fbpx

Vel heppnuð Ratsjá á Norðurlandi vestra

Ratsjáin, nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var sett af stað á Norðurlandi vestra í upphafi árs. Þátttakendur í verkefninu voru metnaðarfullir stjórnendur frá eftirtöldum ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu:

Hvert fyrirtæki var heimsótt einu sinni af öllum hinum fyrirtækjunum og þeirra rekstur tekinn fyrir og ræddur á þeim fundum. Ásamt því að fá inn nýja þekkingu og verkfæri til að vinna með fólst mesta vinnan í greiningu á rekstri, þekkingaryfirfærslu og ráðgjöf frá öðrum þátttakendum í verkefninu.

Þátttökufyrirtækin í Ratsjánni á Norðurlandi vestra endurspegluðu vel þá fjölbreytni sem finna má á svæðinu en þar voru allt í senn afþreyingafyrirtæki, hótel og ferðaskrifstofur.

Framkvæmdaaðilar Ratsjárinnar, Ferðaklasinn og Nýsköpunarmiðstöð Íslands þakka þátttakendum fyrir þeirra framlag og horfa björtum augum til uppbyggingar á enn öflugri ferðaþjónustu á svæðinu.  Samtakamáttur og samvinna innan svæða er mikilvægur hlekkur í öflugri ferðaþjónustukeðju sem gefur fyrirtækjunum enn meiri möguleika á að ná til gesta sem stoppa lengur við á svæðinu, upplifa meira og nýta sér enn fleiri þjónustuþætti. Eitt af helstu markmiðum verkefnisins er að fyrirtækin nýti tímann á meðan á verkefninu stendur til að forgangsraða mikilvægum rekstarþáttum, gera sér grein fyrir getu sinni til vöruþróunar og notkunar á mismunandi viðskiptatólum.  Þá er einnig farið ýtarlega í gegnum SVÓT greiningar,  markhópagreiningar og hversu móttækileg og tilbúin fyrirtækin eru til nýsköpunar.  Vinnan sem eftir stendur er þó sú mikilvægasta en það er að innleiða þær breytingar og úrbótatillögur sem komu út úr greiningavinnunni.

Fimmti og síðasti fundur verkefnisins fór fram hjá Seal Travel á Hvammstanga í blíðskaparveðri sl. mánudag þar sem hópurinn fékk kynningu á fyrirtækinu og skoðaði um leið Selasetur Íslands. Greiningarvinnan fór síðan fram á Hótel Laugarbakka og borðaði hópurinn saman að fundi loknum og styrkti enn frekar stoðirnar sem er einmitt mikilvægur hluti verkefnisins. Orð Tómasar Árdal hjá Spíru ehf. á lokafundi endurspegla einmitt mikilvægi tengslamyndunar í ferðaþjónustu  “Þátttaka í þessu verkefni hefur fært okkur sem hóp á svæðinu þéttar saman sem gefur okkur miklu fleiri tækifæri til að vinna betur saman”. Ennfrekar sagði Evelyn Ýr Kuhne hjá Ferðaþjónustunni Lýtingsstöðum að “Samveran í Ratsjánni var frábært vítamín í vetur, nú er að vinna úr þeim verkefnum sem komu fram”.

Við þökkum öllum þátttakendum Ratsjárinnar á Norðurlandi vestra fyrir virkilega ánægjulegar stundir á liðnum vikum og hlökkum til að fylgjast með þessum flottu fyrirtækjum í framtíðinni.

Ratsjáin á Norðurlandi vestra var sú fjórða sem haldin hefur verið víðsvegar um landið frá árinu 2016. Í upphafi ársins 2019 hlaut verkefnið sérstakan stuðning í gegnum Byggðaáætlun sem styður við verkefnið og framkvæmd þess út árið 2021 sem gerir framkvæmdaaðilum kleift að bjóða uppá verkefnið í öllum landshlutum.