fbpx

Nýr starfsmaður Íslenska ferðaklasans

Árni Freyr Magnússon til liðs við Íslenska ferðaklasann

Íslenski ferðaklasinn auglýsti á dögunum eftir liðsauka til starfa hjá félaginu og hefur Árni Freyr Magnússon verið ráðinn.

Árni Freyr lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2018 en með námi sínu hefur hann lagt áherslu á efnahagssögu ásamt nýsköpunar og frumkvöðlafræði. Árni situr í nýsköpunar og frumkvöðlanefnd SHÍ en nefndin vinnur náið að framkvæmd Gulleggsins í samstarfi við Icelandic Startups.  Frá því í maí 2017 hefur Árni m.a starfað hjá Expert Media Partners í London ásamt því að klára nám við Háskólann.  Frá útskrift hefur Árni starfað með einu af tíu viðskiptateymum Startup Tourism við þróun og uppbyggingu fyrirtækisins.

Hlutverk Íslenska ferðaklasans er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun í íslenskri ferðaþjónustu. Við sinnum því hlutverki með verkefnum sem styðja við nýsköpun, frumkvæði, vöruþróun og aukna sérstöðu ásamt því að hafa í upphafi árs opnað nýjan starfsvettvang í Húsi ferðaklasans.  Verkefnin vaxa, aðildafélögum fjölgar og því er einstaklega ánægjulegt að fá fleiri hendur á dekk.

Við bjóðum Árna Frey hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að takast á við krefjandi, skapandi og ört vaxandi verkefni sem framundan eru.