fbpx

Viðspyrna ferðaþjónustunnar 2021 – Nýársmálstofa Ferðaklasans, KPMG og SAF

Þann 26. janúar fór Nýársfundur Íslenska ferðaklasans, KPMG og SAF fram í beinu streymi. Á fundinum héldu Sævar Kristinsson, rekstrarráðgjafi hjá KPMG, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs Icelandair og Knútur Ármann eigandi Friðheima erindi.

Sævar Kristinsson kynnti niðurstöður viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir ferðaþjónustufyrirtæki vikuna 18-22. janúar. Svörin báru skýr merki þeirra aðstæðna sem ferðaþjónustan og heimurinn allur býr við í kjölfar heimsfaraldursins. 191 fyrirtæki svöruðu könnuninni en dreifing svarenda snerti flest svið ferðaþjónustunnar. Gisting og afþreying með um fjórðung svara hvort og ferðaskrifstofur um 20%, aðrir minna.

Meðal annars var spurt um meðalfjölda starfsfólks hjá þátttökufyrirtækjunum borið saman við árið 2019. Í ljós kom að árið 2019 voru 9% fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri en árið 2020 voru þau orðin 4%. Þá fjölgaði fyrirtækjum með 1-10 starfsmenn úr 53% í 73%. Þá kom í ljós að meðalvelta fyrirtækjanna dróst stórkostlega saman, þar má nefna að 14% fyrirtækja voru með veltu frá 1-20 m.kr árið 2019 en árið 2020 voru þau 34%.

Hins vegar er ánægjulegt að það gætir bjartsýni hjá fyrirtækjunum en um 48% fyrirtækja telur að samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar á árinu 2021 muni styrkjast. Þeir þættir sem ferðaþjónustufyrirtæki telja að komi til með að skipta mestu máli árið 2021 er framboð flugs til og frá landinu. Í öðru sæti voru gengismál en þau voru í fyrsta sæti í fyrra og í þriðja sæti voru markaðsmálin.

Mikil seigla virðist vera til staðar í greininni en 92% fyrirtækjanna segjast ætla að halda sínu striki á meðan óvissan er við líði. 84% fyrirtækjanna töldu að ríkið þyrfti að gera meira til að koma til móts við fyrirtækin sem farið höfðu illa út úr heimsfaraldrinum. Í þessu samhengi var nefnt að fella niður opinber gjöld, hlutabótaleiðin, viðspyrnustyrkir og svo framvegis.

Því næst tók Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri til máls en hann kveðst hafa fulla trú á því að ferðaþjónustan komi aftur af fullum krafti. Áfallið vegna kórónuveirufaraldursins sé tímabundinn vandi.

Hann sagðist jafnframt telja að ferðaþjónustan sé mögulega á svipuðum stað og sjávarútvegurinn var þegar þorskstofninn hrundi árið 1988. Áfallið gaf tilefni til að hagræða í geiranum og blása til stórsóknar.

Ásgeir segir mikilvægt að fá erlenda ferðamenn að nýju til landsins.

„Við erum mjög smá þjóð í stóru landi og það hefur verið okkur gríðarlega dýrt að byggja upp innviði, vegi og þess háttar,“ segir Ásgeir. „Að einhverju leyti eru erlendir ferðamenn forsenda fyrir því að við getum byggt upp samgöngukerfi í landinu.“

Hann viðurkennir að landsmenn hafi ekki verið nógu röggsamir að byggja upp vegakerfið í samræmi við fjölgun notenda. Þó sé mikilvægt að muna að ferðamenn borgi til kerfisins: „Við erum að innheimta fyrir samgöngumannvirki með óbeinum sköttum.“

Eftir að Ásgeir lauk máli sínu tók Birna Ósk Einarsdóttir við en hún lagði áherslu á hversu mikilvægt væri að halda vörumerki Íslands sem ferðaþjónustulands lifandi á meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur.

„Við erum pínulítið flugfélag og erum að kynna pínulítið land. Við viljum vera sýnileg á lykilmörkuðum,“ sagði Birna Ósk og bætti síðar við: „Til þess að eiga séns þegar himnarnir opnast þá verðum við að vera með í umræðunni.“ Átti hún við þegar fólk byrjar að ferðast á milli landa líkt og áður en faraldurinn fór af stað.

„Við verðum tilbúin þegar himnarnir opnast. Við munum tryggja að við séum á staðnum þegar viðskiptavinir velta fyrir sér hvert þeir ætla að ferðast.“

Hún sagði Icelandair hafa þurft að veita meiri upplýsingar til viðskiptavina sinna en nokkru sinni fyrr á síðasta ári vegna veirunnar. Á sama tíma hafi fyrirtækið þurft að fækka í starfsmannahópnum.

Birna Ósk nefndi tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem var færð á netið í fyrra til að ná til áhugamanna um íslenska tónlist í faraldrinum. Það sé dæmi um það sem hefur þurft að gera til að halda Íslandi á kortinu. „Þetta hafa verið undarlegir tímar, mikil óvissa, upp og niður, fram og til baka. Næstu mánuðir verða það líka,“ sagði hún en tók fram að íslensk ferðaþjónusta sé mjög sterk og aðeins tímaspursmál hvenær hún kemst aftur á flug.

Einn af þáttunum sem hún tiltók varðandi endurkomu Íslands á kort ferðamennskunnar sagði hún árangur landsins í baráttunni við Covid-19. „Það er einstök saga að segja hvernig hefur gengið á Íslandi. Þessi saga skiptir máli. Það skiptir þá máli hvernig hefur tekist til í þeim löndum sem þeir eru að heimsækja,“ sagði hún og átti þar við erlenda ferðamenn. Landamærareglur og fyrirsjáanleiki væru lykilatriði í þessu samhengi.