fbpx

Ábyrg markaðssetning í ferðaþjónustu – Fer saman hljóð og mynd?

Skiptir ábyrg markaðssetning máli?

Á fjölmennum morgunverðarfundi sem Ferðaklasinn, Íslandsstofa og Festa, félag um samfélagsábyrgð, stóðu fyrir 13.september voru málefni ábyrgrar markaðssetningar í ferðaþjónustu í brennidepli.

Við fengum til liðs við okkur aðila sem tóku málefnið fyrir frá mismunandi sjónarhóli þannig að hægt væri að nýta þennan vettvang til að dýpka og vanda umræðuna um hvað getur talist ábyrgt og hvað hreinlega mjög óábyrgt þegar kemur að kynningu og myndbirtingum um áfangastaðinn Ísland.

Í fyrsta erindi fundarins kom Hákon Ásgeirsson, verkefnastjóri friðlýstra svæða hjá Umhverfisstofnun inná mikilvægi þess að segja rétt og satt frá þeim aðstæðum sem fyrir augum bæri, hann starfar á vettvangi ferðaþjónustunnar og upplifir því á eigin skinni þær væntingar sem gestir á fjölförnum stöðum á suðurlandi hafa. Hann kom inná það í sínu máli að gæta þyrfti sérstakleg að því hvernig friðlýst svæði eru kynnt og að náttúran ætti í öllum tilfellum að njóta vafans.

Í öðru erindi dagsins kom Sveinn Waage, verkefnastjóri á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu inná mikilvægi ábyrgra myndbirtinga og með hvaða hætti óábyrgar dreifingar á myndefni gætu hreinlega verið hættulegar og hvatt til óábyrgra athafna. Hann lagði áherslu á að við bærum öll ábyrgð á því að deila ekki efni sem við værum í vafa um að væri á gráu svæði og að samvinna í þessum málum skilaði okkur slagkrafti.

Þriðja erindið kom frá Daða Ólafssyni, sérfræðingi á sviði neytendaréttar hjá Neytendastofu. Hann lagði áherslu á að lagarammi auglýsinga og markaðssefnis væri skýr og að í engum tilfellum væri ásættanlegt að auglýsa eða gefa í skyn þætti sem ekki væri hægt með sannarlegum hætti að standa við. Þá kom hann inná mismunandi þætti til dreifinga á efni, s.s áhrifavalda, samfélagsmiðla og í gegnum stjörnukerfi þjónustuaðila. Hann lagði mikla áherslu á að ef um ágreiningsmál væri að ræða og ferðaþjónustaaðilar sem um ræddi væru ekki í SAF þá væri enginn annar vettvangur utan dómstóla til að taka á ágreiningi. Hann hvatti því verulega til þess að ábyrgir ferðaþjónustuaðilar væru á þeim vettvangi.

Að lokum fengum við Rannveigu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnandi Eldingar, hvalaskoðunarfyirirtækisins, til að koma með sjónarhorn fyrirtækisins og hvernig þau höguðu sínu markaðs og kynningarefni. Í stuttu máli kom fram hjá Rannveigu að mikilvægast af öllu væri að lofa aldrei neinu sem þú gætir ekki staðið við og að stýra væntingum væri stór þáttur af ánægju viðskiptavina. Að segja hlutina með heiðarleika og hreinskilni frekar en að selja í ferð sem óánægja yrði með. Þá lagði hún áherslu á það í máli sínu að þau birti aðeins myndir sem þau taka sjálf af raunverulegum aðstæðum og að viðskiptavinir þeirra kunni að meta það gegnsæi sem þau bjóða.

Lokaorð Rannveigar eru lýsandi fyrir þann vettvang sem ábyrg ferðaþjónusta er og ábyrg markaðssetning í þeim efnum. Við leyfum þeim að standa hér í lokin um leið og við þökkum þeim fjölmörgu sem mættu á fundinn og þeim sem horfðu á beint streymi sem er að finna hér að neðan ásamt glærunum.

„Seljum Ísland eins og það er til þeirra sem kunna að meta og skilja viðkvæma náttúru  landsins.  Ferðamenn vilja flestir ferðast um landið með ábyrgum hætti og það er okkar ábyrgð að upplýsa þá um hvernig þeir eiga að ferðast um landið á ábyrgan og öryggan hátt þar sem haft er í huga viðkvæm náttúra og dýralíf landsins.“ Rannveig Grétarsdóttir“

Upptökur af fundinum eru á facebook síðu Íslenska ferðaklasans.

Glærur frá fundinum eru að finna hér.