fbpx

Minnumst Magneu með þakklæti og virðingu

 

Í dag verður Magnea Guðmundsdóttir borin til grafar en hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar á Landsspítalanum þann 13.október sl.

Magnea var okkur hjá Íslenska ferðaklasanum einstaklega kær og lagði mikið til samstarfsins en hún sat í stjórn klasans frá stofnun hans  2015 til dánardags.

Magnea  var fædd 19. apríl 1969, dóttir hjónanna Guðmundar Inga Hildissonar og Bjarnhildar Helgu Lárusdóttur. Systir Magneu mer Ragnheiður María Guðmundsdóttir.

Magnea ólst upp í Keflavík þar sem hún gekk í barna- og grunnskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1989. Magnea lauk BA prófi í almannatengslum frá háskólanum í Alabama 1994 og mastersprófi í sama fagi frá sama skóla ári síðar. Magnea starfaði sem kynningarstjóri og við almannatengsl hjá Bláa Lóninu frá 1998 til dánardags og tók virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins sem er leiðandi í ferðaþjónustu á Íslandi.

Magnea tók virkan þátt í atvinnulífinu auk samfélags og félagsmála en auk þess að vera virkur stjórnarmaður Ferðaklasans kemur fram á vef Reykjanesbæjar að hún m.a varamaður í stjórn Keilis um tíma, varamaður í stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. við stofnun þess og síðar stjórnarmaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sat í stjórn Reykjanes Geopark, í stjórn íslenska ferðaklasans og var um tíma stjórnarmaður í stjórn Festu, lífeyrissjóðs. Hún var varamaður í stjórn HS Veitna frá 2009 og síðan aðalmaður frá 2011 til dánardags.

 

Magnea sat í stjórn Markaðs- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar frá 2002-2006, var aðalmaður í Atvinnu- og hafnarráði 2006-2010 og í Umhverfis- og skipulagsráði frá 2010 til 2017, þar af sem formaður þess á árunum 2010-2014. Magnea sat í bæjarráði um fjögurra ára skeið, 2010-2014.

Við hjá Íslenska ferðaklasanum þökkum Magneu samfylgdina og hennar mikilvæga framlag til þróunar og uppbyggingar í ferðaþjónustu. Við sendum fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.