fbpx

Samstarf sem skilar árangri fyrir heildina, ekki einn og einn

Aðalfundur Íslenska ferðaklasans fór fram fimmtudaginn 18.maí í höfuðstöðvum Verkís við Ofanleiti.

Aðalfundur Íslenska ferðaklasans fór fram fimmtudaginn 18.maí í höfuðstöðvum Verkís við Ofanleiti.

Fundi stýrði Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar og Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Podium ritaði fundagerð.

Fundurinn var að þessu sinni miðaður fyrst og fremst að aðildafélögum klasans auk þess sem helstu samstarfsaðilum var boðið að vera þátttakendur á fundinum.

Ásamt hefðbundnum aðalfundastörfum með skýrslu stjórnar og yfirferð ársreiknings var farið yfir verkefni og áherslur næsta starfsárs, siðareglur klasans samþykktar ásamt því að kjósa nýja stjórn.

Í upphafi fundar hélt formaður stjórnar, Sævar Skaptason stutt erindi þar sem hann fór yfir starfsemi klasans síðastliðið starfsár, helstu áskoranir í ferðaþjónustunni og þau stóru verkefni sem blasa við greininni. Í máli sínu lagði hann áherslu á mikilvægi ábyrgrar ferðaþjónustu, markvissrar stýringar ferðamanna, uppbyggingu í sátt við samfélögin sem greinin starfar í og hvatti klasaaðila til að standa heilshugar saman í mikilvægum verkefnum.

Þá kom fram í máli Sævars:

„Fyrirtækjadrifið hreyfiafl, eins og Íslenski ferðaklasinn, er að mínu mati dæmi um góða fjárfestingu fyrir eins öfluga og sívaxandi atvinnugrein og ferðaþjónusta er. Það er með samhentu átaki margra ólíkra aðila sem langtíma uppbygging getur átt sér stað sem skilar góðum niðurstöðum fyrir heildina, ekki bara einn og einn heldur greinina alla“

Skilaboð stjórnarformanns má finna hér.

Á fundinum var ný stjórn klasans samþykkt en hana skipa:

Magnea Guðmundsdóttir, – til vara Bergrún Björnsdóttir frá Bláa Lóninu, Pétur Óskarsson,- til vara Árni Gunnarsson frá Icelandair Group, Kristín Hrönn Guðmudsdóttir,- til vara Bjarnólfur Lárusson frá Íslandsbanka, Elín Árnadóttir,- til vara Guðný María Jóhanssdóttir frá Isavia, Þorsteinn Hjaltason,- til vara Davíð Björnsson frá Landsbankanum, Sigurhans Vignir, – til vara Daði Már Steinþórsson frá Valitor, Þórarinn Þór,- til vara Kristján Daníelsson frá Kynnisferðum, Sævar Skaptason frá HEY Iceland, Helgi Jóhannesson frá Lex lögmenn og Rannveig Grétarsdóttir frá Eldingu.

Breytingar á stjórn milli ára urðu þær að Grímur Sæmundsen sem var aðalmaður í stjórn 2015-2016 og varamaður 2016-2017 fer úr stjórn og fyrir hann kemur Bergrún Björnsdóttir frá Bláa Lóninu, þá hafa Árni Gunnarsson og Pétur Óskarsson sætaskipti þar sem Pétur kemur inn sem aðalmaður frá Icelandair Group, sama á við um Þorstein Hjaltason og Davíð Björnsson hjá Landsbankanum og Þórarinn Þór og Kristján Daníelsson hjá Kynnisferðum.

Framkvæmdastjóri Ferðaklasans, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, kynnti áhersluverkefni 2017-2018 en þau verða áfram unnin undir kjarnaverkefnastofnunum þremur: Fjárfestingar í ferðaþjónustu, Sérstaða svæða og Ábyrg ferðaþjónusta. Ásamt þessum kjarnaverkefnum verður áhersla á verkefni sem efla innri markaðssetningu í ferðaþjónustu en í viðhorfskönnun til klasafélaga komu fram sterk skilaboð um að efla þyrfti samvinnu og samtal milli aðila enn frekar ásamt því að brúa bil og auka þekkingu á greininni almennt í samfélaginu okkar. Þá frumsýndi framkvæmdastjóri nýtt merki og kynningarefni Ferðaklasans ásamt því að sína nýja heimasíðu sem hefur nú formlega verið sett í loftið. Hönnuður að merki og kynningarefni klasans er sænski hönnuðurinn Daniel Byström en vefsíðuhönnun og forritun hefur Tara Ösp Tjörvadóttir, margmiðlunarhönnuður, haft veg og vanda að.

Eftir hefðbundin aðalfundastörf fengu gestir að heyra tvö stutt erindi en þau fluttu Guðný María Jóhannsdóttir frá Isavia og Arnór Þ Sigfússon frá gestgjöfum okkar í Verkís en hann er einnig framkvæmdastjóri Sannra landvætta sem stofnað var af tveimur klasaaðilum, tæknifyrirtækinu Bergrisa og Verkís. Erindið hennar Guðnýar má finna hér.

Í lok fundar bauð Verkís fundagestum léttar veitingar og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir frábærar móttökur.