarlegu formi og undirbúa aðila enn betur fyrir endurræsingu ferðaþjónustunnar. Það sem kemur svo í ljós er að fyrst of fremst þurfum við öll á því að halda að spegla okkur í öðru fólki, heyra hvað aðrir eru að gera, læra af jafningjum okkar og passa uppá hvort annað.

Fyrsta lotan fór fram í fyrstu viku janúar þegar við settum fókusinn á markaðsmál, sýnileika, markhópanna og hvernig best væri að vinna með fyrirliggjandi gögn. Það voru þau Sigga Dögg fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, Bárður Gunnarsson frá Svartatindi og Ása Steinarsdóttir markaðs og samfélagsmiðla gúru sem hófu leika á fyrstu vinnustofunni. Í framhaldi tók síðan hver landshluti þá vinnu með sér inná svæðisbundinn heimafund og velti upp tækifærum fyrir sín fyrirtæki og svæðið í heild.

Lota númer tvö fjallaði svo um reksturinn í breiðu samhengi og þar fengu þátttakendur erindi og fræðslu allt frá jákvæðri sjálfræði frá Jóhanni Inga til sviðsmyndagreininga og praktískrar notkunar á þeim fyrir reksturinn frá Sævari hjá KPMG. Ásta Kristín, framkvæmdastjóri Ferðaklasans kynnti síðan greiningatól Ratsjánnar fyrir þátttakendum þar sem farið er í gegnum 360°sjálfsmat á öllum þáttum rekstrarins og aðilar meta hvar þeir standa miðað við mismunandi forsendur og hvar eru tækifæri til úrbóta. Á heimafundinum var síðan farið betur inná þá þætti sem aðilar töldu sig þurfa aukinn styrk ásamt því að skiptast á góðum ráðum varðandi þætti sem þau hafa mismunandi þekkingu og reynslu á að vinna með.

Í lotu þrjú tókum við flugið með skapandi hugsun og hönnunarferlið í gegnum alla ferla fyrirtækisins. Birna Dröfn doktorsnemi í skapandi hugsun tók þátttakendur á skapandi hugarflug og kynnti ýmsar æfingar til að útvíkka hugann og vinna með skapandi ferli í vöruþróun. Rósbjörg Jónsdóttir ráðgjafi og framkvæmdastjóri Congnitio kynnti hugmyndafræði hönnunarhugsunar til að vinna með sérstöðugreningu, samkeppnishæfni og hönnun áfangastaða með upplifun ferðamannsins í huga. Það er skemmst frá því að segja að þátttakendur fengu heldur betur gott hugarfóður til að fara með inná heimafundina þar sem unnið var nánar með sérstöðu hvers fyrirtækis og tenginu við sérstöðu svæðanna og þær áfangastaðaáætlanir sem fyrir liggja í hverjum landshluta.

Fjórða lotan sem fram fór í líðandi viku tók okkur í stafræna vegferð en það var Inga Rós Antoníusdóttir, stafrænn verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu sem leiddi fyrri hluta þeirrar vinnustofu. Útgangspunkturinn var ferðalangur framtíðarinnar og allar þær nýju tæknilausnir og snertilausu lausnir sem aðilar gera mun meiri kröfur um og hafa verið að þróast hratt á síðustu misserum. Hún kynnti mismunandi leiðir bæði til að einfalda þjónustu og eins til að auka gegnsæi, þrif, hreinlæti og auka á upplifun gestanna. Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri 1238 – sýndarveruleika á Sauðarkróki og einn af þátttakendum í Ratsjánni leyfði okkur að skyggnast inn í tækniheiminn þeirra og fór m.a yfir tækifærin í aukinni áherslu á stafrænni leiðsögn. Í lokin var það svo Björgvin Pétur frá Jökulá sem ræddi mikilvægi þess að fyrirtæki fjárfestu í upplifun í gegnum notendavænar heimasíður og hvað væri algjörlega nauðsynlegt að hafa, hvað myndi auka sýnileika og hvernig best væri að skipuleggja heimasíður til að auka möguleika á sölu. Heimafundir þátttakenda munu svo fara fram í næstu viku með áherslu á hvernig þau geti bætt sína stafrænu vegferð til að auka sýnileika og sölu auk þess að veita gestum sínum framúrskarandi upplifun og þjónustu.

Næstu lotur munu svo fjalla um sjálfbærni, samfélagið og ábyrga ferðaþjónustu, nýsköpun og vöruþróun, öflugt kynningastarf og tengslanetið.

Milli funda hefur þátttakendum verið boðið uppá rýniviðtöl með framkvæmdaaðilum að verkefninu en það eru Íslenski ferðaklasinn og RATA sem sjá um utan umhald verkefnisins. Það eru síðan landshlutasamtök sjö landshluta sem leiða heimafundina og vinna með þátttakendum ýmist í stafrænum heimi eða í raunheimum. Allar samtengdu fræðslu vinnustofurnar fara fram á stafrænan hátt.