fbpx

Hey Iceland handhafi hvatningarverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu 2019

Í dag var dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu haldinn hátíðlegur á Hótel Sögu, en það var Bjarnheiður Hallsdóttir formaður stjórnar SAF sem stýrði fundinum.

Í upphafi opnaði Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans fundinn, þar sem hún sagði frá framtíðarhorfum verkefnisins. Því næst fjallaði Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu um nýja Loftlagsmælinn. Frumkvöðlarnir Eyþór Máni Steinarsson, Hannes Árni Hannesson og Sólon Örn Sævarsson sögðu frá því hvernig þeir forrituðu vefútgáfu Loftlagsmælisins í 24 tíma hakkaþoni á menningarnótt þann 23. ágúst 2019. Hægt er að sjá loftlagsmælinn á climatepulse.is.

Forseti Íslands hélt svo erindi og sagði frá því þegar forsetafjölskyldan gerðust ferðamenn í eigin landi í liðinni viku og heimsóttu Reynisfjöru þar sem forsetinn varð vitni að háskalegu gáleysi ferðamanns þrátt fyrir áberandi skilti. Einnig heimsótti forsetinn Icelandic Lava Show sem hlaut sérstaka viðurkenningu á Nýsköpunarverðlaunum SAF og Hellana við Hellu.

Að lokum kynnti forsetinn verðlaunahafa hvatningaverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu en að þessu sinni var það Hey Iceland sem hlaut verðlaunin en í rökstuðning dómnefndar segir meðal annars:

Hey Iceland byggir á traustum grunni Ferðaþjónustu bænda og hefur starfað eftir sjálfbærnistefnu frá árinu 2002. Fyrirtækið hefur verið þátttakandi í Ábyrgri ferðaþjónustu frá upphafi og sett sér og birt markmið  í tengslum við áherslur Ábyrgrar ferðaþjónustu á heimasíðu sinni auk þess sem fyrirtækið hefur sett sér mælikvarða til þess að meta árangur sinn.

Fyrirtækið er gæðavottað af Vakanum, með gull-umhverfismerki og sýnilegt er að áhersla er lögð á

sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins. Þá hvetur Hey Iceland samstarfsfyrirtæki sín til þess að vera með vottun hjá Vakanum og hefur þannig jákvæð áhrif á sitt nærsamfélag og ferðaþjónustu á Íslandi.

Hey Iceland stefnir að kolefnisjöfnun á öllu flugi Bændaferða árið 2020 og mun kolefnisjafna sína

starfsemi samhliða því. Hey Iceland sýnir fordæmi fyrir aðra aðila í þessum skrefum og á starfsfólks Hey Iceland á hrós skilið fyrir metnaðarfull verkefni á sviði umhverfismála. Þá ber einnig að nefna verkefnið „Hleðsla í hlaði“ sem unnið hefur verið að í samstarfi við fjölda aðila.

Fyrirtækið er með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi og er í einstakri stöðu til að hvetja aðra til

góðra verka og vinna saman að verkefnum heimsmarkmiða Sameinuð þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Margar flottar tilnefningar bárust dómnefnd en var niðurstaðan sú að Hey Iceland væri vel að þessum hvatningarverðlaunum komin, og þá sérstaklega vegna þess áhrifamáttar sem fyrirtækið getur haft á aðra. Hey Iceland hefur mikið tækifæri til að vera innblástur og fyrirmynd í ábyrgri ferðaþjónustu fyrir samstarfsfélaga sína og ferðaþjónustu á Íslandi.

Það var Hugrún Hannesdóttir sem tók við verðlaununum fyrir hönd Hey Iceland.

Í dómnefnd voru þau Berglind Sigmarsdóttir, stjórnarkona í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjúnkt við Háskóla Íslands og Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit.

Eftir að verðlaunin voru afhent og fulltrúi Hey Iceland hafði þakkað fyrir sig tók Andri Snær Magnason til máls og vakti aðila ferðaþjónustunnar til umhugsunar um stöðu greinarinnar þegar kemur að umhverfismálum