fbpx

Nýársmálstofa Ferðaklasans, KPMG og SAF

Framtíð ferðaþjónustunnar – Fall eða fararheill?

Nýársfundur Ferðaklasans, SAF og KPMG

 

Þann 30. janúar stóðu Ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar og KPMG fyrir sameiginlegum morgunfundi um helstu málefni og tækifæri ferðaþjónustunnar og var yfirskriftin að þessu sinni Framtíð ferðaþjónustunnar – Fall eða fararheill?

 

Er innlend kostnaðaraukning og óstöðugleiki í tekjum komin yfir þolmörk?

Alexander G Eðvarðsson, einn af meðeigendum KPMG, tók fyrir þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað í breyttu regluverki í kringum leyfismál og tryggingar hjá ferðaþjónustuaðilum. Fór hann þá sérstaklega í gegnum breytingar á bókhaldshluta og hvernig skipta þyrfti  tekjum milli mismunandi tímabila eftir því hvenær ferðir og eða þjónusta er framkvæmd.

Í seinni hluta erindisins fór Alexander yfir þróun á tekju og gjaldahlið ferðaþjónustufyrirtækja og hvernig ytri aðstæður hafa gert þeim æ erfiðara fyrir í almennum rekstri og erlendri samkeppni. Þá sýndi hann t.a.m dæmi þess hvernig á sama tíma og gengi nánast allra gjaldmiðla þeirra landa sem sækja Ísland heim hafði styrkst verulega á árunum 2012-2017 sem leiddi til lægri tekna þá höfðu á sama tíma flestir þeir þættir sem mynda gjaldahliðina verið ferðaþjónustunni verulega óhagstæðir, má þar nefna hækkun byggingavísitölu, hærri fjármagnskostnað og háan launakostnað. Hafa ber í huga að þó að krónan hafi veikst milli 2017-2018 hefur gengismunur hvergi nærri jafnað sig. Það verður því að teljast verulega óheppilegt í mikilli samkeppni við aðra áfangastaði í heiminum að búa við umhverfi þar sem möguleikar til tekjumyndunar eru bundnir miklum óstöðuleika í gengismálum á sama tíma og innlendur kostnaður er þungur og bundin töluverðri óvissu í yfirstandandi kjaradeilum.

Stóru straumarnir – hættum að bregðast við og byrjum að leiða þróunina.

Stafræn þróun, aukin fjölbreytni og ábyrg ferðaþjónusta er meðal þeirra stóru strauma sem Hjörtur Smárason og Inga Rós Antoníusdóttir ræddu í sínu erind en þau vörpuðu einnig ljósi á ferðaþjónustuna og tækifærin í aðeins stærra samhengi og með áherslu á möguleikana til framtíðar.  Hjörtur hefur haldið námskeið og veitt ráðgjöf við þróun ferðaþjónustu víða um heim og kenndi við Háskólann á Hólum áður en hann flutti erlendis. Inga Rós er fyrrum starfsmaður Expedia fyrir Ísland og var þar áður markaðsstjóri hjá öflugu nýsköpunarfyrirtæki í Danmörku, auk þess að hafa kennt markaðssetningu og stjórnun. Saman reka þau markaðsráðgjafafyrirtæki í Kaupmannahöfn og hafa meðal annars veitt ráðgjöf við enduruppbyggingu ferðaþjónustu í Nepal eftir jarðskjálftana 2015.

Á fundinum ræddu þau m.a um mikilvægi þess að fyrirtæki sýndu frumkvæði og nýttu tímann núna til þess að setja áherslu á vöruþróun og nýsköpun tengd þeim megatrendum sem nefnd voru hér að ofan því það muni hafa mikið að segja um stöðu þeirra til framtíðar á markaði. Aukin þörf gesta fyrir meiri þjónustu, á auknum hraða og allan sólahringinn kallar á nýja tækni og nýja nálgun. Kom Inga Rós m.a inná þá hröðu þróun sem svokallað chatbot sem gæti útlagst á íslensku sem “spjallmenni” hefur haft í þjónustu geiranum og hversu öflug sú þróun er og þá sér í lagi í samhengi við háan launakostnað og takmarkaðs aðgengi að starfsfólki. Þá hvöttu þau fyrirtækin sérstaklega til að huga að gæðum og yfirburða þjónustu. Einnig væri gríðarlega mikilvægt fyrir fyrirtækin að þekkja vel sína viðskiptavini og vita hvar þeirra styrkleikar í starfi liggja.  Gera frekar fáa hluti afburða vel í stað þess að reyna að gera ótal hluti sæmilega og jafnvel illa, í því felst líka aukin vinna við sterkt vörumerki, aukna tækniþekkingu og að hafa það hugfast að verð og gæði verða að fara saman. Mikilvægt sé að nýta þá stöðu sem nú er uppi til að huga að hagræðingu og skipulagi fyrirtækisins með það fyrir augum að styrkja stöðu sína til lengri tíma. Í lok erindis fór Hjörtur einnig yfir mikilvægi þess að vera á varðbergi fyrir mögulegum hættumerkjum og að besta leiðin til þess sé að hafa skýra stefnu og yfirsýn yfir sinn rekstur. Staldra við og huga að þeim straumum sem eru mest áberandi og hafa í huga að þjónusta og upplifun verður að endurspegla þau loforð og væntingar sem gefin séu, ef þú getur ekki keppt í verðum, þá verður þú að skara frammúr á öðrum sviðum!  Í kjölfar fundarins fór Inga Rós í viðtal í Samfélaginu á Rás 1 en viðtalið má heyra hér.

Hagræðing, bætt upplifun og gæði ásamt einu góðu eldgosi.

Sem undanfara að fundinum var send út viðhorfskönnun til fjölda ferðaþjónustufyrirtækja og söfnuðust um og yfir 200 svör. Voru þátttakendur spurðir um helstu tækifæri og ógnanir ásamt því að vera beðnir um að forgangsraða þeim þáttum sem þeir töldu að myndi hafa mest áhrif á rekstur fyrirtækisins á næstu misserum. Í lok könnunar voru stjórnendur spurðir út í afstöðu þeirra til kjaramála og til hvaða aðgerða, ef einhverra, þeir þyrftu að taka ef til mikilla launahækkana kæmi.  Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG fór yfir helstu niðurstöður könnunarinnar en það ætti kannski ekki að koma á óvart að þau þrjú atriði sem aðilar í ferðaþjónustu töldu að myndu hafa mest áhrif á þeirra rekstur á árinu 2019 tengdust gjaldeyrisþróun, kjaradeilum og hagræðingu í rekstri. Þegar stjórnendur voru spurðir út í helstu tækifæri á árinu 2019 voru margir sem töldu að beint flug á fleiri áfangastaði sbr. Akureyri og Egilsstaði gæti bætt upplifun og til lengri tíma væri það sókn á önnur markaðssvæði sbr. Asíu og Indland ásamt því að miðla betur því sem vel er gert í ábyrgri ferðaþjónustu. Helstu ógnir bæði til skemmri tíma og lengri eru að mati stjórnenda áfram gengismál og þá voru fjölmargir sem nefndu óvissu í flugi sem helstu ógn.  Frekari upplýsingar um helstu svör er að finna í kynningu Sævar sem er hér í meðfylgjandi upptöku.

Vöndum okkur, þá er framtíðin björt!

Bjarnheiður Hallsdóttir, stjórnarformaður Samtaka ferðaþjónustunnar átti lokaorðin á fundinum en hún minnti fundamenn á að um leið og væri mikilvægt að horfa til framtíðar með bjartsýni að þá væri staðan í ferðaþjónustunni akkúrat um þessar mundir óvenju óljósar og tímar framundan sem kölluðu á aukinn skilning og samvinnu á því hvernig greinin stendur og hversu viðkvæm staða margra fyrirtækja væri, sér í lagi þeirra sem standa hvað lengst frá höfuðborginni. Þrátt fyrir þennan ólgusjó minnti Bjarnheiður á að lífskjör langsmanna hefðu aldrei verið eins góð og um þessar mundir og er það fyrst og fremst örum vexti ferðaþjónustunnar að þakka. Þá tók hún undir það sem áður hafði komið fram um að mikið hafi dregið úr fjölgun ferðamanna síðasta árið og að ytri aðstæður hvað varðar gengi og háan innlendan kostnað hafi haft neikvæð áhrif á rekstrargrunn fyrirtækjanna. Þá hafi samsetning ferðamanna og breytt ferðahegðun einnig töluverð áhrif.

Bjarnheiður vitnaði í nýyfirstaðinn fund Isavia sem fjallaði um farþegaspár fyrir árið 2019 en spár gera ráð fyrir lítilsháttar minnkun á komu ferðamanna. Lagði hún sérstaka áherslu á að þó þessar spár séu jafnvel í bjartsýnari kanti að þá verður að hafa það í huga að það skiptir ekki höfuðmáli hversu margir einstaklingar koma í gegnum Leifstöð heldur hvernig gestir og hvaðan þeir séu, hversu mikið við getum þjónustað þá og hversu lengi þeir eru reiðubúnir að dvelja hjá okkur. Það  er því allt spurning um aukið virði af hverjum ferðamanni og gæði umfram magn.

Vegna yfirstandandi kjaradeilna er aukin hætta á að ferðaþjónustan geti dregist inn í verkfallsaðgerðir og með því ekki aðeins dregið úr þjónustu og upplifun á yfirstandandi tímabili heldur er orðspor áfangastaðarins í hættu.  Ef samið verður um almennar launahækkanir þar sem svigrúmið er frá engu til mjög lítils er ljóst að samkeppnishæfni íslenskra ferðaþjónustu fyrirtækja heldur áfram að minnka og að taka þurfi til annarra aðgerða innan fyrirtækjanna til þess að halda velli.

Þrátt fyrir ólgu í núverandi ástandi og óvissu á næstu misserum brýndi Bjarnheiður fundargesti í lokin með því að minna á að ferðaþjónusta ætt sér bjarta framtíð, hún væri sú grein sem væri í mestum vexti í heiminum og að Íslendingar með alla sínu frábæru möguleika gætu þar staðið fremstir meðal jafningja.  Til þess að okkur gæti farnast sem best þyrfti hins vegar að stórefla rannsóknir í greininni, ljúka mikilvægum innviða verkefnum, klára heildar stefnumótun fyrir greinina og koma í veg fyrir svarta og ólöglega starfsemi á vettvangi ferðaþjónustu.

Allar kynningar má finna í máli og myndum á meðfylgjandi slóð